Fólki er ráðlagt að auka magn trefja í fæðu þar sem rannsóknir sína æ betur mikilvægi trefja í fæðunni til að bæta heilsu og vinna gegn sjúkdómum eins og sykursýki 2, krabbameinum, offitu og hjartasjúkdómum.
Trefjaríkt fæði er mest í óunnum matvörum eins og; heilkorni, hnetum, fræjum, baunum, höfrum, byggi, rúgi, grænmeti og ávöxtum. Fljótandi trefjar virka vel til að lækka kólesteról, til dæmis í hafraseyði og appelsínum. Mjög gott er að kíkja á vef Matís til að sjá magn trefja í ákveðnum fæðutegundum sem þú velur, þar eru einnig uppskriftir og ýmsar upplýsingar eins og um næringargildi matvæla.
1. Trefjar draga vatn inn í garnirnar svo fæðið verður fyrirferðarmeira og það dregur úr hægðatregðu
2. Trefjarík fæða bindur sig galli og dregur til sín kólesteról úr líkamanum og minnkar þannig líkur á kransæðasjúkdómum
3. Trefjar hægja á uppsogi sykrunga, því er ólíklegra að fólk sem borðar meiri af trefjum fái sykursýki
4. Trefjarík fæða eins og ávextir og grænmeti virka verndandi gegn sumum tegundum af krabbameini
5. Almennt er þessi flokkur fæðu með fáar hitaeiningar en inniheldur mikið af vítamínum og málmsöltum og er því góður kostur til að vinna gegn hungurtilfinningu hjá þeim sem vilja léttast
Finnsk rannsókn var framkvæmd með þátttöku 4,300 karla og kvenna. Fólkinu var fylgt eftir í 10 ár og sýndu niðurstöður að tengja má litla neyslu trefja við nýgengi sykursýki af tegund 2. Þeir þátttakendur sem borðuðu mest af trefjum (29 gr/dag) voru með mælanlega minni tíðni sykursýki en þeir sem borðuðu minnst (12 gr/dag) , þegar búið var að taka tillit til líkamsþyngdarstuðuls, reykinga, aldurs, magns ávaxta og grænmetis í fæðu auk annarra áhrifaþátta.
Ráðlagt er að borða um 25-30 gröm af heilkornmeti á dag til að ná bestri mótstöðu gegn sykursýki.
Grein af vef heil.is