Mjólkurvörur innihalda ýmis orku- og næringarefni. Þar á meðal er mjólkursykurinn laktósi sem er tvísykra samsett úr einsykrunum glúkósa og galaktósa.
Til þess að geta melt laktósa þarf líkaminn að framleiða ákveðið ensím sem heitir Laktasi. Þegar þetta ensím er til staðar getur líkaminn klofið mjólkursykurinn niður í stakar einsykrur sem frásogast auðveldlega í þörmunum.
Einstaklingar með mjólkursykuróþol hafa ekki þetta ensím eða þá að virkni þess er skert. Það verður til þess að mjólkursykurinn klofnar ekki í sundur og getur því ekki frásogast. Vegna osmósuáhrifa dregst vatn að honum og þannig eykst vökvamagnið inni í þörmum. Mjólkursykurinn fer svo óklofinn áfram í ristil þar sem bakteríur í ristli fara að brjóta hann niður. Við þetta niðurbrot myndast gas og stuttar fitusýrukeðjur sem getur valdið óþægindum, loftgangi og niðurgangi.
Í laktósafríum mjólkurvörum er búið að fjarlægja laktósann eða kljúfa hann í einsykrur sem geta frásogast auðveldlega. Slíkar vörur eru því hentugur kostur fyrir þá aðila sem hafa mjólkursykuróþol. Næringarinnihald í mjólkurvörum með og án laktósa er mjög svipað. Helsti munurinn er að laktósafríar vörur innihalda örlítið minna magn af kolvetnum og þar af leiðandi orku, þar sem búið er að fjarlægja hluta mjólkursykursins. Þessi munur er þó ekki mikill.
Miðað við 100 grömm |
D-vítamínbætt Léttmjólk |
Laktósafrí Léttmjólk |
Orka |
45 hitaeiningar (kcal) |
39 hitaeiningar (kcal) |
Fita |
1,5 g |
1,5 g |
- Þar af mettaðar fitusýrur |
0,9 g |
0,9 g |
Kolvetni |
4,5 g |
2,9 g |
- Þar af ein og tvísykrur |
4,5 g |
2,9 g |
Prótein |
3,4 g |
3,4 g |
Salt |
0,1 g |
0,1 g |
B12-vítamín |
0,37 µg |
0,37 µg |
B2-vítamín |
0,16 µg |
0,16 µg |
D-vítamín |
1 µg |
1 µg |
Fosfór |
95 mg |
91 mg |
Joð |
11,2 µg |
11,2 µg |
Kalk |
114 mg |
110 mg |
*Upplýsingar fengnar af vef Mjólkursamsölunnar.
Tíðni mjólkursykuróþols er ansi mismunandi eftir þjóðerni. Hún er mun lægri hjá fólki af norrænum uppruna heldur en til dæmis hjá Asíu- og Afríkubúum. Þar er hún allt að 98%.
Ekki eru til nákvæmar tölur um tíðni mjólkursykuróþols á Íslandi, en líklegast er hún innan við 10%.
Ellen Alma Tryggvadóttir.
Höfundur er næringarfræðingur og starfar hjá Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi og Rannsóknastofu í næringarfræði við LSH og HÍ.