Kalíum og natríum vinna saman að eðlilegu vökvajafnvægi í líkamanum. Kalíum er mikilvægt fyrir efnahvörf í frumum það hjálpar til við að viðhalda jöfnum blóðþrýstingi og flutning rafboða til fruma. Einnig stjórnar kalíum flutningi næringarefna í gegnum frumuhimnur.
Sífellt fleiri rannsóknir benda til jákvæðra áhrifa kalíums og magnesíums gegn háþrýstingi og ýmis konar hjartasjúkdómum. Einnig leiddi rannsókn á fólki með síþreytu í ljós að neysla kalíums og magnesíums (1 g af hvoru á dag) dró úr einkennum þeirra.
Kalíum er helst að finna í grænmeti, sérstaklega grænu blaðgrænmeti, ávöxtum, fræjum, hnetum, kartöflum og korni. Bananar og avókadó eru einstaklega góð uppspretta af kalíum. Kaffi, tóbak, þvagræsilyf, sykur og áfengi eru gagnvirk kalíumi.
Skortur á kalíum er fremur óalgengur en kemur helst fram hjá fólki sem notar þvagræsandi lyf þar sem þau eyða kalíum úr líkamanum.
Einkenni skorts lýsa sér sem bjúgur, blóðsykurskortur, háþrýstingur, þreyta, slen, vöðvaverkir, húðþurrkur, niðurgangur, harðlífi, skert starfsemi ósjálfráða taugakerfisins, taugaveiklun, þrálátur þorsti, hjartsláttaróregla, sykuróþol, svefnleysi, lágþrýstingur, og þrálátir höfuðverkir.
Ráðlagðir dagsskammtar:
Ungbörn til 3 ára: 800 mg
Börn 3 til 6 ára: 1100 mg
Börn 7-10 ára: 2000 mg
Karlar frá 11 ára aldri: 3500 mg
Konur frá 11 ára aldri: 3100 mg
Konur á meðgöngu eða með barn á brjósti: 3100 mg
Heimildir: heilsa.is