Svokallað Paleó fæði (en: peleolithic diet) nýtur töluverðra vinsælda í dag, bæði hjá íþróttafólki sem og þeim sem huga að heilsunni og eru opnir fyrir nýjungum. Nútíma Paleó fæði er sniðið að því fæði sem samkvæmt vísindum dagsins í dag samræmist því fæði sem fornmenn neyttu en þaðan kemur heitið Paleó sem vísar í tímabilið sem formenn voru uppi á sem kallast Paleolithic og er tímasett fyrir um það bil 15.000 árum. Fæðið er einnig kallað steinaldarfæði (en: stone age), hellisbúafæði (en: caveman) og Hunter-gatherer fæði (en: hunter-gatherer). Það ber alls ekki öllum saman um það hvort að Paleó fæði sé betra umfram annað fjölbreytt og lítið unnið fæði sem ráðlagt er í dag. Samsetning Paleó fæðisins er í raun holl og næringarrík í flesta staði en það sem flestum finnst þó hamlandi er að um er að ræða tiltölulega kostnaðarsaman matseðil.
Uppbygging fæðisins
Algengt er að ráðlögð skipting milli orku úr jurta- og dýraríkinu sé 36 - 45% á móti 56 - 65% þetta segir þú ekki endilega til um skiptinguna út frá magni þar sem dýraafurðir eru að meðaltali orkuríkari heldur en jurtaafurðir (fyrir utan jurtaolíur).
Ef að algeng viðmið fyrir orkuefnin eru skoðuð má sjá að Paleó fæðið er tiltölulega prótein og fituríkt en heldur lágt í kolvetnum. Hlutföllin eru á bilinu 19 – 35 % prótein, 28 – 58 % fita og 22 – 40 % kolvetni en slíkt fæði gæti verið of lágt í kolvetnum fyrir íþróttafólk og aðra sem hreyfa sig mikið. Þó gefur það fæðuval sem ráðlagt er á Paleó fæðinu gott svigrúm til að uppfylla kolvetnaþörfina.
Mataræðið byggir mikið á hreinni óunninni fæðu sem helst er lífrænt ræktuð. Fiskur, egg, kjöt og innmatur (helst af villibráð og dýrum sem alin eru á grasi) eru uppsprettur próteina, einnig hnetur og fræ. Ávextir, grænmeti, rætur og sveppir eru uppsprettur kolvetna og trefja. Óunnar olíur úr jurtaríkinu, til að mynda ólífuolía eru uppspretta fitu auk fitu úr hnetum, fræjum, fiski og kjöti. Ýmiskonar jurtir og kryddjurtir, jafnvel skordýr er innifalið. Hins vegar ber að forðast mjólkurafurðir, kornafurðir, þar með talið hveiti, hafra, maís, hrísgrjón, einnig baunir og kartöflur svo og allan unninn mat, sykur og áfengi.
Mikið er lagt upp úr neyslu á omega-3 fitusýrum, sem er ein ástæðan fyrir því að dýr sem alin eru á grasi eiga meira upp á pallborðið þar sem kjötið er ríkara af omega-3 fitusýrum. Þetta leiðir til þess að hlutfallið milli omega-6 og omega-3 verður lágt (en: omega-6/omega-3 ratio) sem er samkvæmt ráðlegginum næringafræðinnar í dag en er því miður gagnstætt því sem það er í mataræði flestra.
Næringarefni, mögulega af skornum skammti
Þau næringarefni sem helst gætu orðið af skornum skammti eru kalk og D-vítamín þar sem mjólkurafurðir eru ekki notaðar. Laufgrænt grænmeti og sesamfræ inniheldur þó kalk sem nýtist líkamanum ágætlega en sumir mæla samt sem áður með kalktöflum til að tryggja nægjanlegt kalk. Ef að neysla á feitum fiski er ekki mikil gæti komið til skortur á D-vítamíni en aukin fiskneysla og útivera í hádegissólinni í um 30 mínútur, tvisvar í viku, myndi vinna gegn þeim skorti.
Einnig eru vangaveltur um það hvort að mögulega geti komið til skortur á löngum fjölómettuðum fitusýrum (en: long chain poly unsaturated fatty acids). Til að mynda omega-6 fitusýrunni arachidonic sýru (AA) og docosahexaenoic acid (DHA) sem er omega-3 fitusýra. Reyndar getur mannslíkaminn umbreytt lífsnauðsynlegu fitusýrunni alfa línólen sýru (en: alfa linolenic acid) yfir í DHA og benda margir á að fullnægja megi þörfinni á þann máta þó svo að megin uppistaðan fæðunnar komi úr jurtaríkinu.
Reyndar eru hnetur ríkar af AA og feitur fiskur ríkur af DHA og því ætti nútímamaðurinn að eiga auðvelt með að fullnægja þörfum sínum fyrir langar fjölómettaðar fitusýrur þar sem framboð á þessum fæðutegundum er ríkulegt í nútíma samfélagi.
Hreyfing og Paleófæði
Áhugaverð viðbót við umræður um Paleó fæðið er sú mikla hreyfing sem mælt er með að stunduð sé samhliða heilsusamlegu mataræði og hæfilegum skammtastærðum. Þar er vísað til þeirrar miklu hreyfingar í daglegu lífi sem maðurinn stundaði fyrr á öldum og borið saman við þá kyrrsetu sem of margir leyfa sér í dag þrátt fyrir að vitað sé að skortur á hreyfingu veldur rýrnun á vöðvamassa og aukinni fitusöfnun. Slíkt getur leitt til insúlín viðnáms og áunninnar sykursýki. Þessu til stuðnings er bent á að líklega eyddu þeir sem uppi voru á þessum tíma um þriðjungi af sinni orkuþörf í hreyfingu eða um 1000 kcal á dag að meðaltali.
Ekki allir sammála
Sérstaða rannsókna á Peló fæðinu er sú að verið er að skyggnast ár þúsundir aftur í tímann. Verið er að draga ótal ályktanir út frá gena- og fornleifarannsóknum og eru þessar rannsóknir efalaust ekki nægjanlega langt á veg komnar. Það góða er þó að margt í Peló ráðleggingunum um mat, drykk og hreyfingu er í takt við þær ráðleggingar sem vísindin ráðleggja í dag, þó svo að ekki sé allt sambærilegt.
Eins og áður hefur komið fram er almennt talið að til þess að tryggja að öll næringarefnin berist líkamanum í nægjanlegu magni þá sé mikilvægt að sleppa ekki úr heilu fæðuflokkunum, eins og gert er gagnvart mjólkurafurður á Paleó fæðinu, nema að um ofnæmi eða óþol sé að ræða.
Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur.