Börn eru hreinlega fullvissuð um að lífshamingjan sé falin í því að bryðja kolvetnaflögur og drekka sykurlög með íbættum örvandi efnum (koffín) á meðan þau horfa á uppáhalds skemmtikrafta sína fíflast á skjánum. Mæður friða jafnvel smábörn með nammimola og kaupa kippur með tveggjalítra flöskum af bragðbættum og örvandi sykurlegi af því það er svo hagstætt. Svo freistar möguleikinn á að vinna eitthvert leikfang á skafmiðann sem fylgir. En mæðrunum dettur samt ekki í hug að leyfa börnum sínum að smakka kaffisopa fyrr en eftir fermingu, þó hann innihaldi mun minna heildarmagn af koffíni og öðrum hættulegum efnum en gosið sem þau fá að drekka án takmarkana. Með kolvetnaríkum skyndibitanum fylgir svo gjarnan tveggja lítra flaska af sykurlegi með áðurnefndu taugaörvandi meðali, til þess að lokka neytandann enn frekar og koma sykurleginum á framfæri.
Ofan á allan kolvetnaausturinn er búið að telja okkur trú um að náttúrulega fitan í matnum sé óæskileg. Það er búið að breyta smekk okkar. Nú viljum við bara fitusneydda mjólk og bragðbætta léttvöru sem búið er að fjarlægja sem mesta fitu úr. Þetta kemur mjólkurframleiðendum afar vel, því þeir geta selt fitusnauðu mjólkurvöruna fullu verði og svo fituna eina sér, og græða þá tvöfalt. En til þess að fitusnauð og þar með bragðlítil léttvaran sé sæmilega æt þá þarf að bæta sykri og bragðefnum í hana. Sykurinn er hræódýr miðað við aukagróðann af fitunni. Sykurfíknin sér svo um að selja vöruna enn betur. Það er ekki náttúrulega fitan í matnum sem orsakar offituna. Hún þarf að vera til staðar til að veita nauðsynleg næringarefni og gefur hæga orku sem ekki örvar insúlínsveiflur eins og hröðu kolvetnin. Það er gegndarlaust sykur- og sterkjuát sem fyrst og fremst hefur komið okkur í koll. Þetta er sem sagt ekkert annað en svikin vara sem okkur er seld. Maturinn sem okkur er talin trú um að við eigum að neyta er alls ekki sá sem við erum hönnuð til að þola. Ég á mér þann draum að einhvern tíma komi að því að réttur barnanna til þess að vera laus við þessa áraun verði settur ofar rétti markaðarins til þess að framleiða og auglýsa ranga og hættulega vöru. En til þess þarf fyrst að horfast í augu við þessar staðreyndir og viðurkenna hinn raunverulega vanda. Sú kynslóð sem er að taka við af okkur er sannanlega allt of feit eins og svo ógnvænlega kemur fram í niðurstöðum nýrrar, vandaðrar rannsóknar á íslenskum ungmennum*. Ég vona innilega að komandi kynslóðir fái að njóta þeirrar gæfu að þessari óheillaþróun verði snúið við. SÍBS er að taka sér stöðu í þessari baráttu nú þegar lungnasjúkdómarnir eru á undanhaldi. Megi gæfan fylgja því starfi. Offita er að taka við af tóbaksneyslu sem heilsuskaðvaldur númer eitt í okkar heimshluta. Kannski ofneysla kolvetna verði innan tíðar talin jafn ógeðfelld og tóbaksneysla er að verða í dag?
Björn Geir Leifsson, skurðlæknir
*(Holdafar, úthald, hreyfing og efnaskiptasnið meðal 18 ára íslenskra framhaldsskólanema. Sigurbjörn Á. Arngrímsson og félagar. Læknablaðið, 5. tbl. 2012)
Birt með leyfir úr tímariti SÍBS.