Réttfæðisárátta (orthorexia) er ekki viðurkennd geðröskun, en henni hefur verið lýst, m.a. á wikipediu. Sá sem þjáist af réttfæðisáráttu setur sér strangar reglur um hvað má borða og hvað ekki, og líður fyrir það félagslega og jafnvel heilsufarslega. Ótti þeirra sem þjást af réttfæðisáráttu er við óhollan eða mengaðan mat.
Fæðubótaráráttu hef ég hvergi séð lýst, en mig langar að gera tilraun til að lýsa henni hér. Hún minnir nokkuð á heilsukvíða. Sá sem þjáist af heilsukvíða verður hræddur eða jafnvel sannfærður um að vera með alvarlegan líkamlegan sjúkdóm. Hann fer oft til læknis og biður um rannsóknir til að hrekja eða staðfesta gruninn. Þegar enginn sjúkdómur finnst minnkar kvíðinn tímabundið. Til að losna endanlega við heilsukvíða þarf faglega aðstoð frá sálfræðingi eða öðrum fagaðila.
Sá sem þjáist af fæðubótaráráttu er ekki endilega hræddur um að vera með sjúkdóm, heldur óttast hann að fá sjúkdóm, og telur fæðubótarefni vera bestu leiðina til að tryggja sér góða heilsu í framtíðinni.
Sum fæðubótarefni geta vissulega tryggt okkur betri heilsu. Mælt er með því að Íslendingar og aðrir sem búa norðarlega á jörðinni taki lýsi eða annan D-vítamíngjafa, a.m.k. yfir veturinn. Ef járnskortur mælist í blóði okkar, er okkur ráðlagt að taka járn. Konur sem hyggja á barneignir ættu að gæta að því að fá nóg fólasín (fólat), annað hvort úr fæðu eða sem fæðubót. Fólk með mjólkuróþol þarf oft að taka kalsíum, og þeir sem ekki borða fisk eða taka lýsi ættu að taka ómega-3. Sumir taka fjölvítamín með steinefnum daglega, þó ég mæli frekar með fjölbreyttri og næringarríkri fæðu. Fæðubótarefni geta verið nauðsynleg fyrir suma, tímabundið eða jafnvel alla ævina.
Þeir sem þjást af fæðubótaráráttu eiga aftur á móti í erfiðleikum með að ganga framhjá heilsubúð eða lyfjaverslun, án þess að fara og skoða hillurnar með fæðubótarefnunum. Og yfirleitt koma þeir klyfjaðir út, eða a.m.k. búnir að kaupa sér eitt glas af nýjasta fæðubótarefninu á markaðnum. Auglýsingar, fréttir og viðtöl sem fjalla um fæðubótarefni vekja fyrst áhuga hjá þeim, en fljótlega breytist áhuginn í ótta um að skorta viðkomandi efni. Þeir finna fyrir óviðráðanlegri þörf til að kaupa efnið og taka inn.
Þetta byrjar á einu eða örfáum glösum, en þeim fer hratt fjölgandi. Fyrr en varir eru glösin orðin 20-30 talsins með mismunandi pillum, hylkjum, dufti, vökva eða úða, sem þeir telja sig þurfa að taka daglega eða jafnvel tvisvar, þrisvar á dag. Fæðubótarárátta er rándýr og tímafrek. Auk þess fylgja mörgum fæðubótarefnum vægar aukaverkanir eins og ógleði og meltingartruflanir. Það sem er þó miklu verra er að sama efnið getur verið í fleiri en einni tegund fæðubótarefna. Þess vegna er algengt að sá sem þjáist af fæðubótaráráttu taki allt of mikið magn, af einu eða fleiri efnum, án þess að ætla sér það. Það getur haft alvarlegar og jafnvel lífshættulegar aukaverkanir í för með sér.
Hjá sumum byrjar fæðubótaráráttan þegar þeir finna fyrir einhverjum kvilla eða óþægindum. Þeir ákveða þá að reyna að lækna kvillann sjálfir með inntöku fæðubótarefnis. Flestir myndu hætta að taka fæðubótarefni sem þeir finna að virkar ekki gegn kvillanum, en sá sem þjáist af fæðubótaráráttu þorir seint eða alls ekki að hætta að taka efnið. Hann óttast að einkennin versni ef hann hættir, eða að hann muni skorta efnið og í kjölfarið auka líkurnar á alvarlegum sjúkdómi. Í staðinn kaupir hann annað efni í viðbót og tekur það líka, og svona koll af kolli.
Sá sem þjáist af fæðubótaráráttu þarf faglega aðstoð næringarfræðings sem fer yfir mataræðið og metur hvort það sé raunveruleg þörf á inntöku einhverra fæðubótarefna. Einnig myndi næringarfræðingur meta hvort bæta megi mataræðið og sleppa fæðubótarefnum í staðinn. Flestir sem þjást af fæðubótaráráttu þurfa auk þess aðstoð frá sálfræðingi eða öðrum fagaðila til að vinna á óttanum við heilsubrest.
Fengið af vef heilraedi.is