Á þingi American Academy of Allergy, Asthma and Immunology sam haldið var nýverið var kynnt rannsókn á áhrifum D-vítamíns á nefrennsli, nefstíflur og hnerra hjá einstaklingum sem þjást af árstíðabundnu ofnæmi. Nokkrar rannsóknir sem kynntar voru á þinginu benda reyndar til þess að D-vítamín geti verið hjálplegt fyrir einstaklinga sem þjást af ofnæmi.
Rannsókn sú sem um ræðir var tvíblind slembirannsókn með lyfleysu (double-blind placebo controlled study) hjá 35 einstaklingum á aldrinum 18-45 ára með árstíðabundið ofnæmi. Allir einstaklingarnir höfðu nefeinkenni eins og hnerra, nefrennsli og nefstíflur. Ofnæmispróf hjá öllum þessum einstaklingum höfðu staðfest ofnæmi fyrir trjám eða grasi. Allir notuðu nefúðalyf með sterum, sem er hefðbundin fyrirbyggjandi meðferð fyrir þá sem þjást af gróðurofnæmi. Helmingur einstaklinganna fékk meðferð með 4.000 einingum af D-vítamíni daglega.
Mælingar á D-vítamíni í blóði sýndu eðlileg gildi hjá öllum einstaklingunum áður en meðferð hófst sem þýðir að enginn þjáðist af D-vítamín skorti. Meðferðin stóð í tvær vikur.
Ofnæmiseinkenni frá nefi minnkuðu marktækt meira í hópnum sem fékk meðferð með D-vítamíni en í hópnum sem fékk enga slíka meðferð (lyfleysuhópurinn). Munurinn á hópunum var umtalsverður, nánast 50 prósent.
Dr. Fuad Baroody frá Háskólanum í Chicago, sem stýrði rannsókninni, telur þó að túlka verði niðurstöðurnar varlega, ekki síst í ljósi þess hversu lítil rannsóknin var. Hann segir að fleiri rannsóknir þurfi að gera áður en hægt verður að ráðleggja fólki með gróðurofnæmi að taka D-vítamín ásamt nefúðalyfinu.
Hingað til hefur aðallega verið mælt með töku D-vítamíns hér á landi yfir vetrartímann, þegar geisla sólar nýtur við í litlum mæli.
Við sem þjáumst af gróðurofnæmi gætum þó hugsanlega freistast til að stelast í D-vítamín staukinn í sumar, þótt læknisfræðin sé enn ekki tilbúin að mæla með því.
Heimildir: mataraedi.is