Oft eru vörur boðnar til sölu sem virka eins og þær eru sagðar virka í auglýsingum en því miður er það þó mjög oft svo að fólk kaupir köttinn í sekknum. Hér fyrir neðan eru fullyrðingar sem oft heyrast þegar tveir eða fleiri koma saman og ræða þessi mál.
B-12 vítamín læknar þynnku: það er ljóst að það gengur á B-vítamínforðann við langvarandi drykkju. Aftur á móti er ekkert í vísindunum um jákvæð áhrif af stærri skömmtum af B-12 vítamíni á þynnku sem kemur í kjölfar einstaka ofdrykkju.
Ginseng gerir þig gáfaðri: til eru mismunandi tegundir af ginseng sem hafa að einhverju leyti mismunandi áhrif. Ekkert er í vísindunum um það hvort ginseng geri mann gáfaðri. Hitt er annað mál að flestar tegundir af ginseng hafa einhver örvandi áhrif og við örvun miðtaugakerfis, þ.m.t. heilans, má vel vera að fólki finnist það vera gáfaðra.
Sólhattur læknar flensu: sólhattur læknar ekki flensu. Mjög mismunandi er þó hvort niðurstöður rannsókna styðji að sólhattur geti dregið úr áhrifum flensu, líkt og haldið hefur verið fram með C vítamín. Líkur á eituráhrifum vegna neyslu á sólhatti eru litlar ef neyslan er í samræmi við ráðleggingar og því getur neysla á sólhatti sennilega ekki gert neitt ógagn en spurningin hvort sólhattur geri eitthvert gagn yfir höfuð.
A-vítamín bætir sjónina: ef um er að ræða skort á A-vítamíni, sem er ekki tilfellið hjá flestum Íslendingum, þá getur viðbót af A-vítamíni bætt sjónina. Hins vegar getur A-vítamín á formi retínóla (retinol, retinal) verið mjög skaðlegt í stórum skömmtum. Því er mikilvægt að halda sig sem næst ráðlögðum dagskammti (RDS) og neyta ekki meira af A-vítamíni en nauðsynlegt er.
Kreatín gerir þig sterkari: kreatín er oftast á forminu kreatín-fosfat (CP). Adenósín-þrí-fosfat (ATP) er geymslustaður orku í líkamanum. Við aukna neyslu á kreatín-fosfati stuðlum við að því að hafa meira af ATP við áreynslu í stutt, snörp átök (1-10s). Því er talið að við getum bætt ákefð í stuttum, snörpum átökum ef við neytum fæðubótarefna sem innihalda kreatín. Niðurstöður rannsókna, sem nær eingöngu hafa verið gerðar á karlmönnum 18-40 ára, benda til þess að neyslan sé án óæskilegra hliðarverkana fyrir þann hóp. Upplýsingar varðandi aðra hópa liggja ekki fyrir og því ættu börn og unglingar ekki að neyta kreatíns.
C vítamín dregur úr skaða af völdum reykinga: best er fyrir líkamann ef fólk reykir ekki. C vítamín er andoxari og getur því dregið úr skaðlegum áhrifum, t.d. súrefnis, á frumuhimnur líkamans. Skaðleg áhrif vegna oxunar eru meiri hjá reykingamönnum vegna sígarettureyksins en hjá þeim sem ekki reykja. Það virðist sem neysla á C vítamíni, allt að 100mg á dag, geti komið að gagni við að draga úr oxunarskaðsemi reykinga. Þess ber þó að geta að skaðsemi reykinga er ekki eingöngu bundinn við þennan þátt.
Króm dregur úr sykurlöngun: króm er mikilvægur hlekkur í insúlínviðbrögðum líkamans en insúlín hefur, m.a. áhrif á magn sykurs í blóði. Hjá þeim sem eru með sykursýki geta insúlínviðbrögðin verið skert og því er talið að viðbótar króm geti hjálpað þeim við blóðsykurstjórnun. Aukin neysla á krómi er ekki talin geta stuðlað að betri blóðsykurstjórnun, og þar með sykurlöngun, hjá þeim sem eru með eðlilega stjórnun á blóðsykri (þ.e. ekki með sykursýki af neinni tegund).
D vítamín styrkir bein: D vítamín er fituleysanlegt vítamín sem margir vilja frekar kalla hormón-líkt efni vegna hlutverks þess í líkamanum. D- vítamín hefur m.a. áhrif á það hversu vel við nýtum kalk úr fæðunni. Kalk er mikilvægt í uppbyggingu og viðhaldi beina og því eru það gömul og ný sannindi að D vítamín og kalk eru nauðsynleg í hæfilegu magni til að móta og viðhalda sterkum beinum. Hreyfing eykur einnig styrk beina.
Kalíum er vöðvaslakandi: kalíum (K) gegnir mikilvægu hlutverki í starfssemi taugakerfis og vöðva. Kalíum hefur m.a. hlutverki að gegna í taugaboðum til vöðva um að slaka skuli á herptum vöðva. Styrk kalíum er mjög vel stjórnað í líkamanum og ef fólk er á annað borð ekki með neina sjúkdóma sem brengla kalíumjafnvægi líkamans, m.a. hjartavöðva, er alger óþarfi, og reyndar óæskilegt, að neyta mikils magns af kalíum sem fæðubótarefnis í þeirri trú að það hafi vöðvaslakandi áhrif
Koffín er fitubrennsluefni: mögulegt er að koffín auki flutning á fitu úr geymslu. Það sem er þó mun viðameira eru áhrif koffíns á miðtaugakerfið. Koffín hefur á óbeinan hátt örvandi áhrif á miðtaugakerfið, þ.m.t. heila. Við örvun miðtaugakerfis erum við líklegri til að hreyfa okkur og sú hreyfing er í raun ástæða þess að við brennum meiri orku og þar með meiri fitu frekar en bein fitubrennsluáhrif koffíns. Þess ber þó að geta að neikvæðar hliðarverkanir geta fylgt neyslu á koffínríkum matvælum og er ófrískum konum, konum með börn á brjósti, börnum og þeim sem eru viðkvæmir fyrir koffíni ráðlagt frá því að neyta koffíns í miklu magni.
E vítamín kemur í veg fyrir bólur: margir neyta E vítamíns í meira magni en ráðlagður dagskammtur segir til um í þeirri von að E vítamínið hafi verndandi áhrif gagnvart hjarta- og æðasjúkdómum. Rannsóknir upp á síðkastið benda þó til þess að þau verndandi áhrif hafi verið ofmetin undanfarin ár og áratugi. Varðandi bólumyndun þá er sá sjúkdómur vegna annarra þátta (m.a. stærri fitukirtlar vegna uppsafnaðrar húðfitu) og ekkert í vísindum næringarfræðinnar sem styður þá tilgátu að E vítamín geti komið í veg fyrir bólumyndun.
Mikilvægt er fyrir neytendur að gera sér grein fyrir því að margt af því sem er í sölu hér á landi, sem og annars staðar, er e.t.v. gagnslaust þó svo að neyslan skapi enga hættu sé farið að ráðleggingum varðandi magn. Sem neytendur verðum við að vera gagnrýnin á þær upplýsingar sem okkur eru veittar og spyrja hvaðan þessar upplýsingar koma. Ef greinilegt er að upplýsingarnar eru ekki studdar með vísindalegum gögnum og viðskiptasjónarmið ráða hvernig upplýsingarnar eru framsettar, þá er æskilegt að þessum upplýsingum sé tekið með varúð. Við val á fæðubótarefnum, fæðuauka, plöntuextröktum og öðrum slíkum efnum er oft gott að hafa eftirfarandi að leiðarljósi:
Ef auglýstir eiginleikar vöru eru of góðir til að vera sannir, þá eru þeir líklega ósannir!
Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.