Mikil aukning hefur verið í sölu á orkudrykkjum á síðustu árum og sífellt fleiri tegundir eru að koma á markað. Þessir drykkir virðast flestir vera markaðssettir til að höfða til ungs fólks og jafnvel íþróttafólks. Hins vegar ber að varast að rugla saman orkudrykkjum annars vegar og íþróttadrykkjum hins vegar.
Orkudrykkir gjörólíkir íþróttadrykkjum :
Íþróttadrykkir innihalda sölt og sykrur, en ekki örvandi efni á borð við koffín. Í orkudrykkjum er hins vegar oft hátt sykur- og koffíninnihald.
Íþróttadrykkir eru hannaðir til að koma aftur á bæði vökva- og jónajafnvægi eftir miklar og strangar æfingar. Þar sem við missum ekki aðeins vatn með svita heldur einnig ýmis sölt sem eru líkamanum nauðsynleg geta íþróttadrykkir verið góð lausn til að koma fljótt á jafnvægi í líkamanum eftir mikla áreynslu. Íþróttadrykkir innihalda sölt og sykrur, en ekki örvandi efni á borð við koffín. Í orkudrykkjum er hins vegar oft hátt sykur- og koffíninnihald og henta þeir illa til að bæta upp vökvatap eftir æfingar, en auk koffíns innihalda þeir oft fleiri virk efni sem almennt eru talin hafa örvandi áhrif eins og ginseng og gúrana.
Koffíneitrun
Almennt er ekki mikið eftirlit með orkudrykkjum og hér á landi eru t.d. ekki reglur um hversu hátt koffíninnihald drykkja má vera, þó er reyndar skylt að merkja umbúðir sérstaklega sé magnið yfir ákveðnum mörkum (150mg/L). Þó ekki séu kannski mörg dæmi hérlendis, hefur tilfellum koffíneitrana vegna orkudrykkjaneyslu farið fjölgandi erlendis. Líkurnar á bráðri koffíneitrun eru meiri við neyslu orkudrykkja en annarra drykkja sem innihalda koffín, m.a. vegna þess að umbúðir eru oft illa merktar og einstaklingurinn gerir sér ekki grein fyrir því hversu mikið af virkum efnum hann er að innbyrða. Auk þess lofa auglýsingar oft auknum afköstum og orku, og því miður eru alltaf einhverjir sem halda að meira sé alltaf betra. Síðast en ekki síst þá eru sjaldnast ákveðnar reglur, eins og t.d. aldurstakmarkanir, þegar kemur að sölu drykkjanna og börn og ungmenni geta því oft sótt í þá að vild, en þau eru yfirleitt viðkvæmari fyrir koffíni og því útsettari fyrir eitrunaráhrifum. Einkenni koffíneitrunar eru m.a. svimi, ógleði, uppköst, kvíði, eirðarleysi, svefnleysi, skjálfti, hraður hjartsláttur, brjóstverkur og jafnvel dauði.
Hættulegt með áfengi
Það að blanda áfengi í orkudrykki er einnig mjög varhugavert, það eykur ekki einungis líkurnar á ofþornun, heldur getur valdið því að fólk finnur ekki eins fljótt fyrir áhrifum áfengiseitrunar og annars. Sumir einstaklingar telja að örvandi áhrifin frá orkudrykkjunum vegi upp á móti sljóvgandi áhrifum áfengisins. Það getur leitt til þess að fólki finnst það ekki vera eins drukkið og það í raun er og telur sig jafnvel vera hæfara til ýmissa athafna, t.d. að aka bíl, og skapar þannig aukna hættu fyrir sjálfa sig og aðra.
Það verður þó að taka það fram í lokin að hófleg neysla orkudrykkja meðal fullorðinna ætti að vera fyllilega í lagi. Einstaklingar ættu þó ávallt að kynna sér innihald drykkjanna áður en þeirra er neytt og forðast að neyta þeirra samhliða áfengi.
Góðar upplýsingar um orkudrykki má finna á slóðinni: http://www.mast.is/upplysingar/neytendur/orkudrykkir
Tinna Eysteinsdóttir, doktorsnemi í næringarfræði
Grein af www.sibs.is , samstarfsaðila Heilsutorg.com