Ísfirðingurinn Steinþór Bragason ákvað 17 ára gamall að drekka hvorki né reykja en leggja þess í stað inn á reikning andvirði þess sem vinir hans eyddu í áfengi og tóbak. Á 20 árum safnaði hann með þessum hætti rétt tæpum 20 milljónum. Þetta kemur fram í Gömlu fréttinni hér á Heilsutorg en Steinþór tjáði sig upphaflega við BB.is
„Vinir mínir reyktu sumir og fóru flestir með eina til tvær flöskur á helgi. Ég ákvað að prófa að leggja fyrir þá upphæð sem þeir eyddu í djammið,“
Steinþór er í viðtali við Bæjarins besta. Þar segist hann alltaf hafa verið ráðdeildarsamur, hafi fengið þann eiginleika með móðurmjólkinni enda móðir hans skipulögð. En hvað gerði hann við peningana sem hann safnaði með þessum hætti?
Þetta var nokkurs konar leiktækjasjóður en fyrir peningana keypti ég mér tvo bíla, fjórhjól, einn sportbíl og svo var þetta útborgun í húsinu okkar.
Steinþór fylgdist með verðlagi á vodka og sígarettum til að vita hvað hann ætti að spara. Það voru einu skipin sem hann fór í ríkið.
„Árið 2007 keypti ég mér Dodge Ram fyrir þessa peninga. Þegar ég kom að sunnan var ball í Ögri í Ísafjarðardjúpi. Ég ákvað að líta við. Þegar ég kom út úr bílnum vatt sér að mér maður með sígarettu í annarri og flösku í hinni og kallaði:
„Hva!, ert þú einhver útrásarvíkingur? Eitthvað hefur þessi kostað.“
Ég svaraði honum að bíllinn hefði kostað einn pakka af sígarettum og eina flösku á helgi í fjögur ár. Hann sagði ekki mikið eftir það,“ rifjar Steinþór upp hlæjandi í samtali við BB.is