Þann 23. janúar sl. birtist grein í Morgunblaðinu um mataræði og kransæðasjúkdóma á Íslandi eftir Gunnar Sigurðsson, lækni, og Laufeyju Steingrímsdóttur, prófessor.
Í greininni rekja þau þann góða árangur sem náðst hefur í baráttunni við kransæðasjúkdóma hér á landi á árunum 1981–2006, en á þessu tímabili fækkaði ótímabærum dauðsföllum af völdum kransæðasjúkdóma meðal Íslendinga um 80%. Í greininni kemur fram að sterkasti þátturinn í þessari fækkun dauðsfalla af völdum kransæðasjúkdóma hafi verið sú lækkun sem varð á meðalgildi kólesteróls í blóði landsmanna á þessu tímabili en hún skýrir nálægt þriðjungi fækkunarinnar.
Á þessum árum þokuðust neysluvenjur almennings í hollustuátt en minna var borðað af fullfeitum mjólkurvörum, smjöri og smjörlíki um leið og notkun á jurtaolíum við matargerð jókst sem og neysla á grænmeti og ávöxtum. Þetta varð til þess að neysla á mettaðri fitu minnkaði frá árinu 1990 úr rúmum 20% af orkunni í 14,5% að meðaltali. Neysla á transfitusýrum minnkaði einnig um meira en helming, eða úr 2% orkunnar í 0,8%. Vert er að vekja athygli á þessum góða árangri þar sem nú berast fréttir af mikilli aukningu á smjörframleiðslu sem mögulega tengist vinsældum lágkolvetna mataræðis. Óttast menn að þetta afturhvarf í fituríkar matvörur geti snúið við þeirri jákvæðu þróun sem orðið hefur í baráttunni við kransæðasjúkdóma á síðustu áratugum og er það ekki að ástæðulausu.
Jákvæð þróun Finna hefur snúist til verri vegar
Reynsla annarra þjóða sýnir að sá mikli árangur sem náðst hefur við að draga úr áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma er hvorki sjálfgefinn né óbrigðull. Finnar náðu, eins og við, góðum árangri í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma á áðurefndu tímabili. Svipuð þróun varð í fituneyslu þar í landi, en á milli áranna 1982 og 2007 lækkaði hlutfall mettaðrar fitu af orkuinntöku úr 20% í 13% og kólesterólgildi í blóði lækkaði. Hin jákvæða þróun í mataræði Finna síðustu áratugi virðist hins vegar hafa snúist til verri vegar hvað varðar neyslu á fitu og salti og sýna niðurstöður rannsókna að kólesterólgildi í blóði þeirra hafa hækkað frá árinu 2007 til 2012.
Finnar telja að þessa hækkun á kólesterólgildum megi rekja til aukinnar neyslu á mettaðri fitu. Niðurstöður FINDIET rannsóknarinnar frá árinu 2012, sem er hluti af FINRISK rannsókninni, sýndi að fleiri nota nú smjör á brauðið og við eldamennsku en árið 2007 og hlutfall orku úr mettaðri fitu jókst úr 13% í 14% á árunum 2007–2012. Finnar óttast að vari þessi breyting á mataræði þjóðarinnar sé hætt við því að tilfellum hjartasjúkdóma og heilblóðfalls fari aftur að fjölga eftir áratuga fækkun.
Áhersla á heilbrigða lifnaðarhætti
Rannsóknir á þyngdartapi eiga það flestar sammerkt að sýna árangur til skemmri tíma en flestum reynist erfitt að viðhalda þyngdartapi til lengri tíma eða nokkurra ára. Lágkolvetna mataræði, sem hefur reyndar ekki verið vel skilgreint og getur innihaldið allt frá mjög litlu magni af kolvetnum og yfir í nokkurt magn kolvetna á dag, hefur verið hampað að undanförnu sem góðri leið til að léttast. Samkvæmt nýlegri sænskri skýrslu, sem byggð var á kerfisbundnu yfirliti, virðist slíkt mataræði virka betur til skemmri tíma litið sem leið til þyngdartaps, borið saman við lágfitumataræði. Hins vegar virðist til lengri tíma litið jafn erfitt að halda sig við slíkt mataræði eins og aðra kúra og eftir eitt ár er ekki hægt að sjá neinn mun á þyngdartapi þegar mismunandi mataræði er skoðað. Af þessum sökum verður að teljast heillavænlegra fyrir almenning að leggja áherslu á heilbrigða lifnaðarhætti almennt svo sem hollt mataræði, daglega hreyfingu, góðar svefnvenjur og að takmarka streitu frekar en að einblína á þyngdartap.
Jákvætt að draga úr neyslu sykraðra drykkja, sælgætis og bakkelsis
Það er jákvætt að draga úr neyslu á sætum drykkjum, sælgæti, kökum og kexi. Hins vegar er ekki æskilegt að sneiða hjá hollum mat eins og heilkornavörum, grænmeti og ávöxtum enda er nær ómögulegt að uppfylla ráðleggingar um trefjar (a.m.k. 25–35 grömm á dag) á slíku mataræði svo fátt eitt sé nefnt. Ef það er vilji fólks að auka hlut fitu í fæðunni er mikilvægt að huga að gæðum fitunnar og velja frekar ómettaða fitu (t.d. í jurtaolíum, hnetum, lárperum, feitum fiski og lýsi) í stað mettaðrar fitu (t.d. í kexi, kökum, sælgæti, feitum mjólkurvörum, feitu kjöti og kjötvörum, smjöri og smjörlíki).
Í nýjum norrænum næringarráðleggingum, NNR 2012, er mælt með mataræði sem einkennist af mat úr jurtaríkinu, sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi (t.d. dökkgrænt blaðgrænmeti, kál, lauk, baunir og ertur, rótargrænmeti, ávexti og ber, hnetur og heilkornavörur) ásamt fiski og fituminni mjólkurvörum. Þá er mælt með því að nota jurtaolíur og takmarka saltneyslu. Með þessu mataræði er talin minni hætta á flestum fæðutengdum, langvinnum sjúkdómum.
Mataræði skiptir verulegu máli í baráttunni við langvinna sjúkdóma, þar á meðal kransæðasjúkdóma. Hér er því tekið undir lokaorð þeirra Gunnars Sigurðssonar og Laufeyjar Steingrímsdóttur um að vert sé að staldra við og íhuga hvað íslensk reynsla síðustu áratuga hefur kennt okkur og reyna að koma sameiginlega í veg fyrir afturhvarf til óhollara mataræðis.
Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis
Ítarefni:
Grein Gunnars Sigurðssonar og Laufeyjar Steingrímsdóttur í Morgunblaðinu 23. janúar 2014
Fréttatilkynning frá National Institute for Health and Welfare í Finnlandi
Skýrsla Statens beredning för medicinsk utvärdering (SBU) í Svíþjóð um mataræði og offitu