Ávaxtasafi hefur nánast jafnmargar hitaeiningar og sætt gos. Ávaxtasafinn er hins vegar mun bætiefnaríkari en gosið.
Þú tvöfaldar hitaeiningarnar í máltíðinni ef þú hefur þrjár matskeiðar af kokkteilsósu með hamborgaranum í staðinn fyrir sinnep og tómatsósu
Hamborgarasósa er um fjórum sinnum feitari en 10% sýrður rjómi og pítusósa er sjö sinnum feitari. Það getur verið fróðlegt að lesa á umbúðir.
Þú fækkar hitaeiningum um helming í hverri brauðsneið með því að sleppa því að smyrja og þú fækkar þeim um þriðjung ef þú notar fituskert viðbit eins og Létta eða Létt og Laggott borið saman við Smjörva eða smjör
Þegar talað er um kaloríur í daglegu tali er í raun átt við kílókaloríur (kcal), sem eru 1000 kaloríur. Orðið hitaeining er íslenskt heiti fyrir kílókaloríu.
Kílójoule (kJ) er orkueining sem er mikið notuð í staðinn fyrir kílókaloríur, sérstaklega í skólum og við merkingu matvara. Eitt kJ jafngildir u.þ.b. 0,24 kcal og ein kcal er u.þ.b. 4,2 kJ.
Algeng orkuþörf fullorðins karlmanns er um 2500 kcal og konu um 2000 kcal á dag.
Karl sem borðar um 1800 kcal á dag getur átt von á að léttast að jafnaði um 0,5 kg á viku, meira fyrstu vikuna en heldur minna þegar fram í sækir.
Kona sem fær um 1500 kcal á dag getur átt von á að léttast um 0,5 kg á viku, meira fyrst í stað en síðan heldur minna.
Megrunarkúrar sem boða mikið fitu- og próteinaát geta verið skaðlegir fyrir heilsuna, ekki síst fyrir nýru, hjarta og æðakerfi. Fylgdu slíkum kúrum aðeins undir handleiðslu læknis.
Þú getur metið þína eigin orkuþörf, miðað við þyngd, kyn, aldur og daglega hreyfingu á heimasíðu manneldisráðs. www.manneldi.is
Höf:
Alma María Rögnvaldsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Heimild: islenskt.is