Oftar en ekki eru það grasrótarhreyfingar sem keyra erfið en nauðsynleg mál áfram. Stjórnvöld flestra landa eru þunglamaleg og langan tíma tekur að gera breytingar á lögum og reglum. Einu undantekningarnar að mínu mati eru þegar breytingarnar eru þess eðlis að þær skila sér strax til baka til stjórnmálamannsins í formi atkvæðis í kosningum. Því eru oft margar breytingar sem ná í gegn á mánuðunum fyrir kosningar hvort sem það eru nú sveitastjórna- eða alþingiskosningar.
Ljóst er að íslensk stjórnvöld eru ekki að gera nóg til þess að fræða Íslendinga um hvað er æskilegt þegar kemur að heilbrigðri hreyfingu og hollu og góðu mataræði. Nýjasta dæmið er upptaka sænska skráargatsins en mikilvægt var og er að stjórnvöld, í gegnum sínar undirstofnanir, upplýsi neytendur um hvað málið snýst í stað þess að láta það í hendur markaðsaðilum eins og nú er orðið.
Grasrótarhreyfingar eru víða þegar kemur að heilbrigðri hreyfingu og hollu og góðu mataræði. Ekki eru allar þessa grasrótahreyfingar af hinu góða en það er margt, mjög margt sem er gert af aðilum sem mikinn áhuga hafa á því að aðstoða neytendur að velja rétt þegar kemur að hreyfingu eða mataræði. Dæmi um slíkt er til dæmis að finna í Verslunarskóla Íslands en þar hafa kennarar í samstarfi við nemendur tekið yfir rekstur mötuneytisins og aðlagað það að því sem þau vita að er innan marka skynseminnar. Fleiri skólar hafa gert góða hluti hvað þetta varðar og má nefna Borgarholtsskóla og Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi sem í gegnum hið ágæta verkefni, Heilsueflandi framhaldsskóli, hafa tekið heilbrigði nemenda sinna fastari tökum.
Fyrir stuttu fór ég í ferð erlendis og flaug í þetta skiptið með Icelandair. Á meðan á flugi stóð áttaði ég mig á því svo um munaði hversu mikil áhrif mörg fyrirtæki geta haft á neytendur þegar kemur að vali á góðum matvælum. Eins og gengur og gerist er boðið upp á veitingar í vélum Icelandair en það sem kom mér hvað mest á óvart, skemmtilega á óvart, var úrvalið sem nú er í boði í öllum vélum flugfélagsins. Þarna er hægt að hafa áhrif á um 180 manns með því að bjóða eingöngu upp á skynsamlegan kost og það eru stjórnendur flugfélagsins að nýta sér. Þetta er reyndar einungis stutt stund, í þessu tilfelli um 5 klst., sem félagið gat haft áhrif en eitt er víst að allt hefur áhrif hversu smátt eða stórt sem það er. Mikilvægt er að nefna hér að ég hef nákvæmlega engra hagsmuna að gæta með skrifum mínum hér gagnvart Icelandair heldur er ég eingöngu að benda á jákvæða þróun sem mér sýnist vera að eiga sér stað.
Á matseðlinum var boðið upp á alls konar girnilega mat og það sem toppaði alla gleðina hjá mér var að boðið var upp á hafragraut en auk þess var boðið upp á ávexti en hvorugt hef ég séð áður í flugvélum annarra flugfélaga sem ég hef flogið með.
Ég vona að önnur flugfélög taki Icelandair til fyrirmyndar og bjóði upp á mat sem fellur vel að því sem talist getur hollt og gott mataræði. Matseðil Icelandair má sjá hér.
Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.