Árið 2004 hófst umræða um nýjar skiljanlegri næringargildismerkingar í Bretlandi, svokallaðar umferðarljósamerkingar, „traffic light label“, sem settar eru framan á umbúðir. Velferðarnefnd breska þingsins lagði til að málið yrði skoðað sem hluti af rannsókn á aukinni tíðni offitu og hugsanlegum tengslum við mataræði. Árið 2006 kynnti breska matvælastofnunin (FSA) hina nýju merkingu formlega til sögunnar. Um er að ræða einfaldar og skiljanlegar upplýsingar um hlutfall sykurs, salts, fitu og mettaðrar fitu í matvörum og er merkingin sett framan á umbúðir matvæla. Gefnir eru litir fyrir hvern þátt sem einkunnir fyrir næringargildi þeirra og vísa litirnir til umferðarljósa. Grænt þýðir að borða megi nægju sína af tiltekinni vöru, gult að borða skuli þá vöru í hófi og rautt að borða eigi lítið af viðkomandi vöru.
Valkvæð merking
Merkingin er valfrjáls og strax í upphafi ákváðu nokkrir framleiðendur og verslunarkeðjur að setja hana á vörur sínar, þeir voru þó ekki margir. Næstu árin var deilt nokkuð um framkvæmdina. Sumir framleiðendur notuðu „guideline daily amount (GDA)“ merkingar (áætluð dagsþörf), aðrir umferðarljós og sumir samsetningu þessara tveggja. Breska matvælastofnunin gerði óháða úttekt árið 2009 á því hvaða merking höfðaði best til neytenda og var niðurstaðan sú að umferðarljós í bland við GDA (sem nú kallast reyndar RI eða Reference Intakes) væri skiljanlegust. Fjöldi hitaeininga í skammti kemur einnig fram. Afstaða fyrirtækjanna breyttist ekki mikið fyrst um sinn en bresku neytendasamtökin Which? ásamt lýðheilsusamtökum (t.d. the British Heart Foundation) héldu baráttunni áfram. Þegar verið var að vinna að nýrri löggjöf Evrópusambandsins um merkingar á matvælum var krafa evrópskra neytendasamtakanna (BEUC) að skylt yrði að setja umferðaljósmerkingu framan á umbúðir. Af því varð ekki. Það má nefna að í norrænni könnun sem gerð var árið 2006 voru neytendur spurðir að því hvernig merking þeim hugnaðist best og voru 1.000 Íslendingar meðal svarenda. Niðurstaðan var sú að yfirgnæfandi meiri hluti kaus myndir og merki í stað prentaðs texta.
Merkingin samræmd
En aftur að Bretlandi. Þegar stjórnarskipti urðu þar í landi árið 2010 voru málefni sem snúa að matvælamerkingum færð til heilbrigðisráðuneytisins og var heilbrigðisráðherrann jákvæður í garð hinnar nýju merkingar. Stjórnvöld ákváðu að fara í samráðsferli árið 2012 með öllum hagsmunaaðilum. Tesco, sem er einn af ráðandi smásölum á matvörumarkaði, gerði síðan rannsókn á afstöðu neytenda til merkinganna og tilkynnti í framhaldinu að fyrirtækið myndi nota merkinguna (þar sem GDA og umferðarljós eru sýnd saman). Þessi stefnubreyting hjá Tesco hafði áhrif á aðra smásala sem stukku á lestina. Þar sem framleiðendur höfðu notast við ýmsar útfærslur var unnið að því að samræma merkinguna og hafði heilbrigðisráðuneytið yfirumsjón með því verki. Niðurstöður úr rannsókn FSA frá 2009, sem vísað er til hér að ofan, voru hafðar til hliðsjónar.
Hér má sjá dæmi um það útlit sem sátt náðist um. Breskt stjórnvöld hafa gefið út leiðbeiningar um notkun merkingarinnar, sjá HÉR.
Hin nýja útfærsla var opinberlega kynnt í júní 2013 og við það tilefni kynntu Nestlé, Pepsico, Mars and Premier Foods að þau mundu taka þátt í verkefninu og þótti það stórt skref í rétta átt. Í dag er talið að um 60% matvælaframleiðenda í Bretlandi noti merkinguna.
Sjá nánar um málið á heimasíðu breska heilbrigðisráðuneytisins https://www.gov.uk/government/news/final-design-of-consistent-nutritional-labelling-system-given-green-light
Upplýsingar oft villandi
Það er ekki að ástæðulausu að yfirvöld víða um heim leiti nú leiða til að auðvelda neytendum að velja hollan mat. Skiljanlegar og aðgengilegar upplýsingar um næringargildi matvæla eru afar mikilvægar fyrir neytendur og auðvelda þeim að taka upplýsta ákvörðun. Þær merkingar sem er skylt að setja á umbúðir matvæla um næringargildi geta verið illskiljanlegar fyrir marga. Þá eru upplýsingarnar oft af skornum skammti auk þess sem oft eru beinlínis villandi fullyrðingar um hollustu matvæla á umbúðum. Jákvæðum kostum matvæla er óspart haldið á lofti en dýpra er á upplýsingar sem snúa að magni viðbætts sykurs og salts svo að dæmi sé tekið. Það eru þó upplýsingar sem skipta neytendur jafnvel meira máli.
Stjórnvöld bera ábyrgð
Nú geri ég alls ekki lítið úr því að neytendur taki ábyrgð á eigin heilsu og séu meðvitaðir um næringargildi og innihald þeirra matvæla sem þeir neyta. En ef fólk á að taka ábyrgð á eigin mataræði þá er grundvallaratriði að upplýsingarnar séu skiljanlegar. Ég þekki t.d. sárafáa sem kunna að lesa saltmagn úr þeim upplýsingum sem skylt er að setja á umbúðir í dag. Og jafnvel þótt sú framför verði með nýrri löggjöf ESB um merkingar á matvæli að skylt verði að merkja magn salts en ekki natríum þá efast ég um að fólk geri sér almennt grein fyrir því hvort 4 g af salti fyrir hver 100 g í ákveðinni vöru sé mikið magn eða lítið. Ef fólk sér utan á umbúðum að salt fær rautt þá eru það skýr skilaboð um að saltinnhald vörunnar er hátt. Bretar hafa komist að þeirri niðurstöðu að neytendur eigi rétt á einföldum og skiljanlegum upplýsingum. Það geti bætt lýðheilsu og sparað útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Það er reyndar líklegt að það sé ekki af einskærri umhyggju fyrir neytendum sem farið er í aðgerðir sem þessar heldur sé það af illri nauðsyn. Útgjöld vegna heilbrigðismála aukast með hverju ári og þar vega svokallaðir lífstílssjúkdómar þungt. Þ.e. sjúkdómar sem hægt væri að fyrirbyggja með breyttri hegðun þar á meðal bættu mataræði og aukinni hreyfingu.
Ekki eftir neinu að bíða
Það eru ekki bara Bretar sem hafa stigið stór skref. Ástralir eru að innleiða sambærilegt kerfi og það kæmi mér ekki á óvart að einhvern tíma í framtíðinni verði hreinlega skylt að merkja matvæli þannig að allir þjóðfélagshópar skilji þær. Ég held að Íslendingar eigi þó ekki að bíða eftir slíkri tilskipun frá Evrópusambandinu heldur vinda sér í að innleiða þá merkingu sem Bretar nota. Þar sem merkingin er valkvæð þá er mikilvægt að framleiðendur séu jákvæðir og sjái sér hag í að vera með. Einnig skiptir afstaða stjórnvalda miklu máli en ég á erfitt með að sjá af hverju stjórnvöld ættu ekki að vilja auðvelda neytendum að velja hollan mat. Það er beinlínis skylda þeirra að tryggja rétt fólks til að geta tekið upplýsta ákvörðun. Ljóst er að merkingar á matvæli munu ekki uppræta offituvandamál eða aðra tengda lífstílssjúkdóma. Skiljanlegar næringargildismerkingar á matvæli skipta hins vegar miklu máli ef markmiðið er að beina fólki í átt að neyslu hollari matvæla og auka lýðheilsu. Ábyrgð stjórnvalda og framleiðenda er þar mikil.
Þingmenn úr öllum þingflokkum lögðu fram tillögu í janúar 2014 þess efnis að stjórnvöld fari að dæmi Breta og taki upp skiljanlega næringargildismerkingu framan á umbúðir.
Brynhildur Pétursdóttir