„Vandamálið er að lakkrís er settur í svo margar matvörur í dag að fólk áttar sig ekki á því. Flestir læknar gera sér fulla grein fyrir hættunum sem fylgja neyslu lakkrís, hækkun blóðþrýstings og lækkun kalíums í blóði. Lakkrís í miklu magni getur orðið lífshættulegur og það skiptir meira máli í dag þegar hann er kominn í alla skapaða hluti. Drykkir, eftirréttir, mjólkurvörur, annað hvert súkkulaðistykki, hálstöflur, hóstamixtúrur, dökkur bjór, te, allt er þetta til með lakkrísbragði og þannig mætti áfram telja,” segir Helga Ágústa Sigurjónsdóttir innkirtlasérfræðingur sem rannsakað hefur áhrif lakkrís á heilsuna og hefur lengi talað fyrir hættunum af miklu lakkrísáti og það ekki að ástæðulausu. Hún stóð fyrir hádegisfundi á Læknadögum um þetta efni.
„Læknavísindin þekkja tilfelli þar sem lakkrís í dökkum bjór var ástæða innlagnar og einnig eru þekkt tilfelli þar sem lakkrísbragðbætt te var ástæða háþrýstings hjá sjúklingi. Það vantar töluvert uppá að fólk sé meðvitað um þetta og rannsóknin sem ég gerði er líklega fyrsta skammtaháða rannsóknin á lakkrísneyslu og þar kom greinilega í ljós að skammtarnir skipta máli. Einnig kom glöggt í ljós að þeir sem eru með hækkaðan blóðþrýsting fyrir, hækka miklu meira við að borða lakkrís en aðrir. Það er því enn mikilvægara fyrir fólk að gæta að sér ef það er með hækkaðan blóðþrýsting.“
„Lakkrís er unninn úr jurt sem vex í heitum löndum og það er rótin sem inniheldur lakkríssýruna og gefur lakkrísbragðið. Allt tóbak er litað með lakkríssýru til að fá fallegri brúnan lit á tóbaksblöðin áður en þau eru seld tóbaksframleiðendum. Við vitum ekki hvaða áhrif þetta hefur á reykingafólk en þekkt er sjúkratilfelli vegna tuggutóbaks sem leiddi til háþrýstings.
Lakkríssýran er mjög virkt efni og það er bragðið af henni sem fólk sækist eftir. Það er framleitt gríðarlegt magn af lakkrísrót í heiminum og er selt í böggum til lakkrísframleiðenda. Matvælaframleiðendur/sælgætisframleiðendur kaupa lakkrísrótina þegar búið er að mylja hana í duft og það er reyndar orðið mjög vinsælt í dag að hjúpa alls kyns sælgæti með lakkrísdufti og þá er það gjarnan kallað pipar. Sem er mjög villandi og auðvitað viljum við læknar að það standi skýrum stöfum utan á umbúðum að lakkrís geti verið hættulegur heilsu fólks en hans sé ekki bara getið í innihaldslýsingunni með örsmáu letri. Einn íslenskur sælgætisframleiðandi lætur koma fram á umbúðum að fólk með háan blóðþrýsting eigi að varast lakkrís. Það er til fyrirmyndar.“
Aðspurð um magnið sem þurfi til að lakkrísát geti haft skaðleg áhrif á heilsuna segir Helga Ágústa að 50 grömm á dag í viku geti verið nóg til að mælanleg áhrif á blóðþrýsting og kalíum komi fram. „Þetta svarar til um það bil einnar lakkrísrúllu á dag. Og margir borða miklu meira en þetta af lakkrís á hverjum degi. Við höfum fengið nokkur tilfelli inn á gjörgæsludeid Landspítala þar sem fólk er í mjög krítísku ástandi vegna lakkrístengds háþrýstings og breytingum á kalíumgildi í blóði. Kalíumbúskapur blóðsins er mjög viðkvæmur og glugginn sem mannslíkamanum er eðlilegur er þröngur bæði til hækkunar og lækkunar og veldur hjartsláttartruflunum sem geta verið lífshættulegar. Við höfum séð mörg slík tilfelli þar sem lakkrísát er orsökin fyrir alvarlega lækkuðu kalíum í blóði. Þetta er mjög alvarlegt ástand þar sem ekki er hægt að leiðrétta hjartsláttartruflanirnar fyrr en búið er að leiðrétta kalíumið. Stundum næst þetta ekki og fólk hefur dáið vegna hjartsláttartruflana og mikils kalíumskorts.“
Segja læknar fólki með háan blóðþrýsting að það megi alls ekki borða lakkrís?
„Þeir eiga alla vega að spyrja sjúklinginn að því hvort hann borði mikinn lakkrís því það getur einfaldlega verið orsökin, og þó meðhöndla þurfi blóðþrýstinginn tímabundið er aðalatriðið að hætta neyslu lakkrísins.. Blóðþrýstingurinn getur einfaldlega orðið eðlilegur við það. Ég þekki marga sjúklinga sem hafa verið á mörgum blóðþrýstingslækkandi lyfjum en eftir lakkrísbindindi í þrjá til fjóra mánuði eru þeir lausir við öll lyf og blóðþrýstingurinn orðinn eðlilegur. Það tekur líkamann nefnilega þennan tíma að losa út lakkrísinn. Þetta er góð læknisfræði. Að greina orsökina og með því að fá sjúklinginn til að breyta neysluvenjum sínum munu einkennin hverfa.“
Helga Ágústa segir að lakkrísneysla fólks minni stundum á reykingar eða áfengisneyslu. „Það er tilhneiging hjá fólki að draga úr magninu þegar maður spyr hversu mikinn lakkrís það borðar. Maður þarf stundum að spyrja oft áður en réttar upplýsingar fást. En ástæðan getur líka verið sú að fólk gerir sér ekki grein fyrir magninu því það veit hreinlega ekki að lakkrís er í ísnum, sælgætinu eða teinu. Þess vegna er full ástæða til að vekja fólk til umhugsunar um þetta. Það gildir um þetta eins og margt annað sem er gott, að það er í lagi í litlu magni og með nokkuð löngu millibili.“
„Lakkrísinn hefur áhrif á tvö ensímkerfi í líkamanum. Hann bælir ensím sem heitir 11beta-HSD (11β-hydroxysteroid dehydrogenasi) og með því hindrar það niðurbrot á virka hormóninu kortisól sem venjulega breytir því í óvirka hormónið kortisón. Með þessu eykst magn kortisóls ekki en helmingunartími þess lengist og þá getur kortisólið sest á saltsteraviðtakana líka, en kortisól er sykursteri, en hefur einnig sömu sækni í viðtaka saltsterahormónsins aldósteróns og þannig virkar lakkrísinn eins og hormónið aldósterón ef magn þess eykst. Saltsteri veldur hækkuðum blóðþrýstingi og skilur út kalíum og safnar á okkur bjúg. Lakkrísát virkar þannig einsog við séum að taka hormón. Lakkrís bælir líka renin-útsundrun í nýrunum sem tekur þrjá til fjóra mánuði að leiðrétta.“
En hvað varð til þess að Helga Ágústa fékk þennan brennandi áhuga á lakkrís? . . . LESA MEIRA