Jæja, það er búið að vera eitthvað lítið um uppskriftir hér undanfarið. Húsmóðirinn á heimilinu hefur nú samt ekki setið auðum höndum. Ákvað að deila 2 skemmtilegum hlutum með ykkur sem ég hef verið að brasa við undanfarið.
Í fyrsta lagi dreif ég mig í hausthreinsun hjá Margréti Leifs og Lindu Péturs (ekki í Baðhúsinu heldur frá Ameríku) ;) Þær eru kunningjakonur mínar úr Heilsumarkþjálfanáminu. Ég var heillengi að velta því fyrir mér hvort ég ætti að láta slag standa og drífa mig því mér fannst að ég ætti nú að kunna þetta allt saman ;) En það er ekki alltaf sem það fer saman að kunna og gera. Þannig hef ég oft áður farið út fyrir þægindahringinn og sleppt hinu og þessu í mislangan tíma, t.d. tekið kaffilaus tímabil, sleppt öllum mjólkurvörum, tekið glúteinlausar vikur, sykurlaust tímabil en hinsvegar hef ég aldrei hætt ÖLLU á sama tíma og tekið þannig alvöru hreinsun. Þetta var skemmtilega uppbyggt hjá þeim stöllum, fyrirlestur í byrjun og fyrirlestur í lokin auk uppskriftaheftis, heilmikið af upplýsingum og lokuð facebook grúppa fyrir alla þáttakakendur til að skiptast á skoðunum, uppskriftum og hvatningu. Ef þið kíkji inn á Fésbókarsíðu heilsumömmunar er einmitt 1 albúm sem heitir "Hausthreinsun" og þar er hægt að sjá sýnishorn af þessum 10 dögum. Sjá HÉR. Ég á ennþá eftir að deila með ykkur eitthvað af frábærum nýjum uppskriftum sem ég uppgvötaði á þessum tíma.
Ég get ekki annað en mælt heilshugar með því að gera þetta og ég get lofað ykkur því að þetta mun ég halda áfram að gera allavegna 2x á ári hér eftir. Það er eitthvað magnað sem gerist þegar líkamanum er gefið svona frí, ekkert kaffi, engin sykur, ekkert glútein og í staðinn er dælt í hann söfum, salati, baunaréttum, grænmetisréttum, jurtatei auk þess að reyna slaka meira á, fara fyrr að sofa og hugsa aðeins betur um sig en dags daglega því alltof oft setur maður sjálfan sig síðastan í forgangsröðina, já jafnvel á eftir þvottinum og uppvaskinu ! Það er hægt að líkja þessu við það þegar maður er á fullu að taka til en það eru 3 börn að drasla til á meðan, ef allir hætta að drasla til á meðan tekið er til endar það að á því að íbúðin verður skínandi. Svo það er eitthvað þannig, kerfið hvílist og nær því að "taka til" hér og þar í kroppnum. Mér leið hreinlega eins og það hefði einhver ýtt á "reset" takkann á mér. Enda létu áhrifin ekki á sér standa, 3 kg fuku, mittið varð 5 cm grennra, húðin varð eins og á ungabarni og heilinn bljómstraði, já hugmyndirnar streymdu ásamt jákvæðni og meiri gleði. Orkan óx og krafturinn varð gríðarlegur svo að hreinsunin færðist yfir eldhússkápa og skúffur, forstofuskápa, þvottahúsið, fataskápa ofl.
Ég lærði heilmikið á þessum tíma, ætli stærsta áskorunin hafi ekki verið sú að vera með grænmetisfæði í hádegismat og kvöldmat, 10 daga samfleitt. Þegar húsmóðir eins og ég er vön að hafa fisk ca. 1 x í viku, ommilettu ca. 1 x í viku, kjöt ca. 1-2 x í viku, er það t.d. heilmikil áskorun að elda baunir 4 x í viku í stað 1 x venjulega. ( Það var ekkert skilyrði að elda baunir svo oft en ég fann að ég þurfti þess til að verða ekki þreytt)
Fjölskyldan fór ekki með í prógrammið en auðvitað voru þau í raun með án þess að þau gerðu sér grein fyrir því, vegna þes að þau voru öll að borða meira af söfum, hristingum og grænmeti en venjulega.
Eftir svona hreinsun er mælt með því að taka inn hverja fæðutegund inn í 2 daga og taka svo aftur hreinsunardag áður en næsta fæðutegund er prófuð, þannig er hægt að kanna hvernig líkaminn bregst við og margir sem uppgvöta með þeirri aðferð að þeir þoli alls ekki sumar tegundir, gæti verið mjólkurvörur, soja, maís, hveiti, egg eða eitthvað annað.
Ég fór þó ekki eftir því heldur skellti mér í utanlandsferð daginn eftir að hreinsunarprógramminu lauk og var því fyrstu 3 dagana búin að innbyrða bæði kjöt og kjúkling, brauð, hvítvín, rauðvín og súkkulaði ;) Ég geri þettta bara mjög samviskusamlega næst þegar ég fer í gegnum prógrammið ;)
En utanlandsferðin er einmitt hitt sem mig langaði til að deila með ykkur :) Þetta var nefnilega engin venjuleg utanlandsferð heldur sú fyrsta eftir 7 ára hlé ! Já, einmitt, 7 ár !!!! Veit að mörg ykkar eru oft í útlöndum og þykir því kannski ekki merkilegt að skreppa svona en eftir svona langan tíma var þetta bókstaflega GEGGJAÐ :)
Á árunum 2003 -2007 fórum við hjónin í 7 utanlandsferðir (samtals 100 dagar) en svo tók við tímabil sem einkenndist af barneignum og blankheitum svo þetta var sérstaklega gaman að endurnýja kynnin við útlönd ;) Þetta var bara örlítið skrepp út á fimmtudegi og heim á sunnudegi, ég fór ein í húsmæðraorlof að heimsækja virkilega góða vinkonu sem býr úti í Englandi. Það var gaman að versla á öðru verðlagi en maður er vanur (sorry verslunareigendur ef þið lesið þetta) sérstaklega þegar maður er með 5 manna fjölskyldu er þetta fljótt að borga sig.
Nú er ég búin að rifja upp hvað það er hrikalega skemmtilegt að fara til útlanda svo það er auðvitað búið að kaupa farmiða fyrir alla fjölskylduna til útlanda næsta sumar, bóka hótel og nú hef ég 10 mánuði til að skipuleggja og hlakka til :) Matseðill vertarins verður því að vera einstaklega ódýr og er sú áskorun hafin, spurningin er hversu ódýrt getur 5 manna fjölskylda borðað án þess að gefa hollustuna eftir ? Það verður spennandi.
Góða helgi frá heilsumömmunni