Heilsa óháð holdafari (Health at every size) er stefna sem ég hef mikla trú á, og hvetur fólk til að nota innri stýringu frekar en ytri stýringu á mataræði og hreyfingu.
Innri stýring er það að hlusta á seddu- og svengdartilfinninguna; láta líkamann þannig segja sér hvenær tími er kominn til að borða, og hvenær tími er kominn til að hætta að borða -þó maður sé ekki búinn að klára af disknum. Innri stýring er líka það að finna hvaða matur og hvaða líkamsrækt gefa raunverulega vellíðan. Það besta er að hlusta á líkamann frá augnabliki til augnabliks, á þörf hans fyrir næringu, hreyfingu og hvíld. Líkami okkar veit innst inni hvers hann þarfnast, hvaða næring og hreyfing er best til að ná góðri heilsu og viðhalda henni.
Ytri stýring er aftur á móti að nota sjálfsagann til að neita sér um mat sem maður hefur fengið skilaboð um að sé óæskilegur. Sami sjálfsagi er notaður til að knýja sig til að velja mat sem maður telur vera æskilegan. Ytri stýring er einnig það að vigta eða mæla magnið af mat sem maður fær sér, að telja kaloríurnar og stíga á vigtina til að mæla árangurinn. Ytri stýring er það að pína sig í ræktinni og veita sér hvorki umbun né hrós fyrr en vigtin sýnir rétta tölu eða fatanúmerin fara minnkandi.
Ég hef verið spurð hvort Heilsa óháð holdafari þýði að feitt fólk eigi bara að gefast upp og sætta sig við offituna og allt sem henni fylgir. Þessu vil ég svara svona: Í fyrsta lagi er það í fæstum tilvikum offitan sjálf sem er óholl. Það er lífsstíllinn sem er svo algengur meðal of feitra sem fer illa með heilsuna. Fólk með líkamsþyngdarstuðul (BMI) allt upp undir 40 hefur bætt heilsu sína verulega með breyttu mataræði og aukinni hreyfingu, þó þyngdin hafi lítið sem ekkert breyst. Í öðru lagi er það ekki uppgjöf þó við beinum athyglinni frá því að breyta líkamsþyngdinni yfir í að bæta líðan og heilsu einstaklinganna. Það að sættast við sjálfan sig eins og maður er, hefur ekki í för með sér að maður geri ekkert fyrir sjálfan sig upp frá því. Með sáttinni kemur einmitt löngun til að hlúa að sér og bæta líf sitt.
Þó ég sé fylgjandi Heilsu óháð holdafari, geri ég mér grein fyrir að sú stefna leysir ekki vandamál allra. Við erum öll mismunandi sem einstaklingar, í misgóðum tengslum við líkama okkar og tilfinningar. Hugarástand og fæðumunstur fólks með átraskanir minnir um margt á fíknisjúkdóma. Í því tilviki getur mild ytri stýring og aðhald, ásamt mikilli andlegri og tilfinningalegri vinnu, verið nauðsynleg til að ná bata.
Heimild: heilraedi.is