Rót vandans
Líkamsstaða og líkamsbeiting er lykilatriði þegar kemur að bakvandamálum. Það er ekki nóg að laga einkennin í þetta sinn heldur þarf að finna út hvað það er sem veldur vandamálinu, er það líkamstaðan, vinnuaðstaðan, líkamsbeitingin, þjálfunarleysi eða of stuttir vöðvar? Er það mögulega meðfætt einkenni eins og mislangir fætur? Næsta skref er að vinna í þeim þætti eða þáttum og kenna viðkomandi að draga úr álaginu á bakið til langframa.
Oft þegar fólk kemur til sjúkraþjálfara er skaðinn þegar skeður. Þá þarf að kenna fólki að beita sér rétt og minnka álagið á hrygginn til að koma í veg fyrir að það fái einkenni aftur. Stundum er ekki hægt að laga sjálfan skaðann en það að byggja upp styrk og stöðugleika í baki, síðum og kviðvöðvum heldur fólki oft frá verkjum og þannig að það geti lifað nánast eðlilegu lífi.
Það hvernig við stöndum, sitjum, beitum okkur og hvílum okkur skiptir gríðarlega miklu máli. Oft hefur fólki aldrei verið kennt þetta, fyrr en það fær í bakið !
Hryggsúlan er samsett úr mörgum hryggjarliðum og fjölmörgum smáum vöðvum sem virkar sem ein heild. Því er það svo að skekkja á einum stað hefur áhrif víða. Til að létta álagið af hryggnum erum við alltaf að hugsa um að lengja hrygginn og fá þyngdarkraftinn til að verka sem hagstæðast á okkur. Við viljum minnka þrýsting á liði með því að draga hvirfilinn upp og rófubeinið niður.
Hvernig við beitum okkur við æfingar, við að lyfta þyngri hlutum og ekki síst erfiðisvinnu er enn mikilvægara því þá erum við oft að vinna með þyngdir sem auka enn frekar hættuna á að skaða sig ef ekki er varlega farið.
Styrkur, úthald og stöðugleiki bolvöðva er mikilvægur í sambandi við hvers konar bakvandamál. Vöðvalengd í fótleggjum og á mjaðmasvæði hefur einnig gífuleg áhrif upp í bakið. Stuttir vöðvar geta togað mjaðmagrindina inn í óæskilega stöðu sem hefur svo bein áhrif upp í bakið.
Kristín Gísladóttir, Sjúkraþjálfari í Gáska www.gaski.is