Vissir þú að trefjar stuðla að betri blóðsykurstjórnun, betri blóðfitum og heilbrigðari þarmaflóru, aðógleymdum jákvæðum áhrifum á meltinguna?
Vissir þú að trefjar stuðla að betri blóðsykurstjórnun, betri blóðfitum og heilbrigðari þarmaflóru, að ógleymdum jákvæðum áhrifum á meltinguna?
Trefjar eru mikilvægur hluti heilsusamlegs mataræðis. Hæfileg neysla trefja hefur meðal annars verið tengd minni líkum á sykursýki týpu tvö, hjarta- og æðasjúkdómum og ristilkrabbameini. Trefjar auka einnig seddutilfinningu sem aðstoðar við viðhald heilbrigðrar líkamsþyngdar.
Trefjaneysla meðalmannsins ætti að vera um 25-35 g á dag, í það minnsta. Hins vegar hafa kannanir á mataræði Íslendinga sýnt fram á að trefjaneysla er lægri en það hér á landi og skýrist það að mestu af lítilli neyslu heilkorns, ávaxta og grænmetis. Það er auðvelt að nálgast trefjar í mat og því er einfalt að auka trefjaneyslu sína.
Nokkur hollráð til að auka trefjaneyslu
Veldu brauð og aðrar kornvörur sem merktar eru með Skráargatinu og/eða heilkornamerkinu fremur en vörur úr fínunnu mjöli. Brauð telst trefjaríkt þegar það inniheldur a.m.k. 6 g aftrefjum í hverjum 100 g. Mælt er með vörum úr heilkorni tvisvar á dag.
Borðaðu grænmeti og ávexti með hverri máltíð, sem millibita eða sem álegg. Gott er að hafa slagorðið „Fimm á dag“ í huga en það vísar til fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag sem samsvarar u.þ.b. 500 g. Hér gildir fjölbreytnin og mikilvægt er að gleyma ekki grófa grænmetinu eins og t.d. rótargrænmeti, hvítkáli, blómkáli og spergilkáli.
Fáðu þér ferskan ávöxt í stað ávaxtasafa með morgun matnum.
Skiptu kjöti út fyrir baunir og linsur eða bættu þeim í kjötrétti a.m.k einu sinni í viku. Einnig er upplagt að bæta grænmeti út í flesta kjöt- eða fiskrétti.
Notaðu bygg, hýðishrísgrjón eða önnur heilkorn og heilkornapasta í stað hvítra hrísgrjóna eða pasta úr fínunnu hveiti.
Notaðu ósaltaðar hnetur og fræ út á salöt, eða sem nasl. Þurrkaðir ávextir eru líka tilvalið nasl. Hæfilegur skammtur er um 30 g. Hafðu þó í huga að of mikil aukning á trefjaneyslu á stuttum tíma getur valdið meltingaróþægindum.
Það getur verið heillavænlegra að breyta einu atriði í einu, það eykur líka líkurnar á því að breytingin
verði til frambúðar.
Færð þú nægar trefjar úr þínu fæði?
Höfundur er Kristín Jónsdóttir, næringarfræðingur