Ráðleggingar um mataræði og næringarefni enn í fullu gildi
Í ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði og næringarefni, sem byggja á bestu þekkingu hvers tíma, er ráðlagt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi því engin ein fæðutegund inniheldur öll nauðsynleg næringarefni hversu holl sem hún er talin. Til að við fáum öll þau næringarefni, sem líkaminn þarf á að halda, er mælt með að borða sitt lítið af hverju enda veita mismunandi fæðutegundir mismikið af ýmsum hollefnum.
Mikilvægt er að velja fyrst og fremst matvæli sem eru rík af næringarefnum, svo sem grænmeti, ávexti, gróft kornmeti, belgjurtir, fituminni mjólkurvörur, fisk, þorskalýsi, magurt kjöt og fleira. Þessar ráðleggingar eiga almennt við fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri og eru enn í fullu gildi. Með því að fylgja ráðleggingunum má koma í veg fyrir skort á næringarefnum og draga úr líkunum á ýmsum langvinnum sjúkdómum. Sé þess gætt að hafa jafnvægi á milli matar og hreyfingar má einnig stuðla að heilbrigðri líkamsþyngd.
Lágkolvetna mataræði þar sem kolvetnaneysla er takmörkuð við 20-30 grömm á dag er ekki í samræmi við þessar ráðleggingar. Slíkt mataræði getur e.t.v. hentað ákveðnum hópum, undir leiðsögn fagaðila, en er ekki ráðlagt fyrir almenning.
Nýjar norrænar næringarráðleggingar, NNR5
Nýjar norrænar næringarráðleggingar hafa verið til umsagnar að undanförnu og er hluti þeirra enn til umsagnar. Áherslubreytingar sem þegar liggja fyrir fela í sér aukna áherslu á mataræðið í heild sinni. Mælt er með mataræði sem inniheldur mikið af trefjaríkum mat úr jurtaríkinu (t.d. dökkgrænu blaðgrænmeti, káli, lauk, baunum og ertum, rótargrænmeti, ávöxtum og berjum, hnetum og heilkornavörum), þar sem fiskur og sjávarafurðir eru oft á borðum. Þá er mælt er með því að nota jurtaolíur, velja fituminni mjólkurvörur og takmarka saltneyslu.
Með þessu mataræði má minnka hættu á flestum fæðutengdum langvinnum sjúkdómum. Ef hins vegar orkuríkar fæðutegundir sem innihalda lítið af nauðsynlegum næringarefnum og trefjum, eins og sykraðir drykkir, sætar bakarísvörur eða sælgæti, fínunnar kornvörur og fita á föstu formi, eru ríkur þáttur neyslunnar eykst hættan á langvinnum sjúkdómum og þyngdaraukningu. Einnig getur mikil neysla á unnum kjötvörum og rauðu kjöti aukið líkur á neikvæðum heilsufarsáhrifum og langvinnum sjúkdómum.
Til stendur að nýju norrænu ráðleggingarnar verði teknar upp í október n.k. og verða íslensku ráðleggingarnar teknar til endurskoðunar í kjölfarið.
Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir
næringarfræðingar hjá Embætti landlæknis
Ítarefni:
Ráðleggingar um mataræði og næringarefni (PDF)
Heimasíða norrænu næringarráðlegginganna, NNR5