eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur og Rúnu Thors
Matur í grunnskólum er málefni sem hefur verið talsvert í umræðunni á undanförnum árum. Ákveðið gegnsæi er í kerfinu þar sem almenningur getur nálgast matseðlana á heimasíðu hvers skóla fyrir sig. En eitt er að lesa matseðil vikunnar, annað er að sjá með eigin augum það sem í boði er.
Við heimsóttum nokkra skóla í Reykjavík á tveggja vikna tímabili og skoðuðum matinn.
OKKAR UPPLIFUN
Vorið 2009 var gerð könnun á störfum yfirmanna skólamötuneyta í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Þar kom fram að í grunnskólunum færi fram frumframleiðsla að mestu. Þetta kemur illa heim og saman við það sem við upplifðum því þeir kokkar sem við töluðum við kvörtuðu einmitt helst yfir aðstöðunni, sem byði ekki upp á að maturinn væri allur eldaður frá grunni.
GÓÐMETIÐ GRÆNMETI
Algengt var að börnin slepptu því grænmeti sem boðið var uppá sem meðlæti. En þó var sjáanlegur munur á milli skólanna: Mun meira grænmeti var á diskum barnanna þar sem boðið er uppá salatbar, þ.e. mismunandi grænmeti og ávexti í aðgreindum ílátum svo börnin geti valið eftir smekk.
Eins fannst okkur athyglisvert að þær tvær vikur sem við fórum á milli skóla var hvergi grænmetisréttur á boðstólum heldur alltaf kjöt eða fiskur.
SKÓLAMATUR Í 10 DAGA
Sitt sýnist hverjum um matarmenningu grunnskólanna. Hér fyrir neðan fáum við álit nokkurra kokka og krakka á málinu, en fyrst skulum við sjá það sem var á boðstólnum í nokkrum grunnskólum Reykjavíkur á tveggja vikna tímabili.
DAGUR 1
Fiskiklattar með soðnum kartöflum, salati og brúnni sósu.
DAGUR 2
Hakk og spagettí. Ávextir.
DAGUR 3
Mexíkósk kjúklingasúpa og brauð
DAGUR 4
Steiktur fiskur og salatbar
DAGUR 5
Grjónagrautur og slátur
DAGUR 6
Fiskborgarar með pítusósu og grænmeti. Franskar kartöflur.
DAGUR 7
Kjötbollur, rauðkál, kartöflur, sósa
DAGUR 8
Lambakarrýpottréttur með hrísgrjónum og fersku grænmeti
DAGUR 9
Fiskur, kartöflur, grænmeti, ávöxtur, rúgbrauð
DAGUR 10
Pylsupasta
HVAÐ SEGJA KOKKARNIR?
Kokkarnir í þeim skólum sem við heimsóttum tóku okkur allir opnum örmum. Við spurðum um álit þeirra á mat í grunnskólum og hvort eitthvað mætti bæta. Afar skiptar skoðanir koma þar fram og hér birtum við brot úr svörum þriggja ólíkra einstaklinga:
SIGRÚN SIGURJÓNSDÓTTIR, YFIRMAÐUR MÖTUNEYTIS INGUNNARSKÓLA
„Ég held að flest allir grunnskólarnir í höfuðborginni séu að gera góða hluti og séu með fínan mat.“
„Maður er alltaf að bjóða upp á eitthvað sem ekki hefur verið áður og verða við óskum barnanna um hvað þau langar í ef það er annað en pylsur og pizzur. Umræður um mat í grunnskólum í Rvk. hafa verið á mjög lágu plani, virðist sem fólk geti alhæft um hluti sem þeir hafa ekki kynnt sér varðandi máltíðir í skólunum. Þegar fólk í matvælageiranum boðaði þessar konur sem voru með þessa herferð gegn grunnskólunum á fund þá þorðu þær ekki að sitja fyrir svörum og mættu ekki á fundinn.“
GUÐNI KRISTMUNDSSON, MATRÁÐUR HLÍÐASKÓLA
„Það má gera svo miklu betur þegar kemur að mat í grunnskólum.“
„Það sem þarf að gera er að ráða fólk í mötuneytin sem hefur þekkingu og vilja til að vinna matinn frá grunni. Til að það sé hægt, þurfa mötuneytin að vera tækjum búin sem ráða við það. Ég geri nánast allt frá grunni og nota t.d. heilhveiti í staðinn fyrir hvítt hveiti í mest alla matargerð. Eins blanda ég flest öll krydd sjálfur, þannig get ég minnkað saltmagnið töluvert. Hjá mér býð ég upp á ávexti og smá salatbar í öll mál. Við það eitt að vera með nokkrar tegundir af grænmeti sem börnin geta valið um hefur neyslan á grænmeti aukist töluvert. Börn borða mismikið og hef ég farið þá leið að skammta minna í byrjun og leyfa þeim að koma eins oft og þau vilja til að fá meira, þannig fer mikið minna í ruslið því ein mesta rýrnunin er í ruslinu.“
ÞORBJÖRG JÓHANNSDÓTTIR, YFIRMAÐUR MÖTUNEYTIS VESTURBÆJARSKÓLA
„Án efa eru allir matreiðslumenn í grunnskólum borgarinnar að gera sitt allra besta og rúmlega það, því mörg mötuneytin eru löngu sprungin og illa boðleg ekki bara starfsfólki eldhúsa, heldur einnig er mataraðstaða nemenda orðin léleg og þröng vegna örrar fjölgunar nemenda og starfsfólks í mörgum skólum.“
„Ég er sannfærð um að við værum á réttari leið með því að auka áhuga barna á mat frá unga aldri, með meiri og áhugaverðri fræðslu, ekki bara í töluðu formi heldur einnig með raunkennslu um hvaðan maturinn kemur, hvernig ræktun fer fram, hvernig og hvar matvæli eru unnin og ekki síst hvað hann gerir fyrir þig og líkamskerfi þitt.“
HVAÐ SEGJA KRAKKARNIR?
9 mánuðir á ári í 10 ár! Við ræddum við nokkra nemendur og komumst að því að yngstu börnin voru mun jákvæðari en þau eldri. Megn óánægja ríkti hjá mörgum eldri nemendum sem sum sögðu matinn vera einhæfan og önnur voru orðin leið á tilbreytingaleysi eftir mörg ár í sama mötuneyti. Það er útilokað að gera öllum til hæfis þegar kemur að samsetningu matseðils, en ábendingar frá þessum ungu viðskiptavinum mötuneytanna hljóta að bæta útkomuna. Sér í lagi ef fagfólkinu tekst að útfæra óskirnar á hollan máta. Hér má lesa vangaveltur okkar um mótun matseðilsins sem tilvalda leið til að auka lýðræðisþátttöku barna.
LJÓSMYND SEGIR EKKI ALLA SÖGUNA
Í flestum tilfellum settu kokkarnir sjálfir matinn á þá diska sem við ljósmynduðum. Skiljanlega vildu þeir sýna það sem er á boðstólum. En jafnvel ljósmynd segir bara hálfa söguna. Saltinnihald sést ekki á mynd og lítið kryddaður matur getur litið betur út en hann bragðast. Í mötuneytunum fá börnin víðast að skammta grænmetið sjálf og ekki mikið mál fyrir þau að sleppa því. Eins stjórna þau tómatsósunni og kokteilsósunni þar sem slíkt er í boði. Auðvitað er það svo undir börnunum komið hvað þau borða og hvað fer beina leið í ruslið. Auk þess getur stemningin í matsalnum haft úrslitaáhrif þegar kemur að því að nærast vel.
SVIGRÚM TIL UMBÓTA
Matarmenning grunnskólabarna mjakast í rétta átt, en svigrúm er fyrir umbætur. Það leikur enginn vafi á því að mikilvægt er að huga að gæðum matarins sem börnin borða á uppvaxtarárum sínum, 9 mánuði á ári í 10 ár. Sjálfsagt er að gera kröfur um gæði og fjölbreytileika. Ef bæta á gæðin án þess að það komi niður á verðinu þurfa yfirvöld að auka stuðning sinn. Viðmælendur okkar komu með áhugaverðar hugmyndir og framkvæmanlegar sé vilji fyrir hendi. Með drífandi starfsfólki sem er opið fyrir breytingum og með auknu fjármagni frá yfirvöldum eiga gæði og vinsældir matarins í mötuneytum grunnskóla að geta batnað til muna á komandi árum.
Myndir með þessari grein eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur og Rúnu Thors eru birtar með Creative Commons Tilvísun-EkkiÁgóðaskyni 4.0 Alþjóðlegt afnotaleyfi.
Heimild: lifandivefrit.hi.is