Flest viljum við stunda holla lífshætti og mörgum okkar gengur bara ágætlega við það. Varðandi holla lífshætti skipar mataræðið mikilvægasta sessinn og svo kemur hreyfingin þar strax á eftir.
Flest viljum við stunda holla lífshætti og mörgum okkar gengur bara ágætlega við það.
Varðandi holla lífshætti skipar mataræðið mikilvægasta sessinn og svo kemur hreyfingin þar strax á eftir.
En það er oft hægara sagt en gert að borða bara hollan mat. Við lifum nefnilega flest ansi hratt og því freistumst við oft til þess að fá okkur skyndifæði sem í fæstum tilfellum er hollt.
Í verslunum er mikið til af tilbúnum réttum sem fljótlegt og auðvelt er að setja í örbylgjuna eða ofninn og því auðvelt að freistast þegar hugmyndaflugið er lítið og tíminn knappur. En í flestum tilfellum er mikið notað af aukaefnum, salti og sykri í þessa tilbúnu rétti og er því ekki besta valið.
Einnig er nú ekki skortur á skyndibitastöðum á landinu sem fæstir geta nú stært sig af hollu fæði.
Ef við ætlum að breyta matarvenjum okkar til hins betra þarf skipulagið að vera mikið.
Ráðlagt er að fá sér eitthvað að borða 5 sinnum á dag og láta helst ekki líða meira en 3 klst á milli máltíða. 3 aðalmáltíðir (kl 8, 12 og 18-19) og 2 millibita (kl 10 og 15). Mikilvægast er að borða morgunmat áður en farið er út á morgnana því það er nauðsynlegt að setja líkamann í gang áður er lagt er af stað í daginn. Ef það er gert verður hitaeiningabrennslan meiri yfir daginn heldur en ef morgunmat er sleppt.
Ef maður gleymir svo millibitanum endar maður oft á að missa ofan í sig súkkulaðistykki eða eitthvað annað óhollt og við vitum að það er ekki besta valið.
Því er best að skipuleggja daginn fyrirfram. Ef erfitt er að komast í búð yfir daginn til að passa upp á fá sér eitthvað í kringum kl 10 og 15 er best að taka með sér nesti að heiman. Ávextir og grænmeti er góður kostur í millibitann. Það er hitaeiningasnauður og næringarríkur matur og auðveldar okkur að ná takmarkinu “
5 á dag”
Aðalmáltíðirnar þarfnast einnig skipulags. Skipulagðu vikuna fyrirfram, búðu til matseðil og verslaðu samkvæmt því. Bæði er það þægilegra og hagstæðara fyrir heimilisbókhaldið.
Mundu líka að fara ekki svangur/svöng að versla því þá detta freistingarnar mun frekar í körfuna. Með því að búa til matseðil fyrir vikuna eru líka auknar líkur á að hollustan verði í fyrirrúmi. Marga rétti er hægt að elda í meira magni og frysta. Frystivaran sem þú býrð til er mun líklegri til að vera hollari en frystivaran í versluninni þar sem þú setur ekki rotvarnarefni og önnur aukaefni í þína vöru. Það er líka miklu betra að vita hvað þú ert að láta ofan í þig.
Þessi skipulagning er erfiðust fyrst en svo þegar maður er komin upp á lag með hana er þetta mun þægilegra fyrirkomulag og hollustan í fæðunni verður meiri.
Höf;
Alma María Rögnvaldsdóttir
Hjúkrunarfræðingur