Þeir sem vilja léttast hafa eflaust fengið að heyra að það sé mikilvægt að borða morgunmat ef losna á við kílóin. En það er ekki rétt samkvæmt niðurstöðum rannsóknar. Það að borða morgunmat hefur þó þau áhrif að það getur hjálpað fólki að verða virkara og hreyfa sig meira.
Vísindamenn við University of Bath rannsökuðu þetta og komust að því að það skiptir í raun engu hvort fólk borði morgunmat, það eitt og sér veldur því ekki að það léttist. En góðu áhrif morgunmatarins eru að hann getur ýtt undir meiri hreyfingu fólks og að það borði minna þegar líður á daginn.
Vísindamennirnir telja að hreyfing sé mikilvæg leið að bættri heilsu og minni þyngd og því getur það verið til hagsbóta að borða morgunmat ef þessi þáttur er hafður í huga.