"Áttu uppskriftir af því hvernig maður notar spírur ?" er spurning sem ég oft spurð að. Spírur eru ekki eldaðar nema kannski baunir og ertur sem hægt er að hita fyrir neyslu. Spírur eru einsog salat, þeirra er neytt ferskar.
Það góða við þær eru að þær passa nánast með öllum mat. Með fiski eru allar spírur mjög góðar, með reyktum laxi og reyktu kjöti eru radísuspírur meiriháttar góðar, spíraðarbaunir, ertur og linsur ( próteinblandan) eru mjög góðar með hrísgrjónum, kúskús eða kínóa eða með aðalréttum í staðinn fyrir kartöflur og/eða útí salatið.
Þá er hægt að nota allar tegundir af spírum í samlokuna, í salatið, morgundrykkinn eða með hamborgara og pylsum.
Með því að neyta spíra þá fáum við mikilvæga næringu og jurtaefni sem eru frumuverjandi og bæta ónæmiskerfi okkar fyrir ýmsum sjúkdómum. Margar rannsóknir hafa t.d. sýnt að spírur geyma næringar- og jurtaefni sem geta komið í veg fyrir krabbamein og hjartasjúkdóma sem eru ein algengasta dánarorsök á Vesturlöndum.
T.d. eru radísuspírur ríkar af andoxunarefnum A og C, auk fólinsýru B9. Jafnframt er að finna í radísuspírum vítamínin B1, B2, B3 B6 og K. Radísuspírur eru auðugar af fosfór, kalsíum, magnesíum, natríum, járni og sinki, auk blaðgrænu (chlorophyll) sem hjálpa til við að flytja súrefni til frumanna og er mjög öflug við afeitrun líkamans. Þá innihalda radísuspírur mikilvæg ensím (mýrósínasa) sem hjálpa til við niðurbrot og upptöku næringarefna.
Gaman væri að heyra frá ykkur hvernig þið neytið spíra og eða myndum af því hvernig þið notið spírur.
Ég er nokkuð sannfærð um að með aukinni neyslu á lifandi og spíruðu fæði á kostnað m.a. sykurbættra, litar-og rotvarinna matvæla værum við heilsuhraustari og laus við marga þá alvarlegu sjúkdóma sem hrjá okkur í dag.
Fengið af Facebook síðu Ecospira – sjá HÉR.