Næringartengd ráð við háþrýstingi
Þegar blóðþrýstingur mælist of hár er nauðsynlegt að huga að saltneyslu og draga úr magni af salti í mat og við matargerð. Einnig að draga úr neyslu á unnum kjöt- og fiskvörum og kraftsúpum. Elda í staðinn, sem mest úr fersku hráefni og forðast að nota mikið af kryddblöndum sem innihalda salt; þar eru algengastar Season all og ýmsar kryddblöndur t.d. frá Knorr. Að auki eru það tegundir þar sem gefið er til kynna að salt sé eitt af aðal innihaldsefnunum t.d. lauksalt og hvítlaukssalt.
Sojasósa innheldur mikið af salti auk þess sem hún er mjög þunnfljótandi og því auðvelt að nota of mikið af henni. Farðu því varlega í sojasósuna og vertu með athyglina við diskinn þegar þú setur hana yfir matinn þinn.
Það er ekki nauðsynlegt að nota eingöngu saltlaus krydd og kryddblöndur þegar elda á mat fyrir þá sem þurfa að minnka saltmagnið í fæðunni. Það er hins vegar einfaldasta leiðin þar sem oftast vantar upplýsingar um magn af salti í blönduðum kryddum og því erfitt að áætla nákvæmlega magnið af salti sem fer í matinn.
Með því að lesa á innihaldslýsingar á kryddblöndum má hins vegar bera saman mismunandi tegundir og meta hvaða tegund inniheldur minnst af salti. Eftir því sem salt er talið upp aftar í innihaldslýsingunni, þeim mun minna er af því.
Heilsusamlegast er að leggja áherslu á fersk og þurrkuð krydd og kryddjurtir og að nota mikið af grænmeti með matnum og við matargerðina. Laukur og rauðlaukur gerir til dæmis mjög mikið fyrir réttinn sem hann er notaður í og appelsínur, sítrónur og ananas sömuleiðis en þeir hafa þann eiginleika að auka bragð í heitum réttum og salötum.
Mikilvægast af öllu er þó að temja sé að smakka matinn fyrst áður en saltstaukurinn er tekinn og stráð úr honum yfir matinn.
Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur