Hver er munurinn á næringarríkum mat og hitaeiningaríkum mat?
Það þarf ekki að vera mikill munur á næringarríkum mat og hitaeiningaríkum mat það er vegna þess að næringarríkur matur er einnig oft hitaeiningaríkur. Staðreyndin er hins vegar sú að hitaeiningaríkur matur er það oft vegna þess að hann er mjög fituríkur og jafnvel ríkur af óhollari tegundum af fitu, til að mynda mettaðri fitu (harðri fitu), transfitu svo og kólesteróli. Þetta eru fitutegundir sem við viljum forðast í miklu magni vegna þess að þær geta haft mjög neikvæð áhrif á heilbrigði hjarta og æðakerfis og ýtt undir ofþyngd og offitu sem síðar getur leitt til sykursýki týpu 2, háþrýstings og ýmissa stoðkerfisvandamála. Offita er einnig tengd aukinni hættu á sumum tegundum krabbameins.
Hátt hlutfall sykurs í fæðutegundum getur einnig valdið því að þær verða mjög hitaeiningaríkar og það sem verra er á sama tíma einnig næringarsnauðar.
Fríða Rún Þórðardóttir , Næringarfræðingur