Í desember tekur matarmenning flestra Íslendinga nokkrum stakkaskiptum og hefðbundnar jólaauglýsingar um mat og drykk tileinkað jólahátíðinni freista okkar svo ekki sé meira sagt. Það er mikilvægt að hugsa til þess að við upplifum þennan hátíðartíma aðeins einu sinni á ári og því er um að gera að njóta þess til fullnustu. Það er nefnilega ekki bara maturinn sjálfur og bragðið heldur hefðirnar og samvistir við fjölskyldu, vini og vinnufélaga sem léttir skammdegið og styttir veturinn.
Þrátt fyrir alla gleðina og eftirvæntinguna þá er desembermánuður erfiður tími fyrir marga, sérstaklega þá sem eiga við sjúkdóma að stríða, hvort heldur andlega sjúkdóma eða sjúkdóma þar sem meðferðin, batalíkurnar og lífgæði til framtíðar byggja á sérstöku mataræði og aðhaldi. Þetta á við um sykursjúka, nýrnasjúkdóma og þá sem eiga í vandamálum með hjarta- og æðaheilsu.
Fyrir þá sem hafa lagt hart að sér í heilsuræktinni er desember einnig oft mikill höfðuverkur og jafnvel kvíðaefni því hver vill fara aftur í sama farið hvað varðar lífsstíl, fæðuval og freistingar þegar svo langan tíma hefur tekið að byggja það upp og koma í fastan farveg. Hugarfar okkar og aginn skiptir einnig gífurlega miklu máli. Það er vel hægt að njóta þess sem hátíðarnar hafa upp á að bjóða en borða á sama tíma hollan og næringarríkan mat með reglubundnu millibili yfir daginn. Það að hreyfa sig eins og áður má ekki gleymast. Ef að morguninn er eini tíminn sem er öruggt að þú komist þá er um að gera að opna hugann fyrir þeirri hugmynd þó svo að morgunæfingar hafi valdið þér hryllingi áður. Auðvitað er það samningsatriði milli sambýlisfólks ef börn eru á heimilinu en oftast er hægt að finna leiðir til að nýta þann möguleika.
Oft segjum vð að það sé markmið út af fyrir sig að halda í horfinu í desembermánuði og fara svo inn í nýtt ár með ný og fersk markmið, láta alla hina draga sig með í þeim heilsuræktar anda sem gjarnan grípur um sig í janúar. Margir taka á það ráð að skrifa matardagbók og æfingadagbók til að halda sér við efnið í desember, það er ágætt ráð en má samt ekki verða til þess að sektarkennd grípi um sig í tíma og ótíma.
Jólahlaðborðin kveikja oftar en ekki jólastemminguna og þar kennir margra grasa. Mikilvægasta sem þarf að hafa í huga varðandi jólahlaðborðin er að mæta ekki í þau sársvangur. Það er ávísun á að borða yfir sig og finna jafnvel heldur mikið fyrir áfenginu sem mögulega er drukkið samhliða eða jafnvel á undan. Staðgóð en létt máltíð í hádeginu og t.d. boozt eða sambærilegt í kaffitímanum er góður valkostur. Próteinrík fæða gefur lengri mettunartilfinningu og svo gera einnig trefjarnar í ávöxtunum. Annað er að skammta sér skynsamlega á diskinn og nota forréttar- eða jafnvel eftirréttardisk í hverri ferð.
Nú er úrvalið fjölbreytt á slíkum hlaðborðum og um að gera að velja óreyktan mat á móti hangikjötinu og setja líka grænmeti á diskinn. Að lokum er að borða hægt og njóta matarins og drekka vatn með matnum og gosinu eða víninu sé það haft með. Svo talað sé um vínið og bjórinn þá er gott að muna að það er mjög auðvelt að „drekka á sig“ fjöldann allan af kaloríum með aðeins einum drykk. Einn bjór getur innihaldið á bilinu 200-350 kaloríur og oftar en ekki er bjór drukkinn eins og nokkurskonar svaladrykkur og þá oft mikið af honum. Sterkari vín og kokteilar eru einnig mjög orkuríkir og passa því frekar illa inn í þann fremur þrönga orkuramma sem við flest höfum.
Hátíðarmaturinn er oft mjög saltríkur og því þarf að gæta enn betur að því að drekka nógu mikinn vökva yfir daginn. Þetta er á bilinu 1 ½ til 2 ½ l á dag (6-8 glös) háð líkamsstærð og því hversu mikið við svitnum, vökvi á formi kranavatns, bragðbætts vatns án sykurs eða sætuefna auk þess sem glas af hreinum ávaxtasafa og magurri mjólkurvörur getur vel passað inn í þetta viðmið. Ef vökvaþörfinni er ekki fullnægt, sér í lagi þegar fæðið er mjög saltríkt, getur það leitt til vökvasöfnunar og bjúgmyndunar. Einnig er algengt að þeir sem eiga við hjarta- og æðasjúkdóma að stríða, hvað þá nýrnasjúkdóma, þurfi hreinlega að leggjast á sjúkrahús af völdum fæðunnar sem þeir velja sér, gæti þeir ekki að sér.
Jólaboðin heimafyrir eru oft nokkuð fastmótuð en það er um að gera að nota hugmyndaflugið og bjóða upp á meðlæti úr ýmiskonar grænmeti samhliða því hefðbundna, ekki bara fyrir sakir hollustunnar heldur gefur litskrúðugt grænmeti veisluborðinu aukið gildi fyrir augað, við borðum nefnilega fyrst með augunum! Við metum líka hlutina með augunum og þá komum við aftur að diskastærðum og öðrum borðbúnaði en fyrir suma þá borða þeir hóflegar þegar þeir taka sér mat og meðlæti úr minni ílátum en stærri hvað þá heldur þegar sett er í minni skálar og á smærri diska. Þetta gæti haft gildi t.d. með feita eftirrétti og meðlæti.
Þó svo að hátíðarmaturinn sé til að njóta hans þá má hæglega nota magrara hráefni, sér í lagi ef að það er eitthvað sem fjölskyldu meðlimir eru vanir. Til að mynda að nota matreiðslurjóma í staðinn fyrir venjulegan rjóma og 10-18% sýrðan rjóma á móti eða í staðinn fyrir majonese. Enn og aftur er það þó magnið sem skiptir mestu máli.
Desember einkennist af óhefðbundnum dögum og miklum erli vegna undirbúnings og jólagjafakaupa þrátt fyrir langan opnunartíma verslana og veitingahúsa. Því þarf skipulagið að vera gott og ekki má láta streituna koma niður á matmálstímum, næringu og heilsunni. Hér geta veitingahúsin verið góður kostur en á sama tíma þarf okkar val að vera gott og maturinn næringarríkur. Það er um að gera að nýta sér hina mörgu matsölustaði sem sérhæfa sig í hollum, ferskum og fljótlegum mat. Þar má nefna Nings, Ginger, Salatbarinn, Serrano, Saffran, Metró, Culiacan, Gló og Krúsku svo nokkur dæmi séu tekin auk þess sem fjöldi staða bíður upp á fjölbreyttan salatbar, súpur og hollusturétti. Matarmikil kjúklingasalöt og sjávarréttasalöt geta verið góð uppspretta næringar fyrir líkamann og augað.
Það getur verið erfitt að feta hinn gullna meðalveg í lífinu og svo er einnig með hátíðarmatinn og lífstílinn yfir hátíðarnar. Njótum hátíðanna eins vel og okkur er unnt í samvistum við þá sem við elskum og þykir vænt um, setjum ást og umhyggju í það sem við matreiðum, berum á borð, gerum og gefum og eigum gleðilega hátíð og farsælt nýtt ár.
Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi