Íslendingar neyta meira af salti en mælt er með – en margir vita ekki af því. Mest af saltinu er dulið í tilbúnum matvörum. Það er heilsufarslegur ávinningur af því að minnka saltneyslu því þannig má draga úr hækkun blóðþrýstings, en háþrýstingur er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Áhrif þess að draga úr saltneyslu eru mest hjá þeim sem eru með of háan blóðþrýsting og hjá þeim sem eru yfir kjörþyngd en einnig má vinna gegn þeirri blóðþrýstingshækkun sem yfirleitt fylgir hækkandi aldri. Þá tengist mikil saltneysla einnig auknum líkum á krabbameini í maga. Samkvæmt ráðleggingum um mataræði er mælt með að fullorðnir neyti ekki meira en sem nemur 6 grömmum af salti á dag. Rannsóknir sýna að Íslendingar neyta meira salts en mælt er með.
7 staðreyndir um salt
Stærstur hluti salts í fæðu, eða um þrír fjórðu, kemur úr tilbúnum matvælum, svo sem unnum kjötvörum, brauði, ostum, pakkasúpum og -sósum, tilbúnum réttum og skyndibitum. Embætti landlæknis hvetur neytendur til að skoða saltið í matvörum og finna leiðir til að minnka saltneysluna. Framleiðendur eru einnig hvattir til að minnka smám saman saltinnihald í matvörum sínum. Sjá nánar í 7 staðreyndum um salt.
Að venja sig á minna salt
Embættið gefur hér einföld ráð um hvernig hægt er að minnka saltnotkun við matseld heima við og uppskriftir að heilsusamlegum réttum sem innihalda lítið salt en eru þó bragðmiklir. Einnig eru gefin ráð um hvernig á að lesa á umbúðir matvara úti í búð:
Niðurstöður viðhorfskönnunar
Samkvæmt samnorrænni könnun á viðhorfi og þekkingu á áhrifum mikillar saltneyslu, sem gerð var sumarið 2014, kemur fram að Íslendingar eru mjög móttækilegir fyrir því að draga úr saltneyslu ef þeir fá að vita að þeir neyti of mikils salts og þeir eru almennt hlynntir því að geta valið saltminni matvæli. Rúmlega 60% telja að dragi matvælaiðnaðurinn úr saltmagni í vörum sínum geti það hjálpað því við að borða saltminni mat.
Einnig kom fram að rúmur helmingur Íslendinga þekkir ekki ráðlegginguna um saltneyslu, sem er 6 grömm að hámarki á dag. Stór hluti Íslendinga veit að stærstur hluti þess salts sem þeir neyta kemur úr unnum matvælum. Tæp 90% telja að of mikil saltneysla geti haft neikvæð áhrif á heilsuna. Nánar um niðurstöður viðhorfskönnunarinnar.
# SkodaduSaltid
Ítarefni:
Þrjár greinar af vef Heilsutorg.is er varða neyslu á salti má skoða hér, Minnkum saltneyslu, Drögum úr saltneyslu og Salt í hófi.
Grein fengin af vef landlaeknir.is