Sjálf hef ég varið tæpum þrem áratugum í að læra á starfsemi líkamans, reyna að skilja hvaða merki hann er að senda og hvaða leiðir hægt er að nota til að efla starfsemina, fyrirbyggja skemmdir og lagfæra það sem fer úr skorðum. Síðasta áratuginn hef ég lagt sérstaka áherslu á þyngdarstjórnun og offitumeðferð. Þar þarf að taka tillit til þessa flókna samspils líkama, sálar, reynslu, umhverfis og erfða til að ná langvarandi árangri. Enn er ótal margt sem við vitum ekki um starfsemi líkamans og samspil hans við umhverfið en við höldum ótrauð áfram að púsla saman upplýsingum. Eitt er ég þó sannfærð um en það er að því lengra sem við fjarlægjumst náttúrulega starfsemi líkamans því ólíklegra er að við náum góðum árangri til að viðhalda heilsunni. Duft, drykkir og pillur sem eiga öllu að bjarga hafa ekki reynst sú heilsubót sem ætla mætti af lofsöngnum um þessi efni sem á okkur dynur.
Mikill þrýstingur er í þjóðfélaginu um að steypa okkur öllum í sama mót grannvaxinna, stæltra líkama, offita er litin hornauga og offeitir sæta fordómum. Fyrir þennan hóp blómstrar markaðsstarfsemi með allskyns hjálparefni og töfralausnir. Þrá okkar eftir skyndilausnum er sterk og við reynum aftur og aftur í þeirri von um að nú hafi eitthvað breyst, þetta duft eða þessar pillur séu betri en það sem búið að var að reyna, þessi kúr sé sá sem loks virkar. Aftur og aftur verðum við fyrir vonbrigðum, eðlilega. Ef við erum að vinna í andstöðu við eðlilega líkamsstarfsemi þá uppskerum við mótmæli. Líkaminn getur samt verið mjög umburðalyndur og aðlögunarfær þannig að oft hjálpa þessar gerfileiðir til skamms tíma. En svo kemur að skuldadögum og líkaminn fer að krefjast jafnvægis og útkoman verður önnur en sú sem vonast var eftir. Mun betra er að hefjast strax handa við að skilja líkamann og vinna með honum, skoða líðan, hugarfar og aðstæður og finna leið sem virkar til langstíma. Þegar uppi er staðið náum við þannig miklu meiri árangri, okkur líður betur, við erum hraustari og höfum sparað mikla fjármuni og andlega þjáningu en ef við þeytumst um í hringiðu skyndilausna, megrunarkúra og fæðubótaefna.
Meginþungi í heilsueflingu okkar ætti að vera að skapa góðan grunn þar sem regluleg hreyfing sem okkur þykir skemmtileg er hluti af okkar daglega lífi. Mataræði okkar er hollt og fjölbreytt og dásemda neytt í hæfilegu magni. Svefninn okkar er endurnærandi og hugurinn er í jafnvægi. Ofan á þessa hornsteina byggjum við nánari vinnu með heilsuna sem getur verið með aðstoð ýmissa fagaðila til að halda stöðugleika í lífsins ólgusjó og lagfæra það sem úr lagi fer. Þegar verulega ber út af með heilsuna nýtum við okkur síðan sérhæfð úrræði við hæfi svo sem lyf og skurðaðgerðir. Okkur hættir hinsvegar til að leita fyrst í sérhæfðu úrræðin svo sem lyf og skammtímalausnir í þeim tilgangi að hafa sem minnst fyrir hlutunum.
Eftir því sem ég starfa lengur með einstaklingum sem vilja vinna að bættum lífsstíl og öðlast betri heilsu verður mér betur ljóst hversu stór hluti verkefnisins snýr að hugarfari og andlegri líðan. Mataræðið er hinsvegar mun meira áberandi í umræðunni. Öll þurfum við að fá þau næringarefni og orku sem líkaminn þarfnast. Matur hefur líka þann tilgang að auðga líf okkar. En þó við séum öll af vilja gerð til að gera allt rétt hvað mataræðið varðar getur það virst flókið að finna út hvað gera skal. Það sem sagt er hollt í dag er bannað á morgun svo það er von að maður ruglist í ríminu. Þrennt er það sem flestar leiðir virðast þó vera sammála um. Við þurfum að drekka vatn. Æskilegt er að grænmeti sé hluti af okkar daglega fæði og að mikill viðbættur sykur sé ekki heilsu okkar til bóta. Um flest annað er rifist. En ef við höldum ró okkar og skoðum málið aðeins betur þá er þetta kannski ekki eins flókið og af er látið. Þó vitað sé að ofgnótt af einhverri fæðutegund sé ekki góð fyrir okkur þýðir það ekki sjálfkrafa að hún sé eitur eins og stundum má skilja af öfgum í umræðunni. Sykur, brauð og mjólk fá stundum slíka útreið svo dæmi sé tekið. Á sama hátt þá eru sum efni okkur lífsnauðsynleg en það þýðir ekki að miklu meira af því efni sé endilega betra. Of mikið af einu efni í fæðu getur truflað úrvinnslu líkamans á öðru efni og þannig valdið skorti þar eins og raunin er með mörg vítamín og steinefni. Vissulega koma vítamín og fæðubótaefni að gagni þegar meðhöndla þarf skort og ákveðna sjúkdóma en slíka meðferð má ekki heimfæra sem heilsubót fyrir heilbrigða líkama. Í líkamsræktarheiminum hefur sá misskilningur verið mjög áberandi að fæðubótaefni sem geta komið að gagni hjá afreksíþróttafólki sem eru undir miklu líkamlegu álagi séu nauðsynleg til árangurs fyrir þá sem stunda reglulega líkamsrækt sér til heilsubótar og ánægju. Hér virðist almenn skynsemi oft láta í minni pokann fyrir sannfærandi áróðri söluaðilanna. Reynslusögur um góðan árangur geta verið góðar, gefa okkur hugmyndir og von um að við getum breytt ástandi sem við eru ekki sátt við. En við verðum líka að vera gangrýnin á það hvort sú leið sem hentaði viðkomandi henti okkur. Það er alls ekki sjálfgefið.
Það eru svo ótal margir þættir sem hafa áhrif á það hvaða leið ber árangur fyrir hvert okkar. Sem dæmi þá er þarmaflóran okkar ólík en hlutverk hennar í líkamlegri og andlegri líðan og heilsu virðist vera meira en áður hefur verið talið. Sífellt eykst vitneskja okkar um þátt bakteríanna í úrvinnslu næringarefna og af hverju mismunandi einstaklingar vinna á ólíkan hátt úr samskonar fæðu. Þar er hlutverk trefja í mataræði mjög mikilvægt. Á sama hátt er vaxandi þekking okkar á hinu lífsbjargandi streitukerfi merkileg þar sem líkaminn er sífellt að bjarga okkur frá hungursneyð sem hann getur túlkað að sé yfirvofandi miðað við ýmis skilaboð sem hann fær. Ein tegund streitu sem nefnd hefur verið megrunarstreita þar sem neikvæðar hugsanir, boð og bönn sem við setjum okkur varðandi mat eru streituvaldandi og hafa áhrif á ýmis hormónakerfi í líkamanum. Slíkt gerir okkur enn erfiðara fyrir að léttast hafi það verið ætlun okkar. Það ásamt fleiru gerir megrun beinslínis fitandi. Hinsvegar koma jákvæðar hugsanir, sterk skjálfsmynd, góður svefn og hugarró sterk til leiks og hafa bein jákvæð áhrif á starfsemi líkamans sem við héldum um tíma að væri nokkuð sjálfvirk og ekki á okkar valdi að stýra.
Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta kannski ekki svo flókið. Tökum stjórnina í okkar hendur og gerum það sem í okkar valdi stendur til að efla góða heilsu og líðan. Berum virðingu fyrir líkama okkar. Vöndum það sem við setjum inn fyrir okkar varir. Vinnum með líkamanum en ekki á móti honum. Stuðlum að jafnvægi. Borðum mat sem er eins nálægt uppruna sínum og okkur er unnt. Látum verksmiðjuframleiðslu eiga sem minnstan hlut í okkar daglega fæði. Látum ekki blekkjast af fallegum orðum um „náttúrulegar“ vörur sem búið er að vinna með fjölmögrum vinnsluaðferðum og eru komin langt frá uppruna sínum. Borðum fjölbreyttan mat, engin ein tegund matar hefur allt sem við þurfum sama hvað hún fær mikla ofurfæðisstimpla hjá markaðsöflunum. Höfum skammta og dreifingu orkunnar í samræmi við orkunotkun þar sem við tökum meðal annars tillit til líkamssamsetningar og hreyfingar. Gefum meltingarveginum hvíld um leið og við hvílumst. Borðum matinn en drekkum hann ekki og stuðlum þannig að jafnari blóðsykri. Við erum misnæm fyrir sveiflum í blóðsykri en þær sveiflur hafa margskonar áhrif á líkamsstarfsemina. Gefum okkur tíma til að borða, tyggjum matinn og njótum matarins. Leyfum okkur að þykja vænt um okkur sjálf. Sættumst við okkur sjálf með okkar kostum og göllum. Skoðum okkur sjálf, okkar þarfir og aðstæður. Setjum okkur markmið um að bæta það sem við viljum laga í okkar fari til að þroskast og efla okkur sem manneskjur. Horfum á það sem við getum í stað þess að einblína á það sem við getum ekki. Finnum okkar leið til betri heilsu, án öfga. Leitum eftir aðstoð ef við erum efins um að við séum á réttri leið eða þurfum stuðning. Umfram allt höfum í huga að finna leið sem við getum hugsað okkur að tileinka okkur til langframa. Njótum matarins, njótum lífsins.
Erla Gerður Sveinsdóttir,
Heimilislæknir og lýðheilsufræðingur, Heilsuborg