Það getur verið ákveðin tilraunstarfsemi að reyna að léttast. Ef þú reynir þitt besta að halda þig við ákveðið mataræði, en þú helst þó ekki við til lengri tíma, þá getur verið að þetta mataræði hafi bara ekki hentað þér, þínum aðstæðum eða þinni brennslu. Það er margt sem hefur áhrif á það hvernig, hvers vegna og hvað þú borðar mikið. Meðal annars fjölskyldan, vinirnir, genin og umhverfi þitt. Það þarf því ekki að vera að mataræði sem „hentar öllum“ henti þér og því ekki ástæða til að gefast upp. Það er alltaf hægt að prófa aðra nálgun og flestar nálganir hjálpa þér allavega að léttast tímabundið.
Hér verður farið yfir þrjár mismunandi nálganir á mataræði:
1. Lágfitu mataræði: Bragðast ekkert sérstaklega vel og er ekki eins seðjandi.
Eitt sinn var þetta helsta nálgunin til þess að léttast, en síðan kom lágkolvetna nálgunin og ýtti þessu mataræði til hliðar. Heilsusamlegar fitur geta í raun hjálpað til við þyngdartap og sumar fitur geta verið góðar fyrir hjartað. Það getur því verið varasamt að taka þær út úr mataræðinu.
Fita inniheldur níu kaloríur á gramm meðan kolvetni innihalda fjórar kaloríur á gramm. Því má segja að þú getir borðað meiri mat án þess að fjölga kaloríunum með því að minnka fituríkan mat og borða frekar kolvetni, þá sérstaklega ávexti og grænmeti. Aftur á móti getur slíkt mataræði verið minna seðjandi og ekki eins spennandi og annað mataræði, og því ekki eins heillandi til langstíma. Einnig þarf að huga að því að ef kolvetnin sem borðuð eru í stað fitu eru mikið unnin og þar með mjög auðmeltanleg, þá getur það eyðilagt þyngdartapið.
2. Lágkolvetna mataræði: Leiðir fljótt til þyngdartaps, en spurning er um öryggi þessa mataræðis til langstíma.
Það að borða kolvetni, þá sérstaklega mikið unnin kolvetni eins og hvítt brauð og hvít hrísgrjón, hækkar blóðsykurinn sem setur mikið insúlínflæði frá brisinu af stað. Þetta insúlín flæði snarlækkar blóðsykurinn, sem veldur meiri svengd. Þeir sem tala fyrir þessu mataræði segja að fólk sem borðar mikið kolvetni innbyrgði mikið af auka kaloríum og þyngist. Það að minnka kolvetni en auka prótein og fituinntöku á að koma í veg fyrir þetta mikla insúlínflæði og verða til þess að viðkomandi er lengur saddur.
Til þess að vinna upp skort á kolvetnum þá losar líkaminn um sínar eigin kolvetna geymslur í lifrinni og vöðvavefjum. Einnig losar hann sig við vatn, en fyrstu kílóin sem fara eru sökum vatnslosunar. Því er árangurinn fljótur að koma í ljós, en eftir nokkra mánuði þá hægist oft á þyngdartapinu og það jafnvel snýst til baka, alveg eins og í mörgu öðru mataræði.
Bandarísku hjartasamtökin vara fólk við því að fylgja Atkins mataræðinu vegna þess að það er of mikið af mettaðri fitu og próteini í því, en það getur haft slæm áhrif á hjartað, nýrun og beinin. Skorturinn á trefjaríkum ávöxtum og grænmeti er líka talinn varasamur þar sem þeir sem borða slíkan mat eru yfirleitt í minni hættu á að fá heilablóðfall, heilabilun og ákveðnar tegundir af krabbameini. Mataræði sem kallast „SouthBeach“ og aðrar lágkolvetna nálganir sem eru ekki eins bindandi eru líklega skynsamlegra val en Atkins.
3. Miðjarðarhafsmataræði: Heilsusamlegar fitur og kolvetni með stórum hliðardisk af ávöxtum og grænmeti.
Góðar fitur eru þær sem eru einómettaðar og finnast í ólífuolíu og öðrum olíum, sem og fjölómettaðar fitur sem finnast í fiski, canola olíum, valhnetum og öðrum mat. Mettaðar fitur og transfitur eru slæmu kallarnir. Miðjarðarhafsmataræðið inniheldur yfirleitt hóflegt magn af fitu sem kemur að mestu leyti úr heilsusamlegum olíum. Kolvetnin í þessu mataræði koma úr óunnum, trefjaríkum mat eins og heilhveiti og baunum. Þetta mataræði inniheldur líka mikið af ávöxtum og grænmeti, hnetum, fræjum, fisk og litlu magni af kjöti og osti.
Fólk sem býr í Miðjarðarhafslöndum er í minni áhættu á hjartasjúkdómum en ella. Í hinum týpíska lífstíl í þessum löndum felst þó mikil hreyfing, reglulegt matarmynstur, vín og góður félagslegur stuðningur. Því er erfitt að vita hvaða áhrif hver þáttur fyrir sig hefur, en það er þó stöðugt stækkandi gagnagrunnur sem sýnir að miðjarðarhafsmataræði minnkar líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki.
Búðu til þitt eigið mataræði.
Gott mataræði á að innihalda mikið af valkostum, lítið af boðum og bönnum, og á ekki að innihalda langa innkaupalista af sérstöku fæði. Mataræðið á að vera gott fyrir hjartað, beinin, heilann og ristilinn, sem og fyrir mittismálið. Það á að vera eitthvað sem hægt er að viðhalda í mörg ár. Slíkt mataræði reddar ekki málunum á örskotstundu, en veitir þér lífsstíl sem inniheldur heilsusamlega kosti sem eru í heildina góðir fyrir þig, en ekki bara að hluta til.
Heimildir: hjartalif.is