Fara í efni

Hvað er barnaexem?

Hvað er barnaexem?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvað er barnaexem? 

Barnaexem er húðsjúkdómur sem lýsir sér sem kláði á afmörkuðum húðsvæðum og einnig 
sem litlar vatnsblöðrur á húðinni. Þegar exem brýst út verður húðin rauð og þegar barnið klórar 
sér myndast oft smásár og/eða hellur á húð. Slíkt kallast bráðaexem. 

Vari exem lengi, fleiri mánuði eða ár, þykknar húðin og verður þurr og skrælnuð. Slíkt er kallað 
langvinnt exem eða krónískt exem. Þegar talað er um langvinnt eða krónískt exem þýðir það þó ekki endilega að sjúkdómurinn kunni að vara alla ævi. 
Hjá flestum börnum með barnaexem hverfur sjúkdómurinn þegar þau eldast. 

Eftirtalin einkenni þurfa að vera til staðar til þess að um barnaexem sé að ræða:  

  • Óvenju mikill kláði í húð  Útbreiddur þurrkur í húð

  • Útbrot á þunnri húð, s.s. í olnbogabót, undir höndum og aftan á hnjám, sem og tilhneiging 
    til útbrota í andliti.  

  • Yfirleitt eru fyrstu einkennin á ungabörnum roði, þurrkur eða lítilsháttar útbrot í andliti. Í sumum tilvikum koma einkennin þó fyrst fram sem exem á fótum, hálsi eða á bleiusvæði. Haldi exem áfram fara að sjást útbrot í hnés- og olnbogabótum, á handleggjum og ökklum. Auk þessara útbrota getur húðin á öðrum svæðum líkamans verið þurr eða skrælnuð, einkum 
    að vetri til. 

  • Í sjaldgæfari tilfellum getur hlaupið sýking í exem og lýsir það sér þá sem gulleit skorpa á 
    húðinni. Oft er sýkingin lúmsk og erfið greiningar. Ef illa gengur að halda einkennum exems niðri ber að 
    athuga möguleika á sýkingu. 

Börn þurfa ekki að vera með ofnæmi til þess að fá barnaexem og í raun mælist ekkert ofnæmi 
hjá flestum barnanna. Barnaexem kemur og fer, stundum blossar það upp með miklum einkennum 
en síðan getur það legið niðri í langan tíma.  

Þessar upplýsingar og fleiri til um allt sem tengist exemi, astma og ofnæmi er að finna á heimasíðu 
Astma og ofnæmisfélagsins - ao.is