Í gegnum tíðina hef ég aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af hunangi. Á mínu heimili var einstaka sinnum keypt hunang í stórverslun, svona til að eiga út í teið hjá eiginmanninum en að öðru leyti var það aldrei á listanum yfir ómissandi birgðir heimilisins.
Svo rann upp dagurinn þegar ég, rígfullorðin manneskjan, smakkaði alvöru íslenskt hunang í fyrsta sinn. Hvílíkt sælgæti! Dísætt hunangið fyllti bragðlaukana og öll önnur skilningarvit fóru á yfirsnúning. Allt í einu skildi ég hvers vegna frumbyggjar í myrkviðum Amazon lögðu líf sitt í hættu til að komast yfir þetta náttúrugull, klifruðu upp í himinhá tré án alls nútíma öryggisbúnaðar, göbbuðu frumskógarbýflugurnar með reyk (mér er mjög til efins að þær séu jafn skapgóðar og íslensku býflugurnar) og báru úr býtum óviðjafnanlegar kræsingar. Er skemmst frá því að segja að nú er alvöru íslensk hunang mjög ofarlega á listanum yfir það sem verður að vera til í mínu eldhúsi.
Býflugnaræktun er ung búgrein á Íslandi en þó er fjöldi býflugnaræktenda farinn að nálgast fyrsta hundraðið. Er það að þakka frumkvöðlum, eins og Agli R. Sigurgeirssyni lækni, sem kynntust býflugnaræktun erlendis og höfðu á því óbilandi trú að þessa búgrein væri alveg hægt að stunda hérlendis. Eftir nokkrar tilraunir með mismunandi býflugnastofna aðallega frá Svíþjóð og Noregi hafa íslenskir býflugnaræktendur sótt sínar flugur til Álandseyja. Býflugurnar frá Álandseyjum eru ákaflega skapgóðar og vinnusamar en hvort tveggja teljast miklir kostir í fari býflugna. Jafnframt er stofninn þar ósýktur af ýmiss konar sjúkdómum sem herja á býflugur víðs vegar um heiminn og ógna jafnvel framtíð lífríkis heimsins því án býflugna erum við ekkert.
Býflugur eru stórmerkileg dýr. Þær búa í flóknu samfélagi þar sem miðpunkturinn er drottningin og afkoma hennar. Í einu búi geta verið allt að 60.000 flugur. Flestar eru þær svokallaðar þernur og gegna þær skýrum hlutverkum við fæðuöflun, uppeldi ungviðis og almennt húshald í búunum. Karlflugur eru fáar og gegna eingöngu því hlutverki að makast við drottninguna og tryggja áframhaldandi vöxt stofnsins. Að mökunarhlutverkinu loknu deyja karlflugurnar og eru bornar út úr búinu. Þernurnar eru mjög vinnusaman og svífa milli blómanna í leit að sætum vökva sem þær flytja með heim í búið og breyta í hunang. Þernurnar geta látið aðrar þernur vita hversu langt og í hvaða átt fæðu er að finna, það gera þær með því að dansa sérstakan dans sem hefur mikið verið rannsakaður og þykir stórmerkilegur.
Almennt hafa býflugnaræktendur það að markmiði að framleiða sitt eigið hunang og afurðir úr því. Íslenska sumarið hefur veruleg áhrif á það hversu vel tekst til við hunangsframleiðsluna. Í rigningasömum sumrum eins og tvö undanfarin sumur hafa verið, er framleiðslan mun minni en í sólríku sumri því flugurnar fljúga ekki þegar rignir og kalt er í veðri. Í sumum tilfellum hafa býflugnabændur þurft að fóðra flugurnar á miðju sumri því þær hafa ekki náð að afla búinu nægrar fæðu. Það er í þessum búskap eins og öðrum að mikilvægt er að bóndinn sé vakandi yfir bústofninum og tryggi afkomu hans með öllum ráðum. Smám saman verða til reynsluvísindi í þessari búgrein eins og öðrum og hafa ræktendur verið ötulir við að miðla hverjum öðrum af reynslu sinni.
Viðhorf almennings á Íslandi gagnvart býflugnaræktun verður jákvæðara með hverju árinu sem líður. Þrátt fyrir það að Íslendingum sé upp til hópa mjög í nöp við hvers konar skorkvikindi þá erum við smátt og smátt að átta okkur á að býflugur falla alls ekki í þann flokk. Þetta er nytsamlegur bústofn rétt eins og kindur og kýr, einstaka býflugnabændur hafa jafnvel fullyrt að þeir séu svokallaðir suðfjárbændur.
Eftir að ég smakkaði íslenska hunangið í fyrsta sinn hefur mér lærst að hunang er alls ekki það sama og hunang. Mikill bragðmunur er á hunangi eftir því í hvaða plöntur flugurnar sækja og eftir árstímum. Þannig finnst mér sumarhunangið sólríkt og létt á bragðið og hausthunangið þyngra og bragðmeira. Mér finnst hunangið eiginlega best eintómt en það er líka dásamlegt að hella hunangsskvettu á jarðarber með rjóma.
Hunangið hefur sótthreinsandi eiginleika og er þess vegna tilvalið að fá sér góðan skammt af hunangi ef maður finnur að kvef eða hálsbólga séu í aðsigi. Hunang hefur nánast óendanlegt geymsluþol og þótt það þorni aðeins upp með tímanum þá skemmist það ekki.
Þetta er hin sannkallaða guðafæða. Ég elska hunang.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og hunangsfíkill.
Heimild: nlfi.is