Kvef og flensur eru líklega algengasta heilsufarsvandamálið sem við mannfólkið glímum við. Meira er 200 mismunandi vírusar geta valdið misalvarlegum kvefeinkennum. Vírusar sem orsaka kvef smitast manna á milli með svokölluðu úðasmiti. Úðasmit á sér stað með þeim hætti að örsmáir dropar frá smituðum einstaklingi dreifast út í andrúmsloftið og næsti einstaklingur andar þeim að sér og getur þannig smitast. Einnig getur verið um snertismit að ræða, þá lenda droparnir með smitefninu á einhverju yfirborði og næsti einstaklingur snertir það og smitast við það að snerta eigin munn, nef eða augu. Vírusar geta lifað þó nokkra klukkutíma á yfirborði eins og borðum, handföngum, hurðahúnum, krönum, pennum og slíku. Þegar kólna tekur í veðri eyðum við meiri tíma innanhúss og um leið erum við meira innan um fólk með kvef og hósta og það eykur líkurnar á smiti. Þó svo að það sé ekki hægt að koma algerlega í veg fyrir kvefsmit þá er hægt að draga úr líkum á smiti. Láttu bólusetja þig gegn influensu: Með því að láta bólusetja sig gegn árlegri inflúensu færðu frábæra vörn. Kynntu þér vel hvort vinnustaðurinn þinn býður starfsfólki sínu upp á slíkar bólusetningar, ef ekki þá er hægt að fá bólusetningu hjá Heilsuvernd og hjá Heilsugæslustöðvum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að með bólusetningu er hægt að draga úr líkum þess að fá inflúensu um 70-90%. Þó svo að bólusetning gefi ekki fullkomna vörn þá fá þeir sem smitast mun vægar einkenni en ella.
Annar áhrifamesti þátturinn í vörnum gegn kvefi og flensu er einfaldlega handþvottur. Þvoðu þér vandlega og oft um hendur og hvettu þá sem standa þér næst til þess sama. Með því fyrirbyggir þú snertismit af stöðum eins og hurðahúnum og handriðum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir sem þvo sér oft og vel um hendur sýkjast sjaldnar af kvefi og flensu. Þetta á sérstaklega við þegar þú kemur heim úr innkaupaferð, úr heilsuræktarstöðinni eða öðrum slíkum stöðum. Með handþvotti getur þú eytt vírusum sem þú hefur krækt þér í með því að snerta staði sem margir aðrir eru að snerta. Það er einnig mikilvægt að kenna börnum að þvo sér vel um hendurnar og brýna fyrir þeim hversu áríðandi það er.
Nýleg rannsókn sýndi fram á að í einni skólastofu fundust flensuveirur á 50% af snertiflötunum. Þess vegna er um að gera að nota tækifærið þegar verið er að þrífa heima og á vinnustaðnum að þurrka af stöðum eins og hurðahúnum, símum, slökkvurum, lyklaborði á tölvu og sjónvarpsfjarstýringunni með hreinsiefni. Venjulegt sápuvatn á að vera nóg í flestum tilfellum. Ef barn er með kvef eða kvefeinkenni er um að gera að gleyma ekki að strjúka af leikföngunum.
Það er staðreynd að okkar eigin fingur rata ansi oft upp í okkur að ekki sé talað um nef og augu. Þetta eru allt staðir þar sem veirur og sýklar almennt eiga greiða leið inn í líkamann. Til þess að draga úr líkum á smiti þá er um að gera að vera meðvitaður og forðast að snerta andlitið með eigin höndum nema maður sé nýbúinn að þvo sér um hendur.
Með því að viðhalda eigin heilbrigði almennt verður líkaminn betur í stakk búinn til þess að berjast gegn sýklum. Góð vökvainntekt byggir upp ónæmiskerfið samkvæmt rannsóknum. Ennþá betra er að forðast koffíndrykki svo sem kaffi, te, kóladrykki og orkudrykki. Drekktu 6 til 8 glös af vatni á dag og meira ef það er mjög heitt í veðri.
Tilgangurinn með reglubundinni hreyfingu er ekki eingöngu að komast í betra form heldur líka sú staðreynd að með reglubundinni hreyfingu eflist ómæmiskerfið og getur þannig dregið úr líkum á veikindum. Með heilbrigðum lífsstíl er líkaminn betur undirbúinn til þess að berjast gegn smiti. Streita skiptir einnig miklu máli í þessu samhengi. Fólk sem býr við mikla streitu er líklegra til þess að vera með veiklað ónæmiskerfi. Regluleg hreyfing dregur úr streitu og stuðlar þannig að auknu heilbrigði.
Sígarettureykur ertir slímhúðir í öndunarfærunum og eykur þannig líkur á að vírusar nái fótfestu og valdi sýkingum. Óbeinar reykingar geta haft sömu áhrif, ekki síst hjá börnum.
Það er nú einu sinni þannig að maður kemst ekki alltaf að vaski til þess að þvo sér um hendurnar. Þá gerut verið gott að eiga lítinn brúsa með handspritti sem auðvelt er að hafa með sér. Gott er að hafa í huga að sýklar geta lifað í nokkrar klukkustundir í handklæðum og því er ráðlegt að nota pappírsþurrkur á baðherbergjum sem margir nota.
Hollt og gott mataræði getur eflt ónæmiskerfið svo það verði betur undirbúið til þess að verjast gegn kvef og flensusmiti. Ávextir, grænmeti, prótein sem eru með lítilli fitu og flókin kolvetni eru lykilatriði í þessu samhengi.Einnig eflir D-vítamín ónæmiskerfið og ættu allir að taka inn auka skammt af því.
Góður svefn hefur einnig eflandi áhrif á ónæmiskerfið. Þeir sem sofa illa eða of lítið hafa lélegri mótstöðu samkvæmt rannsóknum. Mikilvægt er að hafa í huga að oftast tekur nokkurn tíma að breyta svefnvenjum og bæta svefntruflanir. Gefstu ekki upp þó þér takist ekki að ná árangri á nokkrum dögum. Breytingarnar segja til sín smám saman og verða oft ekki ljósar fyrr en á nokkrum vikum.
Tekið af síðunni doktor.is