Heilabilun nær yfir margs konar einkenni, meðal þeirra eru minnisskerðing og aðrar truflanir í hugsanaferli. Hugtakið nær yfir nokkra sjúkdóma. Flest tilvik, 60-80 prósent má rekja til Alzheimer sjúkdóms. Heilabilun af völdum æðasjúkdóma er næstalgengasta orsökin og stafar af skertu blóðflæði til hluta heilans.
Talið er að um 2.500 - 2800 einstaklingar þjáist af heilabilun á Íslandi. Líklegt er að fjöldinn muni aukast á næstu árum enda fer fjöldi aldraðra einstaklinga hratt vaxandi hér á landi. Forvarnaraðgerðir eru gríðarlega mikilvægar. Stóra spurningin er því hvað við getum gert sjálf til að forðast heilabilun. Hversu mikil áhrif hafa mataræði og lífsstíll.
The New England Journal of Medicine er eitt virtasta læknisfræðitímarit í heimi. Þar hafa birst niðurstöður margra af þekktustu rannsóknum fræðigreinarinnar. Í ágúst s.l birtist þar áhugaverð grein eftir bandaríska sérfræðinga sem fjallaði um rannsókn á tengslum blóðsykurs við hættuna á heilabilun.
Þekkt er að sykursýki er einn af sterkustu áhættuþáttum heilabilunar. Tíðni heilabilunar hefur vaxið samfara hratt vaxandi tíðni sykursýki. Einstaklingar með sykursýki hafa að jafnaði of háan blóðsykur. Hins vegar er ekki vitað hvort blóðsykurgildi tengjast aukinni hættu á heilabilun meðal einstaklinga sem ekki hafa sykursýki.
Rannsókn bandarísku vísindamannanna náði til 2.067 fullorðinna einstaklinga sem gengust undir reglulegar mælingar á blóðsykri og fylgt var eftir í að meðaltali sex og hálft ár. Alls fengu 524 einstaklingar í þessum hópi heilabilun. Marktæk fylgni var á milli blóðsykurs og hættunnar að fá heilabilun. Því hærri sem blóðsykur var, því meiri var hættan á heilabilun. Höfundarnir draga þá ályktun að hár blóðsykur hafi slæm áhrif á heilafrumur sem eru að eldast. Mikilvægt sé að leita leiða til að koma í veg fyrir að blóðsykur sé of hár. Því telja þeir líklegt að ráðstafanir sem verða til þess að draga úr tíðni offitu og sykursýki muni lækka tíðni heilabilunar.
Höfundar greinarinnar fara varlega þegar þeir túlka niðurstöðurnar. Þótt þeir lýsi sterkri fylgni á milli blóðsykurs og hættunnar á heilabilun fjalla þeir lítið sem ekkert um leiðir til úrbóta. Hafa þarf í huga að fylgni af þessu tagi sannar ekki orsakasamband.
Þegar kemur að mataræði er ljóst að neysla sykurs og einfaldra kolvetna er sú fæða sem hækkar blóðsykur mest.
Niðurstöður ofangreindrar rannsóknar ættu að verða okkur hvatning til að draga úr neyslu sykurs og unninna kolvetna. Þetta á ekki síður við um börn en fullorðna.
Kennum börnunum hollustu þegar kemur að mataræði og hjálpum þeim að forðast sykur og óholl kolvetni sem markaðsöflin sífellt freista okkar með.
Grein fengin af síðu mataraeði.is