Mikil vakning hefur orðið varðandi það að matvæli séu hrein og afurðir sem náttúrulegastar í stað þeirra geymsluþolshyggju sem hefur rutt sér til rúms. Þá erum við að verða mjög meðvituð um unnar matvörur, ýmis litarefni og önnur uppfylliefni í matvælum líkt og tíðkast við sprautun þeirra. Ekki síst höfum við vaxandi áhyggjur af erfðabreytingu, sýklalyfjanotkun og skordýraeitri við ræktun og vinnslu matvæla.
Hafi maður í huga gamla orðatiltækið „þú ert það sem þú borðar“ þá er eflaust óþægileg tilfinning að vita til þess að við innbyrðum töluvert af aukaefnum dagsdaglega. Mörg þeirra hafa verið með okkur lengi og deilt er um það hvort þau valdi óþægindum eða viðbragði af einhverjum toga í líkama einstaklinga. Það er erfitt að gera rannsóknir sem tengjast mataræði þar sem venjur okkar eru svo frábrugðnar. Iðulega byggja gögn á spurningalistum og skoðun á því hvað fólk kaupir og svo framvegis. Erfiðara er að gera mælingar líkt og mögulegt er í blóðrannsókn og sjá hvort t.d. nýrun starfa eðlilega eða ekki.
Samspil þessara þátta er svo mjög mikilvægt í ljósi erfða, umhverfis- og álagsþátta eins og streitu og fleira mætti telja sem auðveldlega getur sett starfssemi líkamans úr skorðum. Læknar eru að sannfærast meir og meir um tengingar sjúkdóma og mataræðis í víðara samhengi en áður. Meiri gagnrýni hefur komið fram á leiðbeiningar um mataræði og skemmst er frá því að segja að ýmsir kúrar sem komast í tísku hafa líka talsvert mikið með sér. Það er þó mín skoðun að enginn „kúr“ virki, heldur hljóti þetta alltaf að vera byggt á jafnvægi.
Til þess að geta skoðað þessa hluti betur hafa læknar í auknum mæli farið að skoða samsetningu garnaflóru og svo virðist sem ónæmiskerfi okkar og virkni þess tengist henni meir en áður var talið. Við höfum til dæmis rannsóknir varðandi bólguþætti og þess háttar sjúkdóma sem virðast beinlínis tengjast mataræði. Hinn alræmdi hvíti sykur, einföld og auðmeltanleg kolvetni líkt og hveitivörur, glúten og þess háttar virðast hafa veruleg áhrif á suma einstaklinga. Aðrir finna meira fyrir mjólkurvörum, ýmsum kryddum og náttúrulegum afurðum ekki síður en þeim aukaefnum sem ég minntist á að ofan.
Þetta er því flókið samspil margra þátta en það sem við þurfum að geta gert í framtíðinni og er mögulega að verða að veruleika er að beita einstaklingsmiðaðri nálgun varðandi mataræði og þá þróun sjúkdóma hjá viðkomandi. Í dag er verið að prófa sig áfram við meðhöndlun þeirra og safnast nú saman gögn varðandi það með hverjum deginum sem líður.
Ein merkilegasta rannsókn síðustu ára kom frá Ísrael nú nýverið og var birt í tímaritinu Cell, sem er eitt hið virtasta sinnar tegundar. Þessir aðilar fylgdust með blóðsykurstjórnun einstaklinga, sem er einn af grundvallarþáttum varðandi sykursýki auðvitað, en líka offitu og bólguvanda hvers konar í líkamanum, á sama tíma og þeir gáfu viðkomandi ákveðna fæðu. Ýmsar rannsóknir aðrar voru gerðar, til dæmis skoðun á saur og blóði. Niðurstöður staðfestu það sem við höfum lengi vitað að hver og einn bregst mismunandi við því sem hann borðar, sem þýðir líka að það er ekki sama fæðan sem fitar alla. Þvert á móti sýndu þeir fram á að sumir virtust standa betur að vígi í svokallaðri „óhollustu“ en aðrir og voru ekkert líklegri til að fitna miðað við blóðsykursvar.
Þar var þó ekki staðar numið heldur settu vísindamennirnir gögnin í tölvulíkan sem þeir hönnuðu og gat spáð fyrir um svörun einstaklings við ákveðinni fæðu. Það er kannski ekki svo merkilegt þegar maður er búinn að rannsaka viðkomandi og séð hvernig hann bregst við, snilldin fólst í því að geta spáð fyrir um annað fólk með ákveðnum grunnrannsóknum og hafa rétt fyrir sér líka.
Þetta þýðir á mannamáli að það er búið að hluta til finna leið að þeim heilaga gral að gefa einstaklingsbundnar leiðbeiningar um mataræði með slíkri nákvæmi hvað þennan þátt varðar að það hefur ekki gerst áður. Það má þó ekki missa sig í gleði því iðulega er líkaminn flóknari en maður heldur og ný þekking sýnir bara hversu lítið maður veit.
En um leið og við fáum alvöru rannsóknir sem þessar á tengslum mataræðis og sjúkdóma, með það að markmiði að auka vellíðan og bæta heilsufar þá erum við á réttri leið. Vegferðin er hafin og á næstu árum spái ég að það munu verða miklar breytingar á nálgun læknisfræði í þessa veru. Við erum þegar komin vel á veg í einstaklingsbundinni krabbameinsmeðferð. Þar höfum við getað dregið úr aukaverkunum af meðferð með því að finna réttu lyfin og þéttni þeirra til að ná hámarksvirkni gegn krabbanum. Við erum að sjá þetta líka í meðhöndlun sýkinga og við munum sjá þetta í forvörnum og meðhöndlun lífsstílsjúkdóma á sama hátt.
Þannig er ljóst að matur er mannsins megin, en ekki er sama hvað hentar hverjum og skyldi enginn láta glepjast af sölumennsku að það sé einhver ein töfralausn. Þetta er samspil margra þátta og mikilvægt að hafa rétta nálgun á vandann, einstaklingsmiðaða og studda rannsóknum, en ekki bara reynsluvísindum þó það sé oft einmitt upphafið að endanlegri niðurstöðu. Framtíðin er að venju að koma, ég hlakka til og það ættir þú líka að gera.
Grein af vef doktor.is