Stundum er talað um heilabilun og Alzheimer sjúkdóm eins og það sé sami hluturinn en svo er ekki. Heilabilun er ekki sjúkdómur, heldur hugtak sem notað er yfir vitræna skerðingu sem er svo mikil að hún hefur áhrif á daglegt líf einstaklingsins. Heilabilun lýsir í raun margs konar einkennum, meðal þeirra eru minnisskerðing og aðrar truflanir í hugsanaferli. Alzheimer sjúkdómur er algengasta tegund heilabilunar og skýrir 60-80% tilvika. Heilabilun af völdum æðasjúkdóma er næstalgengasta orsök heilabilunar og stafar af skertu blóðflæði til hluta heilans.
Alzheimer sjúkdómur er vaxandi áhyggjuefni, ekki síst í ljósi þess að hlutfall aldraðra einstaklinga í samfélaginu fer hratt vaxandi auk þess sem engin lækning við sjúkdómnum er í sjónmáli. Í dag er talið að 33.9 milljónir manna í heiminum þjáist af sjúkdómnum. Alzheimer sjúkdómur er sjötta algengasta dánarorsökin í Bandaríkjunum.
"Niðurstöður okkar benda til þess að rekja megi um helming Alzheimer tilvika til áhættuþátta sem unnt er að hafa áhrif á."
"Við teljum þetta eiga við um allar tegundir heilabilunar."
Barnes EB, Yaffe K
Lancet Neurology 2011
Það var þýski tauga- og geðlæknirinn Alois Alzheimer sem árið 1906 lýsti fyrstur manna sjúkdómnum sem síðar var nefndur eftir honum. Hann hafði greint óeðlilegar útfellingar í heila 51 árs gamallar konu sem þjáðst hafði af heilabilun. Í dag er vitað að sjúklingar með Alzheimer sjúkdóm fá útfellingar í heilann sem nefndar hafa verið "plaques" og "tangles". "Plaques" eru eggjahvítubútar sem samanstanda af beta-amyloid. Í dag eru miklar vonir bundnar við lyf sem draga úr uppsöfnun á beta-amyloid og er þegar verið að prófa slík lyf í klíniskum rannsóknum á mönnum.
Orsök Alzheimer sjúkdóms er óþekkt. Nokkrum áhættuþáttum hefur þó verið lýst. Hættan á að fá sjúkdóminn eykst verulega með hækkandi aldri. Ættarsaga skiptir talsverðu máli, meiri hætta er að fá sjúkdóminn ef hann hefur greinst hjá öðrum fjölskyldumeðlim. Svokallaður ApoE4 genabreytileiki er mjög sterkur áhættuþáttur fyrir Alzheimer sjúkdómi.
Hættan á að fá heilabilun af völdum æðasjúkdóms tengist sterklega áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma. Má þar helst telja háan blóðþrýsting, sykursýki, reykingar og háa blóðfitu. Það er því unnt að draga úr hættunni á þessarri tegund heilabilunar með því að reykja ekki, halda blóðþrýstingi og blóðfitum innan eðlilegra marka, hreyfa sig reglulega og neyta hollrar fæðu.
Þótt tengsl Alzheimer´s sjúkdóms og hinna ýmsu áhættuþátta séu ekki fyllilega skýr telja sérfræðingar að unnt sé að draga verulega úr algengi Alzheimers sjúkdóms með þvi að draga úr áhættuþáttum. Síðasta haust birtist áhugaverð grein um þetta efni í tímaritinu Lancet Neurology. Greinin er skrifuð af tveimur bandarískum geðlæknum sem starfa við UCSF (University of California, San Francisco). Í greininni lýsa prófessorarnir Deborah E. Barnes og Kristine Yaffe sjö helstu umhverfisáhættuþáttum sjúkdómsins og eigin útreikningum á vægi þeirra.
The projected effect of risk factor reduction on Alzheimer´s risk prevalence
Deborah E Barnes, Kristine Yaffe.
The Lancet Neurology, 10 (9), sept 2011;p 819-828.
Áhættuþættirnir sjö eru: sykursýki, háþrýstingur á miðjum aldri, offita á miðjum aldri, þunglyndi, kyrrseta, reykingar, lítil vitræn eða vitsmunaleg virkni (cognitive activity) eða lágt menntunarstig.
1. Sykursýki. Margar rannsóknir benda til tengsla á milli sykursýki og Alzheimer sjúkdóms. Um 2% tilvika af Alzheimer sjúkdómi má rekja til sykursýki. Ef algengi sykursýki í heiminum væri 10% lægra mætti búast við því að unnt væri að koma í veg fyrir 81.000 tilvika af Alzheimer sjúkdómi.
2. Hár blóðþrýstingur. Hár blóðþrýstingur á miðjum aldri er talinn áhættuþáttur fyrir Alzheimer sjúkdómi og er það stutt af allmörgum rannsóknum. Þetta virðist ekki eiga við um háþrýsting á efri árum. Talið er að um 5% Alzheimer tilvika megi rekja til háþrýstings. Ef algengi háþrýstings væri 10% lægra en það er í dag mætti koma í veg fyrir 160.000 tilvik af Alzheimer sjúkdómi í heiminum.
3. Offita. Marktæk tengsl virðast vera á milli offitu á miðjum aldri og Alzheimer sjúkdóms. Þessi tengsl virðast breytast með aldri. Þannig hafa rannsóknir sýnt að lág líkamsþyngd á fullorðinsárum tengist Alzemer sjúkdómi fremur en offita. Um 2% Alzheimer tilvika eru talin tengjast offitu á miðjum aldri. Lækkun á algengi offitu hjá miðaldra einstaklingum gæti fækkað Alzheimer tilvikum í heiminum um 67.000.
4. Þunglyndi. Rannsóknir benda til þess að þunglyndi auki hættuna á Alzheimer sjúkdómi umtalsvert. Rúmlega 10% Alzheimer tilvika má rekja til þunglyndis. Lækkun á algengi þunglyndis um 10% gæti fækkað Alzheimer tilvikum í heiminum um 326.000.
5. Kyrrseta. Margar rannsóknir benda tll tengsla á milli kyrrsetu og Alzheimer sjúkdóms. Klíniskar rannsóknir hafa einnig sýnt að hraustir aldraðir einstaklingar geta bætt vitræna starfsemi með líkamlegri þjálfun. Um 13% Alzheimer tilvika má rekja til of mikillar kyrrsetu. Ef kyrrseta minnkaði um 10% væri hugasnlega unnt að koma í veg fyrir 380.000 tilvik Alzheimer sjúkdóms í heiminum.
6. Reykingar. Árið 1995 reyktu 29% af íbúum jarðarinnar sem voru 15 ára og eldri. Hæst var tíðnin í Evrópu og Asíu eða 34%. Reykingatíðni er mjög breytileg eftir löndum. Árið 2009 reyktu 20.6% Bandaríkjamanna eldri en 18 ára. Árið 2002 reyktu 24% Íslendinga, árið 2006 var þessi tala komin niður í tæp 19%. Um 14% Alzheimer tilvika í heiminum má rekja til reykinga. Ef algengi reykinga minnkaði um 10% gæti Alzheimer tilvikum í heiminum fækkað um 412.000.
7. Lítil vitræn/vitsmunaleg virkni eða lágt menntunarstig. Ýmsar rannsóknir hafa bent til tengsla á milli lítillar vitsmunalegrar virkni og Alzheimer sjúkdóms. Klíniskar rannsóknir hafa einnig bent til þess að vitsmunaleg örvun eða þjálfun hjá öldruðum bæti vitræna starfsemi. Um 19% Alzheimar tilvika má rekja til skorts á vitsmunalegri virkni eða lágs menntunarstigs. Lækkun á algengi þessarra vandamála um 10% myndi hugsanlega fækka Alzheimer tilvikum í heiminum um 534.000.
“These days I walk into a room full of people and the only name I can remember is Alzheimer”
Unknown author
Grein af vef mataraedi.is