Auk þess er fólkið sem auglýsir þau er oftast í mjög flottu formi samkvæmt stöðlum nútíma samfélags. Því má telja nokkuð eðlilegt að fæðubótarefni þyki spennandi og að fólk, sér í lagi yngri kynslóðin, prófi þau, bara til að reyna hvort þau virki og henti.
Það getur verið allt í lagi ef um örugg fæðubótarefni er að ræða en ef það endar með því að einstaklingurinn nærist að miklu leyti á dufti, drykkjum og pillum þá hefur skapast tiltekið ójafnvægi sem er ekki gott fyrir heilsuna þegar til lengri tíma er litið.
Það að setjast niður og borða máltíð með öðru fólki er líka hluti af menningu okkar, samveru við aðra og andlegri vellíðan. Skiptar skoðanir eru um nauðsyn og gildi fæðubótarefna en fagfólk er almennt sammála um að fjölbreytt og hollt mataræði sé besti og öruggasti kosturinn auk þess sem það að borða fæðuna í stað þess að drekka hana sé sú leið sem gefur hvað besta mettunartilfinningu sem hjálpar til við að stýra fæðuneyslu.
Þau fæðubótarefni sem koma upp í huga okkar þegar við heyrum orðið eiga sér ekki svo ýkja langa sögu þó svo að hún sé orðin nokkur. Hins vegar hefur lýsi verið notað í margar aldir og má segja að það sé ennþá eina fæðubótarefnið sem maðurinn virkilega þarfnast, sér í lagi þeir sem búa á norðurhveli jarðar.
Sértækar ráðleggingar um fæðubótarefni ná til ófrískra kvenna og snúa að fólasíni. Konur þurfa almennt að gæta þess að fá nægjanlegt járn úr fæðunni en stundum þarf að grípa til járn viðbótar ef illa gengur að ná upp járni í blóði til dæmis eftir barnsburð.
Fæðubótarefni voru sannarlega ekki á allra vörum þegar margar af okkar skærustu íþróttastjörnum uxu úr grasi og stigu sín fyrstu og mikilvægustu skref á leið sinni til afreksmennsku. Samt urðu draumar þeirra að veruleika og þeir urðu það sem þeir urðu vegna hæfileika og getu, vinnusemi, næringar og andlegra þátta, með góðum stuðningi og að lokum með smávegis af heppni í farteskinu. Þessir þættir eru þeir sem mestu máli skipta fyrir hvern íþróttamann. Eflaust myndu einhverjir segja að þessi og hinn hefði getað orðið mun betri með aukinni vitneskju og fræðslu um næringu, sem er rétt, og sjálfsagt hefðu sumir nært sig betur hefðu þeir haft aðgang að góðum upplýsingum.
Það er sjaldan hægt að alhæfa um nokkurn hlut og slíkt getur gilt um það að segja að enginn þurfi fæðubótarefni. Hins vegar eru stundum einhverjar forsendur sem gefa hið gagnstæða til kynna og sér í lagi þegar mannskepnan á í hlut þar sem við erum öll einstök með mismunandi þarfir á líkamlegum og andlegum sviðum. Í tengslum við fæðubótarefni þá eru ávallt einhverjir sem ekki eru að ná að uppfylla næringar- og orkuþörf sína með mat og drykk vegna lystarleysis vegna sjúkdóma, lyfja, vonleysis og depurðar. Einnig þekkist að einstaklingar, jafnt í íþróttum sem ekki, borði vísvitandi ekki nóg og í samræmi við orku- og næringarþörf, sá hópur hefur oft gagn af bætiefnum. Það er þó oft sagt að þeir sem taka fæðubótarefni ættu að þurfa minnst á þeim að halda þar sem þeir borða næringarríkan og hollan mat.
Með aukinni vitneskju og fræðslu um þá þætti sem skipta mestu máli fyrir íþróttir og afrek, til að mynda næringu, er hægt að koma mörgu til leiðar er snýr að réttri orku sem endist íþróttamanninum en jafnframt styður við vöxt og þroska þeirra yngri. Rétt fæða gerir svo margt fleira, færir til að mynda líkamanum næringarefni sem stuðla að orkuframleiðslu úr fæðunni, sem og að verja líkamann gegn álagi frá umhverfinu og æfingum.
Fæðubótarefni flokkast sem matvæli (sjá skilgreiningu á vef Matvælastofnunar http://www.mast.is/matvaeli/faedubotarefn) en eins og nafnið ber með sér er þeim ætlað að koma til viðbótar við fæðu sér næringunni ábótavant, en ekki ekki í stað hennar. Því þurfa innflytjendur að hlíta tilteknum lögum og reglum. Ég nota þó oft samlíkinguna um fæðubótarefni og snyrtivörur, það er að ef þú notar snyrtivörur og færð kláða eða útbrot getur þú þvegið þér og húðin jafnar sig. Hins vegar ef þú tekur inn fæðubótarefni þá er það komið inn í líkamann rétt eins og þú hefðir tekið lyf. Það getur verið slæmt fyrir heilsuna ef fæðubótarefnið inniheldur til dæmis hátt hlutfall af örvandi efni eða mjög stóran skammt af
steinefnum, til dæmis járni eða kalíum og fituleysanlegu vítamínunum. Einnig getur mikið magn af einu efni hamlað upptöku á öðru og þá skapast skortur og ójafnvægi. Hér á setningin „að meira sé ekki betra“ vel við. Af þessum sökum eru strangar reglur um fæðubótarefni. Auk þess þarf að upplýsa og fræða ef fram koma vörur sem ekki uppfylla strangar kröfur um gæði og hreinleika, því þótt ótrúlegt megi virðast þá greinast bæði óhreinindi, aðskotaefni og jafnvel ólögleg efnin í sumum fæðubótarefnum, efni sem hvorki eiga að vera þar né koma fram á umbúðum.
Hópurinn Upplýst hefur lagt sig fram um að fræða um meðferðir og vörur sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um slíkt og heldur hópurinn úti vefsíðunni www.upplyst.org.
Úr opinbera geiranum eru það þó Heilbrigðiseftirlitið og Matvælastofnun sem eiga að fylgjast með fæðubótarefnum og birta upplýsingar um það ef eitthvað er varhugavert við eitthvert þeirra. Ábyrgðin er þó í höndum neytenda sem þurfa að kynna sér innihald þess sem ætla að neyta og gera sér grein fyrir því að fæðubótarefni geta verið menguð. Íþróttafólk þarf að kynna sér vel þau fæðubótarefni sem þeir hyggjast taka inn og gæta þess að þau innihaldi ekki efni sem eru á bannlista Alþjóða lyfjaeftirlitsins (WADA). Þekkingarskortur getur þú verið mjög hamlandi þegar hingað er komið og oft eru innihaldslýsingar mjög torlesnar og ill skiljanlegar.
Grein þessi birtist fyrst í blaði SÍBS / sibs.is/greinar