Til þess að hinar ýmsu fæðutegundir nýtist vefjum líkamans þurfa nokkrir þættir að koma til, þ.e.a.s. melting, niðurbrot efna í einstaka hluta, upptaka í þörmum og loks flutningur til vefja líkamans. Þar nýtist fæðan vefjafrumum.
Þetta á einnig við um kolvetni, jafnt þau sem mynda langar keðjur (meltanlegar fjölsykrur) og stuttar (ein- og tvísykrur). Niðurbrot meltanlegra fjölsykra gerist í nokkrum áföngum þar sem svokölluð ensím (lífhvatar) kljúfa þær í smærri hluta. Þær brotna síðan enn frekar niður, allt til þess að blóðið taki efnin upp og flytji þau til hinna ýmsu vefja líkamans.
Hormón líkamans sjá til þess að ferli af þessu tagi gangi eðlilega fyrir sig. Þekktasta sykurhormónið er insúlín.
Kolvetnin fara í gegnum meltingarveginn áður en þau komast út í blóðið. Upptaka einsykraverður í slímhimnu þarmanna. Þær flytjast síðan áfram til lifrarinnar þaðan sem þær berast út í blóðið (blóðsykur) svo að frumur líkamans geti nýtt sykurinn til orkuframleiðslu. Sé ekki þörf fyrir meiri sykur í blóðinu getur hann ummyndast í glýkógen, annars vegar til geymslu í lifrinni og hins vegar í minna mæli sem forðasykur í vöðvum.
Melting fjölsykra hefst með því að hinar löngu keðjur klofna fyrir tilstilli ensíma í brissafanum, sem myndast í briskirtlinum. Þessi ensím geta ekki klofið sykrurnar nægilega mikið til þess að upptaka geti orðið og því klofna þær enn frekar í þörmunum. Mjólkursykur er ein þeirra sykrutegunda sem klofna fyrir tilstilli ensíma í þarmaslímhimnunni. Ef ensímið sem klýfur mjólkursykur virkar ekki sem skyldi verður upptaka mjólkursykurs ófullkomin (mjólkursykuróþol). Hann berst því áfram um meltingarveginn og getur valdið niðurgangi.
Glúkósi losnar út í blóðið þegar niðurbroti kolvetna er lokið og upptaka hefur farið fram. Á formi glúkósa flyst sykurinn til frumna líkamans þar sem hann er brotinn niður og nýttur til orkuframleiðslu. Sá sykur sem blóðið flytur er óbundinn, þ.e.a.s. hann binst ekki öðrum efnum í blóðinu.
Ef ekki reynist þörf fyrir allan þann sykur sem neytt hefur verið, hvort heldur er til orkuframleiðslu, viðhalds eða uppsöfnunar í lifur og vöðvum, þá getur sykurinn ummyndast í fitu.
Glúkósinn klofnar enn frekar niður inni í frumunum. Við það verður til orka, sem er nauðsynleg til að viðhalda hinni ýmsu líkamsstarfsemi.
Sum líffæri eru afar næm fyrir sykri (glúkósa) í blóðinu. Einkum eru heilinn og taugavefir háð því að styrkur blóðsykurs sé nógu hár til að tryggja nauðsynlegt og stöðugt sykurmagn. Þá þurfa vöðvarnir einnig sinn sykurskammt við áreynslu, þegar álagið er svo mikið að mjög hratt gengur á sykurforðann og mjólkursýra myndast með tilheyrandi harðsperrum.
Við eðlilegar aðstæður brennir líkaminn jafnt kolvetnum sem fitu. Þurfi líkaminn á skyndiorku að halda er fljótlegast að verða sér úti um hana með því að brenna kolvetnum. Séu kolvetni ekki fyrir hendi má brenna fitu í staðinn.
Ef fitubruni verður mjög mikill vegna þess að líkaminn getur ekki brennt kolvetnum, eins og gerist hjá mjög veikum sykursjúklingum, getur verið hætta á ketónblóðsýringu.
Sykurbúskapur líkamans stjórnast af hárfínu kerfi hormóna. Þekktustu hormónin eru insúlín og glúkagon.
Kolvetnarík máltíð hvetur til losun insúlíns. Hlutverk insúlíns er að stjórna flutningi sykurs til hinna ýmsu frumna líkamans, sem síðan nýta hann sem orkugjafa.
Ef styrkur blóðsykurs fellur niður fyrir tiltekið mark, þannig að frumur líkamans fá ekki nægan sykur, sér hormónið glúkagon um að skammta sykur úr forðageymslu (glýkogen) lifrarinnar.
Heimild: doktor.is