Góðar ábendingar frá Faglegri fjarþjálfun sem vert er að skoða
Ég lendi daglega í því að leiðbeina einstaklingum með mataræðið. Ég er enginn næringarfræðingur en ég hef lesið mikið tengt næringu og heilbrigðum lífstíl. Ég er algjörlega á móti skyndilausnum, öfgum og öllu því sem líkamsræktarbransinn gengur því miður of mikið út á. Mataræðið er, eins og þið vitið, lykilþáttur í öllum árangri tengdum heilsu og líkamsrækt.
Settu þér markmið!
Þetta byrjar allt á því að setja sér skýr og raunhæf markmið. Skrifaðu niður lista af öllu því sem þig langar til að bæta í matarvenjum þínum. Ég mæli með því að setja sér skammtíma og langtíma markmið og mundu að skipuleggja máltíðir í kringum æfingar og aðra hreyfingu. Ef þú reynir að gera allt í einu og gjörbreyta mataræðinu „strax á mánudaginn“, þá eru yfirþyrmandi líkur að þú náir ekki langtíma árangri. Það er stór breyting að taka U-beygju í mataræðinu. Taktu einn þátt fyrir í einu og náðu honum góðum áður en þú ferð í næsta. T.d. ef þú borðar ekki morgunmat, þá skaltu byrja á því að venja þig á það. Það gæti tekið einhverja daga eða vikur en gerðu það að vana áður en þú ræðst í næsta markmið. Ef þú ert að breyta um lífstíl og stefnir að langvarandi árangri, þá skiptir engu máli hvort þetta taki þrjár vikur eða þrjá mánuði!
Hafðu raunhæfar væntingar til þín!
Engir tveir skrokkar eru eins, þess vegna þarft þú að finna hvað hentar þér. Það þarf ekkert að vera að það sama henti þér og einhverjum öðrum. Þess vegna þurfa væntingarnar að vera í samræmi við líkama þinn og æfingasögu. Þetta er hörku vinna og getur tekið tíma en það er virkilega þess virði þegar maður er búinn að smíða þetta inn í daglega lífið.
Skipuleggðu þig fram í tímann!
Skrifaðu niður hollar afurðir sem þér þykja góðar. Einnig er hægt að hafa heilu uppskriftirnar við höndina, sem auðvelt er að grípa í. Með því að skipuleggja þig fram í tímann og hafa alltaf eitthvað við höndina, þá minnkar þú líkurnar á því að lenda í þeim aðstæðum þar sem þú ert fastur/föst í umferðinni út í bæ og eina í stöðunni er að grípa sér eitthvað fljótlegt og mögulega óhollt.
Stöðugleikinn skiptir öllu máli!
Búðu þér til áætlun og haltu þig við hana. Reyndu að borða alltaf á sama tíma yfir daginn og hafðu skammtastærðir og fjölda máltíða svipaða frá degi til dags. Líkaminn mun venjast munstrinu og í þakklætisskyni mun hann halda efnaskiptum og orkustiginu háu. Þér mun eflaust líða betur í „rútínu“. Það er auðvelt að eyðileggja vinnuna með því að grípa sér eitthvað sveitt á ferðinni, kannski dag eftir dag. Tíminn og vinnan sem þú eyðir í að skipulagningu og stöðugleika er eitthvað sem mun nýtast þér alla ævi. Þetta er ekkert annað en lærdómur og reynsla og fyrir vikið þá lærir þú betur á líkama þinn.
Ekki vera of hörð/harður við þig!
Enginn er fullkominn í mataræðinu og það er heldur ekkert gaman. Ef þú misstígur þig aðeins, ekki detta í eitthvað volæði útaf því. Girtu þig bara og haltu þig við efnið. Að lifa heilsusamlegu líferni þýðir ekki að þú getir ekki öðru hverju farið út af sporinu og notið matar sem er ekki vanalega á boðstólnum hjá þér.
Haltu þig við „planið“!
Það tekur tíma að þróa með sér breytta og heilsusamlega hegðun. Mögulega eftir um mánuð þar sem þú hefur haldið þig við efnið, með fáum en nauðsynlegum hliðarskrefum, hefur þú þróað nýja venju. Þannig það sem áður fyrr var erfitt, mun líklega verða áreynslulaust og þægilegt og hluti af daglegu lífi.
Þetta þarf að vera skemmtilegt!
Ef þú ert staðráðin/n að gera þetta af alvöru, þá þarftu að skuldbinda þig, aga þig upp og fórna. Það þýðir samt ekki að þetta geti ekki verið skemmtilegt og þú skalt þess vegna ekki vera að stressa þig á einhverjum litlum þáttum sem á endanum skipta kannski ekki öllu máli. Finndu skemmtilegar leiðir til að halda skemmtanagildinu uppi. Það kemur margt til greina eins og t.d. að fá einhvern með sér í þetta, búa til skemmtilegar uppskriftir og prófa sig áfram. Ef þú ert að breyta um lífstíl, þá er um að gera að reyna að gera þetta sem skemmtilegast.
Ekki drífa þig!
Flestir byrja með metnaðinn í botni og reyna að breyta öllu á núll einni. Breytingin verður hins vegar of mikil, á of stuttum tíma og margir bakka út og hætta. Eins og ég kom inn á hér að ofan, þá eru það litlu breytingarnar sem skipta máli og verða á endanum að stórri lífstílsbreytingu.
Njóttu ferðarinnar og ekki einbeita þér of mikið af áfangastaðnum!
Að lifa heilsusamlega er aldrei auðvelt , nema auðvitað ef það er það eina sem þú þekkir. Til þess að njóta breytinganna og allra hindrananna og því sem þessu fylgir, þá er gott að huga að því að njóta ferðarinnar í átt að markmiðinu. Um leið og þú nærð þínum markmiðum, þá er nauðsynlegt að hafa annað við höndina. Það þarf alltaf að hafa eitthvað til að stefna að. Njóttu þess þegar þú nærð smáu markmiðunum því þau safnast upp í eitt stórt afrek.
Mældu árangurinn og settu þér alltaf ný og ný markmið!
Til þess að fylgjast með árangrinum, þá er nauðsynlegt að fylgjast með og mæla. Breytingar munu líklega verða bæði líkamlegar og andlegar. Þú mælir andlegu hliðina auðvitað bara í aukinni vellíðan og líkamlegar mælingar sýna þér að þú ert á réttri leið. Ég mæli ég með að þú notir spegilinn, ummálsmælingar og fatastærðir sem mælikvarða.