Nokkur fjöldi matvælafyrirtækja á Íslandi hafa tekið upp merkingar á sínum framleiðsluvörum með það að markmiði að benda á matvæli sem eru heilsusamlegri en önnur. Matvælunum er skipt upp í tiltekinna flokka til að mynda brauð, álegg og mjólkurvörur. Magn fitu, mettaðrar fitu, sykurs, trefja og salts hefur áhrif á það hvort að merkja má matvælið með Skráargatinu en viðmiðin eru mismunandi eftir matvælaflokkum. Þegar brauði og brauðmeti, pasta og morgunkorni er annars vegar er einnig horft til heilkorna hlutarins.
Þau fyrirtæki sem hafa nú þegar hafið að merkja sínar vörur með Skráargatsmerkinu, og jafnvel notað viðmið þess við vöruþróun, eru Árla með Bygga morgunkornið (sem líklega voru fyrstir með Skráargatið hérlendis), Gæðabakstur, Myllan, Mjólkursamsalan, Mjólka, Reykjagarður, Sláturfélag Suðurlands og Sómi en einnig Nón sem selur tilbúinn mat. Auk þessar eru fluttar inn vörur frá hinum norðurlöndunum til dæmis sumt morgunkorn, múslí, hrökkbrauð og tilbúnir réttir merkt með Skráargatinu.
Vörur frá Bretlandi eru sumar merktar með Umferðaljósa merkingum sem reyndar eru heldur framandi merkingar fyrir okkur Íslendinga, að minnsta kosti ennþá.
Heilsutorg stóð fyrir könnun þar sem lesendur voru spurðir út í þeirra tilfinningu fyrir því hvor merkingin „Skráargatið eða Umferðaljósamerkingin væru betur til þess fallin að hjálpa neytendum að velja hollara“.
Á sama tíma var kannað hvort að fólk þekkti þessar merkingar eða ekki. 152 svöruðu könnuninni og töldu 59% svarenda að Skráargatið væri betra, en aðeins 7% sögðu að Umferðaljósamerkingin væri betri. Það hlítur að teljast góður árangur varðandi Skráargatið að aðeins 1% neytenda þekkir það ekki en á sama tíma þekkja 28% ekki Umferðaljósin sem reyndar er eðlilegt þar sem kynning á því hefur ekki enn farið fram. 5% töldu að hvorug merkingin myndi skipta máli fyrir val neytenda. Rétt er að taka fram að þar sem markhópur Heilsutorgs er fólk með töluverða heilsuvitund þá hefur hópur svarenda líklega kynnt sér merkingar matvæla betur en þversnið þjóðarinnar en þó segir þessi könnun okkur að fólk hefur almennt skoðun á þessum þætti og telur að merkingar séu hjálplegar.
Fríða Rún Þórðardóttir
Næringarfræðingur, næringarráðgjafi