Þurfum við þess nokkuð. Er ekki bara allt í lagi að borða vel um hátíðarnar og taka sig svo á eftir jólin?
Þurfum við þess nokkuð. Er ekki bara allt í lagi að borða vel um hátíðarnar og taka sig svo á eftir jólin?
Það er auðvitað ekkert að því að freistast öðru hvoru og leyfa sér að borða konfekt, kökur og jólahangikjötið. En spurningin er bara um magnið. Ef á boðstólnum eru 5 veislur yfir hátíðarnar, nokkur jólahlaðborð og fullt af kökum og konfekti alla dagana í aðventunni er það fljótt að sjást á vigtinni svo ekki sé talað um almenna líðan eftir slíkt át.
Ef vaninn á þínu heimili er að baka, er gott að taka þá ákvörðun að baka bara fáar sortir og jafnvel bara eina sem allir elska. Það er líka hugmynd að reyna að gera uppskriftina aðeins hollari með því til dæmis að minnka sykurmagnið. Ef konfektgerðin er rík hefð er auðvelt að verða sér úti um hollar og góðar uppskriftir af konfekti sem inniheldur ekki hvítan sykur eða aðra óhollustu og bragðast alveg jafn vel eða betur.
Allt er gott í hófi. Það er fínt að leyfa sér að borða eins og mann langar í einni veislu, borða eina og eina smáköku og fá sér svo konfekt nokkrum sinnum. Þannig át sést ekki á vigtinni og maður fær ekki neina ofátstilfinningu né nagandi samviskubit.
Já, desember getur verið mörgum erfiður mánuður þegar verið er að reyna að halda sig í heilbrigðu og hollu mataræði. Ef þú ert komin(n) stutt á veg í því að breyta um lífsstíl getur vel verið að þú kvíðir því að þurfa að standast allar freistingarnar. Oft reynist fólki erfitt að halda áfram að borða hollt eftir að hafa átt einn eða fleiri daga þar sem hollustan var ekki í fyrirrúmi.
Ef þú missir þig einn dag þá er bara um að gera að snúa við blaðinu strax. Byrjaðu strax aftur í hollustunni. Þú þarft ekki að bíða eftir næsta degi eða að ákveða að sukka það sem eftir lifir af mánuðinum. Margir nota þá afsökun að desember sé svo erfiður að best sé bara að missa sig og byrja svo bara upp á nýtt í janúar.
Ef þetta er hugsunarhátturinn þá ertu ekki kominn þá þann stað sem þú vilt vera á ef þú vilt temja þér hollar matarvenjur. Það kemur fyrir flestalla sem aðhyllast hollar matarvenjur og heilbrigðan lífsstíl að „detta í það“ í mat stöku sinnum. Þá er um að gera að fyrirgefa sjálfum sér og halda svo áfram á beinu brautinni. Ef þú átt erfitt með að standast konfektið á borðinu, vertu þá búinn að ákveða það að fá þér einn uppáhalds mola, borðaðu hann hægt og njóttu hans vel því í boði eru ekki fleiri, að minnsta kosti ekki í dag.
Höf:
Alma María Rögnvaldsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Grein af vef islenskt.is