Mindful eating eða að nærast í núvitund snýst um sameina aðferðir núvitundar (mindfulness) og það að borða. Að nærast í núvitund snýst um að taka eftir augnablikinu án þess að dæma, að taka eftir hugsunum, tilfinningum og upplifunum í sambandi við mat og að sýna sjálfum okkur góðvild þegar við borðum. Þegar við beinum athyglinni að því sem við erum að gera fáum við tækifæri til að nýta skilningarvitin til að upplifa, til að njóta matarins og til að hlusta eftir merkjum líkamans.
Þegar við hægjum á okkur og njótum matarins gefst okkur tækifæri til að uppgötva nýja hluti um matinn sem við borðum. Við gætum uppgötvað að okkur líkar ekki við sama mat og áður eða að við þurfum minna magn en áður til að finnast við vera södd. Við gætum uppgötvað hvaða matur lætur okkur líða vel bæði andlega og líkamlega. Þegar við nærumst í núvitund lærum við að hlusta betur á merki líkamans og getum samþætt innri og ytri visku til að næra okkur sjálf. Við lærum að njóta þess að borða það sem við veljum að borða án þess að fá samviskubit.
Þegar við nærumst í núvitund fáum við tækifæri til að staldra við, anda djúpt, slaka á og hlusta þó það sé ekki nema í örstutta stund. Við fáum tækifæri til að vera forvitin og áhugasöm um okkur sjálf, spyrja spurninga og hlusta með góðvild og án þess að dæma. Við fáum tækifæri til að öðlast heilbrigðara samband við okkur sjálf og matinn sem við borðum. Við getum byrjað að treysta okkur sjálfum þegar kemur að mat og matarvenjum. Við getum þróað samband við mat sem er friðsælla en áður og þá er nú til einhvers unnið.
Það eru margar og fjölbreyttar æfingar og aðferðir sem hægt er að nýta sér í því ferli að læra að nærast í núvitund. Aðferðin sem ég kenni alltaf fyrst er örhugleiðsla, sú allra styðsta hugleiðsla sem ég veit. Hana er hægt að nota áður en maður byrjar að borða eða í rauninni hvenær sem er þegar maður þarf örlitla slökun inn í daginn sinn.
Réttu úr bakinu, slakaðu á öxlunum og taktu nokkra djúpa andardrætti. Lokaðu augunum ef þú vilt (og ert búin/n að lesa æfinguna). Leyfðu þér að hlusta, án þess að dæma. Athugaðu hvernig þér líður bæði andlega og líkamlega. Haltu áfram að anda djúpt. Finndu hvernig þú andar að þér slökun og ró og andar frá þér streitu. Taktu nokkra andardrætti í viðbót og opnaðu augun (ef þú lokaðir þeim) þegar þú ert tilbúin/n. Teygðu úr þér og rúllaðu öxlunum.
Nú geturðu byrjað að borða eða haldið áfram með daginn þinn.
Það eru fleiri fletir á því að nærast í núvitund en þetta er ágætis byrjun. Til að fræðast meira um um næringu og núvitund geturðu skráð þig á frítt örnámskeið á heimasíðunni www.rgudjons.com.
Ragnheiður Guðjónsdóttir er næringarfræðingur og stofnandi heimasíðunnar www.rgudjons.com