Eins og gefur að skilja telur hópur aldraðra mjög mislita hjörð og eftir því sem fólk eldist verður munur á næringarástandi milli manna æ greinilegri. Þar skipta lífsvenjur fyrri ára (s.s. matarvenjur, efnahagur, lyf og fleira) og erfðaþættir máli. Þessi staðreynd gerir það að verkum að erfitt getur reynst að móta samræmda næringarstefnu (manneldismarkmið) fyrir þennan hóp. Samt sem áður fer slík vinna fram og er í sífelldri mótun.
Eftir því sem við eldumst aukast líkur á að við verðum fyrir barðinu á næringarvandamálum. Ástæðurnar geta verið margar eins og minni matarlyst sem aftur leiðir til ónógrar orku- og næringarefnaneyslu. Margvísleg lyfjaneysla og ofneysla alkóhóls getur einnig haft afgerandi áhrif á næringarbúskap líkamans. Þegar talað er um eldra fólk í „næringarlegu” tilliti er skipt í tvo aldurshópa. Fyrri hópnum tilheyra þeir sem eru á aldursbilinu 50-70 ára og þeim seinni fólk sem er eldra en sjötíu ára. Það segir sig sjálft að almennt séð getur verið mikill munur á neysluvenjum fimmtugs einstaklings og þess sem er áttræður. Sem dæmi má nefna að um fimmtugt er algengt að næringarvandamálið tengist ofneyslu sem leiðir til offitu á meðan að algengara er að áttræður einstaklingur þjáist af lystarleysi sem ýtir undir of mikið þyngdartap og afleiðingin verður vannæring. Samkvæmt erlendum könnunum er talið að allt að 50% þeirra sem dvelja á elliheimilum líði næringar- og orkuskort.
Reglubundin neysla á fjölbreyttu fæði ásamt nægilegri vatnsdrykkju er að sjálfsögðu lykillinn að næringarlegu jafnvægi hjá öldruðum sem og öðrum. Þar að auki gæti þeim gagnast að neyta reglubundið einnar fjölvítamínstöflu með steinefnum og teskeið af lýsi. Stundum er þörf á markvissari bætiefnaneyslu en slík neysla ætti ekki að fara fram fyrr en sérfræðiálit liggur fyrir. Ástæðan er sú að óhófleg fæðubótarneysla getur leitt til eiturástands í líkama. Þeim sem eiga í erfiðleikum með að nærast á eðlilegan máta getur gagnast að neyta næringarduftdrykkja á milli mála. Dæmi um slíka blöndu er Build-up.
Það sem eftir lifir pistilsins verður fjallað um það næringarefni sem telst vera aðalnæringarefni mannslíkamans og skortur á því hefur margvísleg neikvæð áhrif í för með sér. Hér er átt við hinn eina sanna lífselexír sem að sjálfsögðu er vatn. Hlutverk vatns er margþætt.
Það:
Staðreyndin er sú að eldra fólki er hætt við að líða vökvaskort, sérstaklega þeim sem eru sjötíu ára og eldri. Ástæður þess geta verið margvíslegar. Sem dæmi má nefna að eðlilega þorstatilfinningu vantar eða að fólki finnist erfitt að drekka og jafnvel leiðigjarnt. Ekki er óalgengt að eldra fólk sem líður vegna þvagleka reyni að halda drykkju í lágmarki vegna ótta við versnandi ástand. Þrátt fyrir vöntun á vökva í líkama er það staðreynd að eldra fólk virðist oft ekki finna fyrir þorsta eða taka eftir þurrleika í munni. Einnig er vert að hafa í huga að eftir því sem við eldumst minnkar heildarvökvamagn líkamans og því geta algeng áreiti eins og hækkandi líkamshiti (s.s. vegna flensu) eða hár umhverfishiti ýtt undir of mikið vökvatap sem að sjálfsögðu getur haft mjög skaðleg áhrif í för með sér.
Til viðbótar við það vatn sem við fáum óbeint með neyslu hefðbundinnar fæðu er góð regla að drekka sex til átta glös af vökva á dag (1 glas = 2,5 dl). Neysla drykkjarfanga eins og mjólkur og ávaxtasafa eru inni í þessari mynd. Aftur á móti teljast drykkjarföng sem innihalda koffein og alkóhól ekki með enda eru efni í koffeini og alkóhóli sem auka á þvagmyndun og þar með vökvatap úr líkama. Sem dæmi má nefna að ef drukkinn er einn kaffibolli (1,5 dl) er hægt að gefa sér að úr líkama tapist 1,7 dl af vökva og ef drukkinn er 5 dl af bjór má gefa sér að þegar upp verður staðið hafi líkaminn tapað 6 dl af vökva.
Of lítið vatn í líkama eldra fólks getur auðveldlega framkallað ástand eins og harðlífi og jafnvel hægðastíflu (hægðir skila sér ekki og jafnvel er þörf á læknishjálp til að losa um þær). Í reynd má með sanni segja að vökvaskortur skerði verulega andlegan og líkamlegan þrótt þess sem fyrir honum verður. Því ættu allir að kappkosta að neyta nægilegs vökva. Og þeim sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með drykkju ætti að aðstoða eftir megni.
Heimild: doktor.is