Ég þjáðist eins og margar ungar konur af meltingartruflunum frá unglingsaldri. Um 1990 fór ég til meltingarsérfræðings og í ristilspeglun. Ekkert reyndist að ristli mínum. Þá fór ég til næringarráðgjafa. Hún sendi mig í mjólkursykursþolpróf sem var um leið almennt sykurþolspróf.
Ég var látin drekka vökva sem innihélt mjólkursykur á fastandi maga og fór svo í nokkrar blóðprufur næstu klukkutímana á eftir. Í blóði mínu mældist eðlileg hækkun á glúkósa og lækkun innan eðlilegs tímaramma. Það var því hægt að fullyrða að mjólkursykurinn hefði verið klofinn af ensíminu laktasa niður í glúkósa og galaktósa. Þessar sykrur hefðu verið frásogaðar yfir í blóð og hormónið insúlín hefði hjálpað glúkósanum að komast inn í frumur líkamans.
Niðurstaðan var því sú að ég væri hvorki með mjólkursykursóþol (laktósaóþol) né sykursýki. Næringarráðgjafinn sendi mig næst í magaspeglun. Ekkert reyndist vera athugavert við þarmavegg skeifugarnar þannig að niðurstaðan var sú að ég væri ekki með glútenofnæmi / glútenóþol / selíak.
Iðraólga (IBS)
En meltingartruflanirnar voru enn að hrjá mig. Læknirinn sagði mig vera með iðraólgu (irritable bowel syndrome, IBS). Þetta væri streitutengdur sjúkdómur og ég gæti reynt slökun. Að öðru leyti væri ekkert við henni að gera. Ég gat ekki með nokkru móti ráðið við streitu í lífi mínu á þessu skeiði.
Næringarráðgjafinn ráðlagði mér að prófa mig áfram með það hvaða matartegundir yllu einkennunum. Ég hlýddi hennar ráðum og komst að því að ég þoli mjólkurvörur mjög vel. Ávextir, brauð, baunir og kálmeti ollu mér aftur á móti vandræðum. Ég fann ég varð skárri ef ég sneiddi hjá þessum matvælum eða borðaði þau í litlu magni með öðru. Mér batnaði samt ekki alveg af iðraólgunni.
Nokkru seinna hóf ég nám í næringarfræði og fór í skiptinám til Kaupmannahafnar haustið 2000. Eitthvað var minnst á glænýjar rannsóknir á gerjanlegum sykrum sem gætu valdið meltingartruflunum. Það var samt ekki fyrr en uppúr 2010 sem ég fór að kynna mér þessar rannsóknir. Þá sá ég að auk matvælanna sem ég hafði talið orsakavalda iðraólgunnar inniheldur laukur mikið af gerjanlegum sykrum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því enda er laukur yfirleitt hluti af máltíð sem samanstendur af mörgum fæðutegundum svo erfitt er að greina áhrifin af honum einum og sér. Auk þess voru ekki allir ávextir jafn slæmir. Epli og perur valda frekar einkennum en appelsínur og bananar.
Gerjanlegar sykrur (FODMAP)
FODMAP er skammstöfun og stendur fyrir Fermentable Oligosaccharides, Disaccharides, Monosaccharides, and Polyols. Gerjanlegar sykrur er einfaldasta þýðingin. Þær er að finna í ýmsum kolvetnaríkum matvælum og geta valdið meltingartruflunum og iðraólgu. Gerjanlegar kallast þær vegna þess að gerlar í ristlinum geta brotið þær niður og nýtt sem fæðu fyrir sig. Sumar þessara sykra getur heilbrigður líkami brotið niður að hluta eða öllu leyti og frásogað (flutt úr meltingarvegi yfir í blóð) áður en gerlarnir komast í þær. Þetta á við um mjólkursykur og frúktósa. Þeir sem eru með mjólkursykursóþol skortir hins vegar ensím sem brýtur mjólkursykurinn niður og þeir sem eru með frúktósavanfrásog geta illa frásogað frúktósa. Aðrar gerjanlegar sykrur (frúktan, galaktan og fjölalkóhól) getur mannskepnan ekki nýtt. Þau eru í lauk, baunum, hveiti, rúgi, byggi og ýmsum grænmetistegundum. Hvað mig varðar var ég ekki með mjólkursykursóþol, en frúktósavanfrásog var klárlega hluti af ástæðu iðraólgunnar auk viðkvæmni fyrir öðrum gerjanlegum sykrum.
Gerjanlegar sykrur sem ekki eru frásogaðar úr smáþörmum yfir í blóð ferðast í staðinn langa og hlykkjótta leið eftir smáþörmunum og alla leið niður í ristilinn. Á meðan allar þessar agnir eru á ferð streymir vatn úr blóðinu inn í holrými þarmanna til að þynna blönduna. Þetta heitir osmósa, agnirnar draga vatn að sér. Við þetta þenjast þarmarnir út og gefa okkur þá tilfinningu að við séum uppþembd.
Þegar gerjanlegu sykrurnar eru komnar niður í ristilinn kætast gerlarnir og byrja að brjóta þær niður. Við það myndast gas og okkur finnst við enn þandari. Hluti gassins fer gegnum ristilvegginn inn í blóð og við öndum því út um lungun. Restin fer út um endaþarm með tilheyrandi hljóði og lykt.
Það kannast flestir við það að verða uppþembdir, t.d. af brauði og fá vindgang í kjölfar máltíða. Ef það gengur fljótt yfir og veldur ekki miklum óþægindum er vel hægt að sætta sig við það.
Ástæða iðraólgu
Iðraólga er líklega vanstilling eða ofurnæmni í meltingartaugakerfinu, þannig að taugarnar sem liggja utan á meltingarveginum bregðast óeðlilega við þaninu sem verður þegar gerjanlegu sykrurnar fara þar um. Meltingarvegurinn verður ýmist ofvirkur, ýtir innihaldi sínu of hratt niður í átt að endaþarmi, eða vanvirkur, þarmahreyfingar minnka eða stöðvast um tíma. Sá sem þjáist af iðraólgu fær meltingartruflanir sem lýsa sér með ristilkrömpum, miklum vindgangi og óreglulegum hægðum, ýmist niðurgangi eða hægðatregðu.
Árið 2009 kláraði ég námið og ákvað að vinna sjálfstætt. Álag minnkaði verulega í mínu lífi. Auk þess var ég farin að stunda hugleiðslu og jóga. Einkenni iðraólgunnar minnkuðu að sama skapi. Ég get í dag borðað gerjanlegar sykrur án vandkvæða nema magnið sé þeim mun meira eða ég stödd í streitufullum aðstæðum. Mér virðist hafa tekist að endurstilla eða róa meltingartaugakerfið. En lág-FODMAP fæði hefði hjálpað mér á sínum tíma og það hefur reynst mörgum vel.
Vandað til verka
Fyrir þá sem þjást af iðraólgu skiptir miklu máli hvað borðað er í staðinn fyrir þær fæðutegundir sem innihalda FODMAP svo fæðið verði nógu fjölbreytt og næringarríkt. Annars getur vítamín- og steinefnaskortur skapast. Auk þess þurfa fæstir að forðast allar gerðir FODMAP nema í nokkrar vikur. Þá tekur við ferli þar sem þeim er bætt aftur við fæðið einni og einni í einu og fylgst með viðbrögðunum.
Þeir sem vilja fá nákvæman lista yfir fæðutegundir sem innihalda FODMAP og hvaða fæðutegundir best er að borða í staðinn geta pantað viðtal hjá mér í tölvupósti eða síma. Sömuleiðis geta þeir sem þurfa aðstoð við að bæta einni og einni gerð FODMAP aftur inn í fæðið fengið hjá mér upplýsingar og aðstoð.
Anna Ragna Magnúsardóttir, næringarfræðingur & doktor í heilbrigðisvísindum
Höfundur rekur heilsuráðgjöfina Heilræði. www.heilraedi.is; heilraedi.blogspot.com