Sibutramine er lyf sem var afturkallað af markaði í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar árið 2010 vegna alvarlegra aukaverkana, einkum tengdum hjarta og æðakerfi. Phenolphthalein er lyf sem var áður notað sem hægðalosandi en notkun hefur verið hætt vegna vísbendinga um að það valdi krabbameini. Lyfjaefni sem þessi ætti aldrei að nota nema í samráði við lækni, í formi lyfja sem hafa markaðsleyfi, þar sem þau geta verið skaðleg heilsu séu þau ekki notuð á réttan hátt. Fæðubótarefni sem inniheldur þessi lyfjaefni teljast hættuleg matvæli, sérstaklega þegar efnanna er ekki getið á umbúðum varanna.
Samkvæmt 11. gr. matvælalaga er innflutningur og dreifing matvæla þ.m.t. fæðubótarefna sem innihalda lyf eða lyfjavirk efni, óheimil. Auk þess er skv. 8.gr. matvælalaga óheimilt að markaðssetja matvæli sem eru ekki örugg til neyslu þ.e. heilsuspillandi. Umræddar vörur eru því ólöglegar til innflutnings og markaðssetningar.
Fæðubótarefni eru matvæli sem almennt eru í frjálsu flæði til landsins og því fyrst og fremst undir markaðseftirliti. Eftirlit með fæðubótarefnum á markað er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Innflutningseftirlit er í höndum MAST. Samkvæmt reglugerð um fæðubótarefni er innlendum framleiðanda/innflytjanda skylt að tilkynna innflutning/markaðssetningu nýrra fæðubótarefni til MAST. Viðkomandi vörur hafa ekki verið tilkynntar til Matvælastofnunnar og hefur stofnunin því ekki upplýsingar um að vörurnar séu á almennum markaði hér á landi.
Hinsvegar er ekki hægt að útiloka að vörurnar hafi komið til landsins í einkasendingum í gegnum vefverslanir. Netverslun hefur aukist til muna og er því mikilvægt að fylgjast vel með innflutningi með fæðubótarefnum. Eins og sjá má í alþjóðalegri aðgerð Pangea IX, sem stofnunin tók þátt í er mikið um ólöglega starfsemi víða um heim og ekki síður mikilvægt að neytendur séu meðvitaðir og upplýstir um þetta.
Að lokum hvetur Matvælastofnun fólk til að kaupa ekki vörurnar eða neyta þeirra þar sem þær geta verið hættulegar heilsu fólks. Matvælastofnun beinir því til neytenda að hafa samband við viðkomandi heilbrigðiseftirlit hafi þeir upplýsingar um vörurnar á innlendum markaði.
http://www.fda.gov/Safety/Recalls/ucm478883.htm
Sjá frétt MAST um aðgerð Pangea IX:
Frétt frá Matvælastofnun.