Sem næringarfræðingur þá tel ég mig hafa ágæta vitneskju um það hvað sé hollur matur. Ég er mikið spurður um það hvort t.d brauð, eða mjólkurvörur séu hollar matvörur? Það er bara undanfarin ár sem þessar matvörur ásamt öðrum sem áður voru taldar hollar hafa komist á “óholla listann” hjá mörgum og þá sérstaklega fólki sem stundar mikla líkamsrækt og vill ná top formi.
Það hefur orðið mikil vakning í umræðu og áhuga á hollum mat undanfarin ár. Það er virkilega jákvætt en líka mjög ruglingslegt því það koma sífellt misvísandi skilaboð um hollustu matarins. Það væri hægt að lesa sér til um ”hollustu” matar allan daginn, allan ársins hring með því að ”gúggla” atriði tengdt ”hollri” næringu.
Skoðum t.d mjólkina. Næringarlega séð er hún rík af próteinum, járni, kalki, B-vítamínum og joði. Allt mjög mikilvæg næringarefni sem við þurfum daglega. Það er raun leitun að jafn næringarríkri matvöru. Sem næringarfræðingur get ég því ekki annað en litið á þessa matvöru sem holla. Þó ætti fólk með laktósaóþol ( það brýtur ekki niður mjólkursykurinn; laktósa) að takmarka mjólkurneysluna.
Laktósaóþol er ekki algengt í Norður-Evrópu en er mjög algengt meðal Asíubúa. En þvímiður er svarið bara ekki alveg svona einfalt því mikið af mjólkurvörum í dag eru uppfullar af viðbættum sykri og gervisætu. Það er því ekkert því til fyrirstöðu fyrir flesta Íslendinga að neyta mjólkurvara tvisvar til þrisvar sinnum á dag en reyna ætti að hafa viðbættan sykur eða sætuefni í algjöru lágmarki!
Það er reyndar ekkert ”sexý” eða spennandi við það að ráðleggja fólki að drekka mjólk hóflega og margir hlusta ekki á þær ráðleggingar og vilja helst einhvern ”kúr” þar sem skornar eru í burtu einhverjar matvörur eða heilu fæðuflokkarnir.
Spurningar um matinn sjálfan: Er maturinn ríkur af vítamínum og steinefnum (lestu á umbúðir)? Hvert er hlutfallið milli góðra næringarefna sem við viljum vs. þau sem við viljum síður t.d trefjar vs. hvítur sykur? Hvaðan er maturinn, er hann ferskur eða mikið unninn?
Hversu mikið af matnum borðar þú? Borðar þú þig hóflega sadda/n af matnum eða of mikið eða of lítið?? Það er dæmi um óhollan mat ef maður mettist illa og fjótt svangur aftur.
Hvering líður þér þegar þú borðar matinn? Dæmi um óhollan mat er ef þú færð samviskubit yfir að hafa borðað matinn. Við vissum að þetta var óhollur matur en við borðuðum hann samt og líka allt of mikið af honum. Þetta gerist oft með sælgæti og bakkelsi. Þó er það líka merki um sálfræðileg vandamál ef samviskubit kemur oft upp þegar borðað er þó hollur matur sé borðaður.
Líður þér vel eftir að hafa borðað matinn eða koma upp líkamleg óþægindi tengd neyslu hans? Matur á ekki að valda manni líkamlegum óþægindum og ber að takmarka hann ef hann gerir það, dæmi er mjólkuróþol hjá sumum. Þó við tökum nú ekki eftir því þá getur skyndibitamatur og mikið brasaður matur valdið líkamlegum vandamálum til lengri tíma vegna næringarleysis og tómra hitaeininga.
Veist þú til þess að mataræði þitt sé snautt af ávöxtum, grænmeti, fiski eða öðrum freskum vörum? Prófaðu að borða sem fjölbreytilegast í stað þess að vera alltaf að reyna að skera einhverja fæðuflokka úr mataræði þínu! Prófaðu eitthvað nýtt í mataræðinu sem oftast.
Vissulega er hægt að borða mismunandi “hollan” mat eftir því hvað maður er að reyna að ná útúr mataræði sínu. Hvaða markmiðum ert þú að reyna að ná líkamlega? Þyngdartap (ferskur matur, vatn og hófsemi)? Lægri blóðsykur (minni sykur) eða blóðþrýstingur (gæta að saltneyslu)? Bæta tíma í 10 km hlaupi (góð kolvetni sem bensín á hlaupum og blanda af kolvetnum og próteinum eftir æfingar)? Reyna að minnka magakrampa og uppþemdan maga (gæti verið mjólkuróþol, minni kaffidrykkja, minna af brösuðum mat).
Í hreinskilni er allur matur leyfilegur sem hluti af heilbrigðum lífsstíl, þó að sumar matvörur henti betur í því skyni en aðrir líkt og bent var á hér að ofan. Það er til fullt af mat sem telst ekki “hollur” en nærir sálina með guðdómlegu bragði og unaði.
Heimild: heilsugeirinn.is