Fyrst ræddu Gunnar og Fríða Rún um fitu en margir velta fyrir sér hvað er eiginlega hollast í þeim efnum, með hverju á að smyrja brauðið sitt og upp úr hverju á að steikja. Fríða Rún benti á leiðbeiningar frá Embætti Landlæknis en þær leiðbeiningar styðjast við Norrænar ráðleggingar um næringu sem fjöldi vísindamanna af öllum norðurlöndunum unnu.
Það er ekki heildarmagn fitunnar sem skiptir máli heldur gæði hennar og má draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum ef hluta af mettuðu fitunni er skipt út fyrir fleirómettaðar og einómettaðar fitusýrur. Þetta má gera með því að takmarka neyslu á kexi, kökum, sælgæti og snakki og velja hollari vörur í staðinn. Til dæmis að velja hnetur, möndlur og fræ í staðinn fyrir snakk og ávexti, gróft brauð og heilkorna fræríkt hrökkbrauð í staðinn fyrir sætt kex.
Einnig, að skipta út feitum og unnum kjötvörum fyrir óunnið, magurt rautt kjöt og fuglakjöt en gott er að takmarka rautt kjöt við 500 g á viku sem samsvarar 2-3 máltíðum. Mikilvægt er að huga að fiskneyslunni en með því að velja fisk oftar og feitan fisk s.s. lax, bleikja, lúða, makríl og síld reglubundið má bæta heilnæmi mataræðisins í heild. Tvær til þrjár fiskmáltíðir á viku, þar sem hver fiskskammtur er um 150 g, er æskilegt fyrir okkur og leggur grunn að hollri samsetningu matseðilsins hvað varðar fitu og eykur hlut mjúkrar fitu á kostnað mettaðrar (harðrar) fitu.
Einnig snúast ráðleggingar um að velja fituminni mjólkurvörur sem oftast og að nota nota oftar olíur í staðinn fyrir smjörlíki og smjör við steikingu. Þær tegundir af olíur sem æskilegastar eru, eru ólífuolía, repjuolía og ISIO-4, einnig sesam og hörfræolía. Allar hafa þær sitt gildi bæði í heita og kalda eldhúsinu ef svo má segja. Það er til dæmis hollara að nota olíu á salatið sitt í staðinn fyrir tilbúna salatdressingu sem t.d. er gerð úr majonesi.
Aðrar fæðutegundir sem mæla má með eru lárpera (avocado) og lýsi, einnig gefa ólífur holla fitu. Varðandi viðbitið sem best er að nota þá snýst það fyrst og fremst um magnið sem smurt er með og fjöldi brauðsneiða sem borðaðar eru. Til samanburðar má nefna að hefðbundið smjör er 82% feitt og þar af 49% mettuð fita, smjörvi er 75% feitur og þar af 35% mettuð fita á meðan Létt og Laggot er 40% fita, þar af aðeins 16% mettuð fita.
Rauði þráðurinn er hins vegar sá að það er ekki æskilegt að skipta út mettaðri fitu fyrir fínunnin kolvetni, svo sem sykur og hvítt hveiti, þar sem það getur haft óæskileg áhrif. Einnig að það eigi alls ekki að borða mettaða fitu, markmiðið er fyrst og fremst að stilla henni í hóf og auka hlut mjúkrar fitu, sérstaklega fjölómettaða fitu. Þar að auki þarf að hugsa um gæði matvæla, þar á meðal uppruna fæðunnar og fæðumynstur frekar en næringarefnin ein og sér.
Sjá nánar í grein um þetta efni frá maí 2014: Mettuð fita eða ómettuð? – En áfram er mælt með að skipta út hluta af mettaðri fitu fyrir ómettaða fitu ásamt ítarefni neðst í þeirri grein.
Fríða Rún og Gunnar ræddu einnig muninn á milli súrdeigsbrauðs og hefðbundins brauðs. Fyrst og fremst er það grófleiki brauðsins sem ræður til um heilnæmi þessi ekki hvort að súrdeig eða annað deig er notað. Hins vegar finnst sumum að þeim verði betur af súrdeigsbrauði en gerbrauði og tengist það meltingunni.
Hvítt eða fínunnið brauð, er síður heilnæmt og nánast trefjalaust samanborið við brauð sem er ríkt af korni og fræjum. Slík brauð eru oft merkt með Skráargatsmerkinu eða heilkornamerkinu sem er ætlað að leiðbeina neytendum varðandi brauðneyslu. Til upplýsingar þá er okkur ráðlagt að borða um 25 g af trefjum á degi hverjum en inntaka meðal Íslendingsins er þó ekki nema 17 g á dag.
Fríða Rún Þórðardóttir
Dæmi um vörur sem bera Skráargatsmerkið má finna hér http://mast.is/matvaeli/skraargat/skaargatsmerktar-vorur/
Leiðbeiningar um Skráargatið
http://mast.is/library/Lei%C3%B0beiningar/SkraargatidKrofur2.pdf
Fleira var ekki tekið fyrir en hlýða má á viðtalið hér
http://www.ruv.is/frett/er-surdeigsbraud-hollara-en-onnur-braud?
Heimildir: Embætti Landlæknis, Heimasíða Matvælastofnun