En þetta þýðir líka að nú þarf að eyða minna í mat og aðrar nauðsynjar. Undanfarna mánuði hef ég reyndað talið mig frekar sparsama en ég þarf að verða enn hagkvæmari í eldamennskunni. Takmarkið er að eyða ekki meira en 25.000 kr á viku eða 100.000 kr á mánuði í mat (ath. inni í þessu er ekki matur eiginmannsins í vinnunni og ekki skólamaturinn sem stelpurnar fá í hádeginu í skólanum). En allt annað, morgunverður fyrir alla, nesti fyrir stelpurnar, hádegismatur fyrir mig (tek með mér nesti), hressing seinnipartinn (oftast hristingur) og svo kvöldmatur. Um helgar er að sjálfsögðu allir í mat allan daginn.
Þegar ég fór af stað með hversu mikið ég gæti lækkað matarinnkaupinn kíkti ég að gamni inn á síðu umboðsmans skuldara þar sem fram kemur að viðmið fyrir 5 manna fjölskyldu er 142.000 kr á mánuði. Þegar það er búið að draga frá mat eiginmannsins í vinnunni og skólamatinn fyrir stelpurnar eru eftir 110.000.- Það þýðir rúmlega 700 kr á mann á dag! Í janúar eyddum við t.d. 130.000 kr í mat svo þetta þýðir að það þurfi að eyða 7500 kr minna á viku til að fara niður í 100.000.
Kannski gæti þessi upphæð gæti verið mun lægri ef matseðillinn samanstæði af kjötfarsi og instant núðlum en inni í þessari upphæð er mikið af grænmeti, ávöxtum ofl. Ég vona að það þurfi ekki að færa miklar fórnir (þær verða pottþétt einhverjar). Ég vil geta gert amk. 1 ferskan drykk á dag og hafa alltaf ferskt grænmeti með kvöldmatnum og ýmislegt fleira hollt.
Takmarkið er að versla 2x í viku, á mánudögum fyrir max: 12.000 kr og á föstudögum fyrir max: 15.000 kr og hætta öllu búðarrápi í miðri viku eftir einum og einum hlut. Það er nefnilega svo furðulegt að þó maður ætli að kaupa 2 hluti þá eru þeir oftast 10 þegar maður labbar út úr búðinni.
Til þess að mér takist þetta takmark ætla ég að hafa þetta markmið opinbert og leyfa ykkur að fylgjast með. Það væri svo auðvitað ótrúlega gaman ef fleiri taka þátt í þessu með mér.
Ég tók saman matseðilinn fyrir fyrstu vikuna og birti hann í framhaldi af þessum pósti. Ég mun svo halda yfirlit yfir hvernig þetta gengur allt saman og deila með ykkur.
Gangi okkur öllum súper vel,
Sparnaðarkveðja,
Oddrún - heilsumamma