Fæðuöryggi er eitt þessara hugtaka sem oft heyrist í umræðunni, án þess að fyllilega liggi fyrir hvað það þýðir. Í raun virðist hugtakið hafa ólíkt inntak eftir því hver beitir því. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir stuttri sögu hugtaksins fæðuöryggis, hvernig inntak þess hefur þróast og hvernig það tengist framtíðarhorfum mannkyns og hugmyndum um sjálfbæra þróun.
Maðurinn er háður stöðugum aðgangi að matvælum til að tryggja tilvist sína. Allur fyrirsjáanleiki í tilvist okkar er undir því kominn að við höfum tryggan aðgang að mat. Það kemur því ekki á óvart að umræða um þessa grunnforsendu tilvistar sé ævaforn. Hugtakið marvælaöryggi (e. food security) er þrátt fyrir þetta til þess að gera nýtt af nálinni. Það var fyrst skilgreint á matvælaráðstefnu matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna 1974. Inntak hugtaksins í upphafi snérist um aðgang þjóða að mat til að tryggja sig gegn vaxandi eftirspurn og náttúrulegum sveiflum í framboði. Þessi skilgreining er nátengd hugtökum um þjóðaröryggi og hugmyndum um að þjóðir geti verið sjálfum sér nógar við erfiðar aðstæður, ekki undir aðra komnar um grundvallarþarfir þegna sinna. Þessa túlkun hugtaksins má enn sjá í umfjöllun um fæðuöryggi. Á alþjóðavettvangi hefur inntak fæðuöryggis hins vegar þróast mjög í þá átt að vísa til einstaklingsins og möguleika hans til að tryggja sér aðgang að matvælum. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) telur fæðuöryggi vera náð þegar allir hafa alltaf aðgang að nægilegum, öruggum og næringarríkum matvælum til að mæta næringarþörfum sínum. Þessi túlkun tengist mun fremur hugmyndum um mannréttindi en hugmyndum um þjóðaröryggi. Þróun hugtaksins endurspeglar þróun hagkerfis heimsins í átt til heimsvæðingar (e. globalization) og aukinnar áherslu á einstaklinginn. Í sjálfu sér er ekkert nema gott um þá þróun að segja. Heimsvæðingin gerir þjóðir heims háðar hver annarri um aðföng og vörur til framleiðslu. Tökum matvælaútflytjandann Ísland sem dæmi. Ætla mætti að fæðuöryggi, í eldri skilningi hugtaksins, væri vel tryggt hér á landi. Ísland flytur út á aðra milljón tonna af fiskafurðum á hverju ári og framleiðir þar að auki landbúnaðarafurðir. Fæðuöryggi er þó aðeins að litlu leyti tryggt í raun. Íslensk matvælaframleiðsla er að verulegu leyti háð innfluttum aðföngum til að viðhalda framleiðslu sinni, t.d. hvað varðar olíu, áburð og tækjabúnað svo nokkur dæmi séu tekin. Hagræðið sem sérhæfing færir í för með sér er verulegt og gríðarlegur kostnaður er því samfara að allar þjóðir tryggi algerlaga óháða innlenda matvælaframleiðslu. Þannig geta fáar þjóðir í raun státað af fæðuöryggi af þeirri gerð sem upphaflega var rætt um. Miklu mun meira aðkallandi og raunhæfara er að beina sjónum okkar að fæðuöryggi einstaklinga, eins og FAO hefur gert.
Hér er þó ástæða til að staldra við. Þó svo færa megi rök fyrir því að hugmyndin um fæðuöryggi þjóða sé óhagkvæm og í sumum tilvikum óraunhæf, er ljóst að í henni felst áminning um að geta okkar til að uppfylla fæðuöryggi einstaklinga er ekki ótakmörkuð. Matvælaframleiðslukerfi heimsins eru sett takmörk af lífkerfinu og þeirri tækni sem við höfum aðgang að. Jarðarbúar eru í dag um 7 milljarðar og mun að öllum líkindum halda áfram að fjölga fram á miðja þessa öld. Spár um mannfjölda gera þannig ráð fyrir að mannkynið muni telja um 9 milljarða um miðja þessa öld. Jákvæð efnahagsþróun í heiminum hefur í för með sér að stöðugt fleiri jarðarbúar hafa ráð á að leyfa sér neyslu á fæðu úr dýraríkinu. Þannig áætlar FAO að frumframleiðsla matvæla þurfi að aukast um nær 80% til að fullnægja neysluþörfum fram á miðja þessa öld. Á sama tíma er ljóst er að núverandi matvælaframleiðslukerfi heimsins byggir á ósjálfbærum framleiðsluaðferðum. Mat á vistspori núverandi matvælaframleiðslukerfis heimsins er að um 1,5 jörð þurfi til að standa undir henni. Óþarfi er að tíunda hvaða afleiðingar það mundi hafa að auka frumframleiðslu matvæla um 80% með óbreyttum framleiðsluaðferðum. Jörðin mun einfaldlega ekki standa undir því nema í skamman tíma. Þær lykilauðlindir landbúnaðarins sem eru þegar undir verulegu álagi er t.d. jarðvegur, vatn, og fosfór, svo ekki séu nefndar orkuauðlindir sem knýja allt kerfið og tryggja framleiðslu á öðrum áburðarefnum. Á sama tíma stendur mannkynið frammi fyrir umhverfisvandamálum sem munu að öllum líkindum gera matvælaframleiðslukerfinu erfiðara fyrir að sinna hlutverki sínu, s.s. loftslagbreytingum. Það er samdóma álit sérfræðinga að heildaráhrif loftslagbreytinga séu neikvæð, þó finna megi staðbundin jákvæð áhrif. Stækkun óræktanlegra svæða og auknar öfgar í veðurfari munu að öllum líkindum draga úr frumframleiðslugetu jarðarinnar á matvælum. Við stöndum því frammi fyrir nýrri skilgreiningu fæðuöryggis – því að tryggja öllu mannkyni nægilega sjálfbæra framleiðslu matvæla. Allt tal um fæðuöryggi einstaklinga og þjóða er hjóm eitt hjá þessari miklu áskorun tuttugustu og fyrstu aldar.
Þó svo verkefnið sé ærið eru tækifæri til aðgerða veruleg. Skilningur okkar á umhverfisvandamálum hefur aldrei verið meiri. Sama má segja um tæknilausnir. Matvælaframleiðsla heimsins er þegar í dag umtalsvert meiri en sem nemur matvælaþörf. Mikið magn matvæla fer nú til annarrar nýtingar en til manneldis. Fleiri þjást nú af offitu en af vannæringu. Hægt væri að tryggja fæðuöryggi allra með núverandi framleiðslu. Vandamálin snúast um hvernig við stuðlum að sjálfbærum framleiðsluaðferðum og aukinni hagsæld þess hluta mannkyns sem býr við sárustu fátæktina. Hluti vandans er að margar af þeim auðlindum sem landbúnaðurinn nýtir með ágengum hætti í dag eru ekki verðlagðar sem skyldi. Þetta á t.d. við um jarðveg og vatn. Þessi aðföng eru þá heldur ekki hluti af kostnaði matvælaframleiðslunnar og endurspeglast ekki í verði matvæla. Neytendum standa því til boða matvæli á óraunhæfu verði – sem ekki endurspeglar allan framleiðslukostnaðinn. Val neytandans um neyslu og nýtingu endurspeglar þá heldur ekki þennan kostnað. Þessu þarf að breyta, t.d. með inngripi stjórnvalda hvað varðar reglur um framleiðsluhætti, beitingu grænna skatta eða öðrum þeim aðferðum sem þvinga matvælaframleiðsluna til að taka tillit til umhverfisskaða og umhverfiskostnaðar. Stórauka þarf rannsóknir á sjálfbærum framleiðsluaðferðum í landbúnaði , bæði hvað varðar líf- og vistfræði sem og tæknilausnir. Mikilvægt er að vinna á fordómum í garð tæknilausna sem gætu falið í sér hluta af lausn þessa vanda, s.s. erfðatækninnar. Einnig er þörf á umræðu og hugarfarsbreytingu meðal neytenda. Bæta þarf sjálfbærum framleiðsluaðferðum við sem einum af lykileiginleikum matvæla, á pari við eiginleika eins og bragðgæði og hollustu.
Fæðuöryggi verður ekki tryggt til lengri tíma nema að mannkyninu takist að þróa matvælaframleiðslu heimsins í átt til sjálfbærni. Það krefst samstillts átaks stjórnvalda, fræðasamfélags og neytenda. Vandamálin eru fjölmörg en engin þeirra eru óyfirstíganleg. Tíminn vinnur hins vegar ekki með okkur. Mikilvægt er setja þetta mikilvæga málefni á dagskrá og hefjast handa við það tröllaukna verkefni að tryggja fæðuöryggi til handa mankyni.
Grein eftir Daða Má Kristófersson, auðlindahagfræðing við Háskóla Íslands