Umræðan um kraftaverkafæðu hefur verið ansi fyrirferðamikil í fjölmiðlum að undanförnu. Það er vart hægt að lesa fréttablöðin án þess að rekast þar á greinar eða viðtöl við fólk sem bendir okkur á hversu illa stödd við erum og hvernig bæta megi úr því með einhverjum ofur matarkúrum eða lífsnauðsynlegum bætiefnum.
Hverju á maður að trúa?
Er það til dæmis rétt að maður geti komið í veg fyrir krabbamein með því að nota kókosolíu? Getur maður komist hjá þunglyndi, hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini og fleiri sjúkdómum með því að taka inn stóra skammta af magnesíum? Er svokallað súrt fæði hættulegt? Er það yfir höfuð til? Getur hráfæði læknað krabbamein?
Svona mætti lengi telja. Það er auðvelt að tapa áttum og það virðist nánast ógjörningur að lifa löngu og góðu lífi nema að taka inn ógrynnin öll af fokdýrum bætiefnum og fylgja ströngum matarkúrum.
En er þetta virkilega svona? Eigum við bara gleypa við því sem stendur í blöðunum? Í fljótu bragði kann það að sýnast svo, fyrirsagnirnar eru lofandi, menn benda oft á „nýjustu rannsóknir“ máli sínu til stuðnings og stundum eru kallaðir til þekktir heilsuvitringar úr samfélaginu til að leggja blessun sína á málefnið. Svo er vísað á erlendar vefsíður þar sem nánar er fjallað um efnið.
Það er skiljanlegt að auðvelt sé að láta glepjast af fyrirsögnum. „Rauðrófusafi góður gegn hjarta- og æðasjúkdómum!“ hljómar t.d. betur en „Rauðrófusafi gæti hugsanlega haft góð áhrif á blóðþrýsting en of snemmt er að segja nokkuð um það.“ Annað sem einnig er vert að muna er að oft eru þeir aðilar sem eru að upphefja ákveðna vöru einnig að selja hana, dálítið eins og að læknir væri að dásama nýtt lyf sem hann væri sjálfur að flytja inn, en slíkt þætti heldur ósmekklegt.
Erfitt að nálgast upplýsingar
Það þarf að skoða betur hvað liggur bak viðlofræðurnar áður en maður trúir þeim og hendir jafnvel stórfé í. Ég komst að því á dögunum er ég var að undirbúa fyrirlestur um þetta efni að það er alls ekki svo auðvelt að kynna sér málin eins og ætla mætti. Oft er ógerningur að finna þær rannsóknir sem vísað er í. Hlekkir færa mann oft bara inn á aðrar síður sem hafa hagsmuni að gæta af því að varan seljist og takist manni að finna upprunanlegu vísindagreinarnar þá þarf maður oft að kaupa aðgang til að geta lesið þær. Flestir eru löngu búnir að gefast upp á þessu stigi.
Svo má velta fyrir sér hvað maður hafi yfirhöfuð upp úr því að komast yfir þessar greinar. Það er nefnilega ekki á allra færi að lesa vísindagreinar og hvað þá að vega og meta gæði þeirra og áreiðanleika niðurstaðna. Til að hjálpa okkur í þessu höfum við sérmenntað fólk á borð við lækna, næringafræðinga, líffræðinga og fleiri. Það getur því verið ágætt að hlusta á hvað þetta fólk hefur að segja ef það hefur eitthvað til málanna að leggja áður en maður myndar sér sína eigin skoðun. Að mínu mati er þessi hópur allt of ósýnilegur í umræðunni og mætti bæta úr því. Takist manni hins vegar að finna þessar greinar og krafsa sig í gegnum þær kemur oftar en ekki í ljós að rannsóknirnar sýna einungis vísbendingar um að eitthvað sé eins og fyrirsagnirnar fullyrða. Oft er bent á í þessum sömu greinum að frekari rannsókna sé þörf áður en hægt sé að leggja nokkurt mat á niðurstöðurnar.
Kraftaverkadrykkurinn rauðrófusafi
Tökum dæmi um hvað getur komið í ljós þegar maður fer að grafa. Í júní 2010 í hinu ágæta tímariti The Daily Mail mátti lesa fyrirsögn sem var á þessa leið: „Að drekka rauðrófusafa lækkar verulega áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum og heilablóðfalli.“ Hljómar vel, en þegar nánar er athugað var ekki verið að rannsaka tengsl rauðrófusafa og líkur á að fá heilablóðfall eða hjarta- og æðasjúkdóma, heldur var verið að kanna hvort safinn hefði áhrif á blóðþrýsting sem er aðeins einn af mörgum áhættuþáttum þessara sjúkdóma.
Það kom reyndar í ljós að blóðþrýstingur hjá þeim sem tóku inn safann lækkaði marktækt miðað við þá sem fengu vatn. Gott og blessað, en skoði maður þessa rannsókn nánar má sjá að efniviðurinn var mjög lítill, aðeins 9 manns fengu rauðrófusafa en kraftur rannsókna fellst m.a. í stærð efniviðar, því fleiri því betra, 9 manns er ekkert.
Annað var að allir þátttakendur voru heilsuhraustir með eðlilegan þrýsting og því ekkert vitað hvaða áhrif safinn hefði á fólk meðháþrýsting. Þeim sem fengu rauðrófusafann var bara fylgt eftir í þrjár klukkustundir og því ekki hægt að segja til um langtímaáhrif rauðrófusafa á blóðþrýsting. Svo vildi svo skemmtilega til að tveir af þeim sem að rannsókninni komu tengdust fyrirtækjum er framleiða lífrænan rauðrófusafa. Það er því ekki ólíklegt að það hafi einhver áhrif á niðurstöðurnar, hvort sem það er meðvitað eða ekki.
Það er ljóst að hlutirnir eru ekki bara svartir og hvítir, það er ekki bara hægt að treysta öllu sem maður les í blöðunum. Við verðum að reyna að líta gagnrýnum augum á fyrirsagnirnar, kynna okkur málin og mynda okkar eigin skoðanir áður en við köstum peningum á glæ.
R. Freyr Rúnarsson, læknir
Grein af www.sibs.is , samstarfsaðila Heilsutorg.com